Tengdar greinar

Eigum við að lesa einkabréf eða dagbækur látinna foreldra?

Margir sem nú eru komnir yfir miðjan aldur, eiga gömul sendibréf og hafa jafnvel haldið dagbækur um líf sitt. En hvað á að gera við þetta efni, þegar fólk fellur frá. Viljum við að börnin og barnabörnin lesi þetta? Þess eru dæmi að fólk eyði bréfum og dagbókum, áður en það er orðið of lasburða til þess. Sumir biðja börnin sín um að eyða þessu. Hvað skal gera?

Við rákumst á grein á vefnum Sixty and me og þar segir frá karlmanni,vini greinarhöfundar, sem var nýbúinn að missa móður sína. Hann og systkini hans fundu í dótinu hennar dagbækur sem hún hafði haldið í 40 ár. Þau fóru að lesa í gegnum bækurnar og fundu mögulega út meira en þau höfðu áhuga á að vita.

Voru allt í einu komin inní hugarheim móður sinnar

Allt í einu voru þau stödd í hugarheimi móður sinnar, mitt í hugleiðingum hennar og áhyggjum. Hún hafði áhyggjur af börnunum sínum og fór yfir ákvarðanir þeirra, bæði góðar og slæmar.  Fram kom að henni leið eins og hún væri valdalaus, að það væri ekki hlustað á hana. Hún hafði áhyggjur af barnabörnunum og var stolt af því sem þau tóku sér fyrir hendur. Hún lýsti mörgum hamingjusömum afmælum og jólum.  Það koma í ljós að hún hafði áhuga á ólíklegustu málefnum þannig að henni varð heitt í hamsi í skrifunum. Þarna voru athugasemdir um kvikmyndir sem henni fannst góðar og um skemmtilegar stundir með vinum og fjölskyldu.

Áttu þessi fullorðnu börn að gera ráð fyrir að móðir þeirra vildi að þau læsu hennar dýpstu hugrenningar?  Hefðu þau átt að virða einkalíf hennar og láta dagbækurnar ólesnar?

Kannski taldi hún að börnin hennar myndu ekki gefa sér ekki tíma til að lesa bækurnar. Eða hún velti þessu hreint ekki fyrir sér þegar hún var upptekin við skriftirnar.  En hvernig sem það var í pottinn búið, þá sjá börnin núna nýja hlið á móður sinni, en frásögn dagbókarinnar er einhliða og það er orðið of seint að spyrja nokkurs.

Geyma eða henda.

Í greininni segir að reynsla þessa fólks, hafi orðið til þess að greinarhöfundur fór að velta fyrir sér sínum dagbókum sem hún hafði skrifað síðustu 25 árin og voru allar í kassa í geymslunni.

Ég get séð börnin mín fyrir mér finna þessa kassa eftir 20 eða 30 ár og ég er ekki viss um hvað mér finnst um það.  Eins og vinur minn og systkini hans,  gætu börnin mín fengið að vita meira en þau þurfa eða vilja vita.  Orð sem eru skrifuð fyrir sjálfa mig, mínar hugrenningar eiga ekki endilega erindi við þau.

Börnin mín vita mína sögu, og þau muna eða munu verða minnt á atburði og samtöl sem ég skrifa um í bókunum.  Sumar minningarnar eru góðar, aðrar ekki.  Kannski munu orð mín eyðileggja góðar minningar sem þau eiga eða gera slæmar minningar þeirra betri.

Greinarhöfundur segist eins og margar konur skrifa meira þegar mikið sé um að vera. Hún fái útrás fyrir tilfinningar sínar í ákveðnum málum með því að skrifa um þau. Það gefi öruggt rými að halda dagbækur og þar sé hægt að leita skjóls á erfiðum tímum.  Að skrifa geri hana vitrari og meðvitaðri um sjálfa sig. Að fara að ritskoða sjálfan sig af hræðslu við að einhver eigi seinna meir eftir að lesa skrifin, veiti ekki þá uppbyggjandi aðstoð sem skrifin geri í dag.  Rannsóknir á dagbókarskrifum sýni að þau hjálpi fólki til að að takast á við tilfinningar sínar og streitu. Sumar rannsóknir bendi meira að segja  til þes að það styrki ónæmiskerfið að halda dagbækur, lækki blóðþrýsting og bæti svefn!  Það geti bætt milt þunglyndi og létt lundina – og af því það rói og hreinsi hugann, hafi það áhrif á kvíða.

Hvað viltu að börnin þín viti?

Það er alltaf álitamál og misjafnt hvað fólki finnst að börnin þeirra og barnabörnin ættu að vita um líf þeirra. En um sína skoðun á því segir greinarhöfundur.

Börnin mín munu hafa fullan aðgang að tilfinningalífi mínu og kannski skilja hvers vegna mér leið eins og mér leið.  Munu þau skima bækurnar og leita eingöngu að nöfnunum sínum og lesa eingöngu það sem að þeim snýr?

Hluti af mér vill geyma bækurnar og deila hugsunum mínum og tilfinningum á meðan þau voru að alast upp.  Kannski mun það skipta þau máli, þetta hafði jú áhrif á þau.  Ef þau vita hvað var að gerast í höfðinu á mér og hvaða tilfinningar voru að þvælast fyrir mér,  getur það ef til vill  gefið þeim einhverja innsýn í æskuna og líf sitt í dag.

Annar hluti af mér vill eyða bókunum og brenna þær.  Vil ég virkilega að börnin mín lesi í gegnum hugsanir mínar um svona mikilvæg mál án þess að geta spurt mig spurninga?  Gætu þessar samræður sem eru bara í eina átt verið þeim byrði eða skaðað þau á einhvern hátt?  Ég mun ekki vera til staðar til að vita það.  Ég vil gera hlutina eins auðvelda og mögulegt er fyrir börnin mín og barnabörnin og kannski munu dagbækurnar mínar ekki stuðla að því?

Það eru margir kostir og gallar við siðferðislegu spurninguna um hvort börn eigi að lesa dagbækur foreldra sinna.  Það er margt sem þarf að taka tillit til og það sem passar einni fjölskyldu passar ekki endilega annarri.

Það gæti valdið einhverjum hugarangri á meðan aðrir myndu fagna því að fá svör við spurningum sem þeir hafa velt fyrir sér lengi.  Þetta er ein af þeim ákvörðununum sem við verðum að taka áður en við kveðjum, þó það sé langt þangað til.

Ritstjórn nóvember 4, 2021 11:40