Ég var á Arnarhóli fyrir 50 árum

Steingerður Steinarsdóttir

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar. 

 

Ég var á Arnarhóli á Kvennafrídaginn fyrir 50 árum og ég man enn gleðina, samstöðuna sem var næstum áþreifanleg og hvað ég var hreykin af því að vera íslensk kona og tilheyra þessum hópi. Það var ekki sjálfgefið að fara niður í bæ þennan dag og líklega gera ungar konur í dag sér ekki alveg grein fyrir að það þurfti hugrekki til.

Ég var sextán ára og hafði vikurnar og dagana á undan hlustað á umræður fullorðna fólksins um þetta boðaða kvennafrí. Það sýndist sannarlega sitt hverjum. Margir töluðu um vinnusvik, að konur ætluðu að svíkja vinnuveitendur sína um 8 vinnustundir. Það væri siðferðilega rangt og ekki til eftirbreytni meðan aðrir bentu á að launamunur kynjanna væri slíkur að konur ættu inni þennan frídag og meira til. Engu að síður var til umræðu að vinnuveitendur væru í fullum rétti til að draga af launum kvennanna sem færu í bæinn þennan dag.

Á þessum árum voru enn heimavinnandi húsmæður og algengt að konur tækju löng hlé frá vinnumarkaði í kringum barneignir. Fæðingarorlofið var þrír mánuðir og fæstum foreldrum fannst það nægur tími til að sinna ungbarni svo vel væri. Alltaf var það konan sem tók þetta þriggja mánaða orlof bæði til að tengjast barninu og jafna sig líkamlega eftir fæðinguna. Ef ekki fékkst dagmamma og barnaheimilispláss var konan áfram heima. Það var sjálfsagt og eðlilegt og mamma mín sem hafði verið heimavinnandi allan minn uppvöxt taldi ekki ástæðu til að leggja niður störf þennan dag og fara niður á Arnarhól. Þetta fylgdi því að vera kona og fæða börn í heiminn að hennar mati.

Ég var nemandi í Menntaskólanum við Hamrahlíð og þar var okkur sagt að þeir kvenkynsnemendur sem færu úr skólanum þennan dag fengju mætingapunkta og yrðu að taka ábyrgð á gjörðum sínum á þann hátt. Ég og besta vinkona mín mættum í skólann um morguninn en sátum saman í matsalnum eftir fyrstu tvo tímana og ræddum hvað ætti að gera. Við skynjuðum að þetta væri mikilvægt, að það skipti máli að taka þátt og við ákváðum að fara. Láta skeika sköpuðu með mætingapunktana og sýna samstöðu.

Í dag er ég hreykin af að hafa staðið þarna í hópi tugþúsunda annarra kvenna, hafa skynjað kraftinn og fundið hvers megnugar konur eru. Þarna sannfærðist ég um að það þyrfti að breyta samfélaginu, að jafnrétti væri nauðsynlegt til að Ísland gæti stært sig af því að vera velferðarsamfélag. Ég er þess fullviss að Kvennafrídagurinn var vendipunktur í baráttu íslenskra kvenna fyrir mannréttindum. Lítum bara á hvað hefur áunnist, fæðingarorlofið er ár og báðir foreldrar njóta þess, tvær konur hafa gengt embætti forseta Íslands, kona er ríkislögreglustjóri og kona er lögreglustjóri í Reykjavík, tvær konur hafa verið biskupar yfir Íslandi og þrjár konur verið forsætisráðherrar í ríkisstjórnum landsins. Konum fjölgar í stjórnum fyrirtækja og varla er til sá vettvangur í atvinnulífinu að konur hafi ekki sýnt og sannað að þær geti lagt þar hönd á plóg og auðgað fagið.

Ekkert af þessu hafði gerst þegar ég stóð unglingskrakki á Arnarhóli óviss um hvort ég hefði gert rétt að fara og sætta mig við að fá mætingapunkta í kladdann sem reyndar var svo fallið frá vegna þess hve samstaðan var mikil. En þrátt fyrir öll þessi stóru skref, allar þessar framfarir heyrast enn raddir er kveða á um að kvennafrí eigi ekki rétt á sér. Kaffihúsin í bænum eru opin og þar standa konur við afgreiðslu, á hótelunum ganga þernur um og þrífa herbergi og þær hætta meiru en mætingapunktum ef þær ganga út og taka þátt í samstöðufundi. Enn er bið eftir barnaheimilisplássi og enn eru það konur sem taka á sig að þreyja þá bið og kosta oft til framgangi í starfi. Enn heyrum við raddir er hrópa að konur vilji ekki jafnrétti heldur forréttindi, að þær vilji leggja samfélagið í rúst og umsnúa þeim hlutverkum sem náttúran sjálf úthlutaði dýrategundinni homo sapiens og þar með skaða mannkynið. Enn viðgengst kynbundið ofbeldi og réttarkerfið virðist ófært um að taka á því og enn mega samkynhneigðir, transfólk og aðrir minnihlutahópar þola útskúfun, áreitni og misrétti. Fyrir svo utan að konur víða um heim búa við alvarlega kúgun og ofríki innan samfélaga sinna. Mikið væri nú gaman ef andi samstöðu og gleði fengi í dag að ríkja ómengaður og trúin á besta leiðin til að skapa gott samfélag sé að treysta undirstöður þess með því að virða mannréttindi allra og sýna umburðarlyndi, kærleik og skilning í verki.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.