Umræðan um aldraða, lífeyrisþega, bótaþega almannatrygginga og eldri borgara hefur verið lífleg síðustu misseri. Einn af þeim sem höfðu samband við Gráa herinn, sagði að orðið eldri borgari minnti sig á orðið hamborgari! Mörgum finnst þessi heiti úrelt og vilja taka upp ný, svo sem eftirlaunafólk sem samheiti á hópinn sem er 67 ára og eldri.
Stjórnvöld lögðu á dögunum til hækkun á „ bótum“ þeirra eftirlaunamanna sem búa einir. Það er gott svo langt em það nær. En það vekur athygli að enn eru eftirlaun fólks, kölluð bætur, samanber þetta orðalag í tilkynningu stjórnvalda.
Eldri borgurum sem halda einir heimili verði tryggðar 300 þúsund krónur á mánuði frá 1. janúar 2018, enda hafi þeir ekki aðrar tekjur sem hafa áhrif á fjárhæð bótanna. Bæturnar hækki í 280 þúsund krónur um næstu áramót. Seinna á árinu 2018 mun kauptrygging á vinnumarkaði einnig ná 300 þúsund krónum samkvæmt kjarasamningum á almennum vinnumarkaði.
Nokkur umræða spannst í kjölfarið um þetta á Facebook. Þar lýsti Tómas Frosti Sæmundsson því að amma hans hefði borðað skóbætur. Sú var tíðin. Árni Gunnarsson fyrrum alþingismaður lagði einnig í púkk í þessari umræðu og sagði:
Þetta heita ellilaun eða örorkulaun. Eldri borgarar hafa unnið fyrir þessum launum með greiðslu skatta í hálfa öld. Þeir hafa lagt grunn að okkar nútímasamfélagi, sem margir halda að hafi orðið til uppúr engu. Laun þessara þjóðfélagshópa eru ekki ölmusa eða bætur, heldur mikilvægur hluti af velferðarsamfélagi, sem allir íslensku stjórnmálaflokkarnir hafa stutt í orði. Af þessum launum eru greiddir skattar, eins og af öðrun launum.
„Ef ég mætti ráða vildi ég tala um eftirlaun. „Bætur“ eiga engan veginn við, því við höfum unnið fyrir þessum launum“, sagði Þuríður Sigurðardóttir og Árni Gunnarsson benti á að eftirlaun væru af ýmsu tagi og ekki öll frá ríkinu. Anna Ólafsdóttir Björnsson sagðist sáttust við orðið eftirlaun. Launin eftir að ævistarfið hefði verið innt af hendi.
Ekki hlaupa of fljótt af stað
Ari Páll Kristinsson, íslenskufræðingur og rannsóknarprófessor á Árnastofnun hefur lengi unnið með íslenskt mál og var til að mynda málfarsráðunautur á Ríkisútvarpinu um skeið. Lifðu núna spurði hann álits á þessum hugmyndum um að breyta heitinu á „Lífeyrisþegum og bótaþegum“ almannatrygginga. Ari Páll segir að það séu tvö meginsjónarmið sem gildi, þegar hópur fólks vilji breyta heitinu sem notað er um hann. Annars vegar eigi menn að vara sig á að hlaupa of fljótt af stað og hafna heitum vegna þess að samfélagið hafi fordóma gegn þeim. Það geti leitt til þess að fordómarnir flytjist yfir á orðið sem tekið er upp í staðinn. Hins vegar gildi, að séu menn öruggir um að breið samstaða ríki í hópnum um að skipta um heiti, þá eigi að kýla á það og standa með honum í því. „Það er ábyrgð samfélagsins að taka fagnandi við því orðalagi sem fólk notar um sig sjálft“, segir hann.
Eldri borgarar og aldraðir að verða úrelt orð
Ari Páll segist ekki skilja hvers vegna það þurfi að vera svo slæmt að vera „þegi“. Menn tali almennt um launþega. Það sé fast í málinu að menn þiggi laun fyrir vinnu sína, eða laun fyrir vel unnin störf. „Það er ekkert á útleið úr tungumálinu“ segir hann og bætir við að það þyki ekki slæmt að vera launþegi á meðan menn séu starfandi. Hins vegar séu orð eins og eldri borgarar og aldraðir að verða úrelt í samhengi við eftirlaun. „Eftir að heilsa fólks fór að verða betri er orðið gamaldags að tala um aldraða í sömu andrá og fólk á eftirlaunum“, segir hann. Hann segir umræðuna um borgaralaun eftirtektarverða, þar sé alls ekki rætt um bætur eða þess háttar, bara laun fyrir að vera til. „Það heiti virkar vel, burtséð frá því hvað manni finnst um fyrirbærið“, segir Ari Páll að lokum.