Stofnuðu félag um hús ömmu og afa

Sigríður Dagný Þorvaldsdóttir.

Skógargerði er heiti á bóndabæ á Austurlandi rétt utan við Fellabæ, þar sem bjuggu mikil heiðurshjón um aldamótin 1900 með börnin sín 13. Þetta voru hjónin Gísli Helgason og Dagný Pálsdóttir og nú eru afkomendur systkinanna 13 um 60 talsins. Þeir hafa nú stofnað félagið Meið um húsið í Skógargerði með alvöru stjórn og tilheyrandi reglum. Fundargerðir eru ritaðar á aðalfundum sem haldnir eru einu sinni á ári o.s.frv. Samkomulagið um húsið gengur glimrandi vel segir ein úr hópi barnabarnanna, Sigríður Dagný Þorvaldsdóttir. Hún segir að steinhús ömmu hennar og afa  hafi verið  reist 1916 þegar torfbærinn sem þau bjuggu í brann en þar höfðu Gísli og Dagný búið með börnin sem þá voru fædd. Sigríður segir að þá hafi amma hennar og afi ráðist í að byggja þetta reisulega hús yfir ört stækkandi fjölskylduna og nú hafi afkomendurnir bundist sammælum um að halda húsinu við og nýta sameiginlega. Gísli og Dagný stunduðu búskap á þessari jörð af miklum myndarskap og iðulega voru fleiri á heimilinu en bara þau og börnin eins og algengt var.

Landið var snapaseigt

Í Skógargerði 1921. Gísli og Dagný með 8 af 13 börnum sínum. Frá vinstri: Björgheiður, Hulda, Dagný með Bergþóru, Margrét fyrir aftan Guðlaugu, Helgi, Gísli með Þórhöllu, Sigríður.

„Jörðin getur ekki kallast mikil bújörð miðað við margar aðrar en þarna búnaðist ömmu og afa vel,” segir Sigríður Dagný. „Á jörðinni var ekki stór afréttur en í bók sem Indriði, einn bróðirinn í 13 systkina hópnum, skrifaði um ömmu og afa og sögu Skógargerðis, notar hann orðið „snapaseigt” um landið á jörðinni. Það  þýðir að hægt var að taka strá hér og þar, t.d.  undir klettunum, fyrir skepnurnar.” Með elju og dugnaði segir Sigríður Dagný að nóg hafi verið fyrir alla í Skógargerði og að öll 13 börn Gísla og Dagnýjar hafi komist á legg og flest náð háum aldri. Eftir að Gísli og Dagný létust reyndu börnin þeirra öll að vera í Skógargerði eins og þau gátu með sín eigin börn og þá hafi næsta kynslóð tengst staðnum, þannig að nú njóti þess allir að koma í Skógargerði.

Næsta kynslóð stofnaði almennt félag

Skógargerði í endurbyggingu.

1985 var 100 ára ártíð Dagnýjar ættmóðurinnar en hún náði sjálf 94 ára aldri. Þess má geta að börnin hennar 13 voru fædd á árunum 1909 til 1929. Á þessum árum dundu miklar hörmungar yfir Íslendinga eins og frostaveturinn mikli og spænska veikin svo auðvelt er að ímynda sér erfiðleikana sem þessi hjón hafa gengið í gegnum á fyrstu búskaparárum sínum. Í tilefni af ártíð Dagnýjar 1984 var haldið fyrsta ættarmót stórfjölskyldunnar en slík mót hafa verið haldin á fimm ára fresti síðan. Sigríður segir að ættmennin hafi þá farið að velta fyrir sér hvað ætti að gera við Skógargerðishúsið. Það hafði verið dæmt ónýtt af mörgum sem ráðlögðu að húsið yrði rifið en tilfinningar systkinanna til hússins voru of miklar til að þau gætu hugsað sér það. Yngsti bróðirinn, Víkingur, hafði tekið við búinu um 1970 og móðir hans bjó hjá honum þar til hún lést 1979. Þá flutti Víkingur sig fljótlega inn á Jökuldalinn þar sem betra var að stunda sauðfjárbúskap. Eftir fund systkinanna 1984 afsalaði Víkingur sér húsinu til þeirra og eftir það segir Sigríður að ættingjarnir hafi allir komið að viðhaldi hússins á einn eða annan hátt og allir notið góðs af síðan.

Mikils virði fyrir ættingjana

Eldhúsið endurgert.

Sigríður segir að Skógargerði sé í rauninni einskis virði nema fyrir sístækkandi hóp afkomenda þeirra Gísla og Dagnýjar. Félagar í Meið séu allir þeir af ættinni sem borga félagsgjöld og það sé hverjum í sjálfs vald sett að taka þátt. En með því að greiða félagsgjaldið fáist aðgangur að húsinu. Félagsgjöldin eru síðan notuð í viðhald og vinnu við húsið. „Meðlimir i Meiði eru misvirkir eins og öðrum félögum. Stór hluti ættarinnar býr enn þá fyrir austan og þar er fólk sem er mjög duglegt við að sinna verkefnum á staðnum. Þar í hópi er Sigríður Dagný Sigurðardóttir sem býr á Egilsstöðum en hún sér um húsið og útleiguna.”

Vefsíðan skogagerdi.is

Húsið hafði verið dæmt ónýtt en systkinin gátu ekki hugsað sér að rífa það.

Að sögn Sigríðar Dagnýjar er vefsíðu Skógegerðisættarinnar ætlað að miðla upplýsingum og halda tengslum innan ættarinnar. Þar er haldið utan um fróðleik og hagnýtar upplýsingar fyrir ættina, ásamt skemmtiefni sem vert er að varðveita, svo sem skáldskap, greinar tengdar ættinni o.fl. Sigríður segir að fyrir utan lúxusinn að hafa aðgang að Skógargerði sé stór kostur að vinnan við húsið hafi sannarlega þjappað hópnum saman svo nú þekkist ættingjar sem annars hefðu ekki vitað hver af öðrum.

Leiðin sem afkomendur Gísla og Dagnýjar í Skógargerði hafa farið með ættargersemina, sem er bú ömmu þeirra og afa, er sannarlega tilvalin. Á þennan hátt geta afkomendurnir haldið tengslum við fortíðina um leið og borin er virðing fyrir forfeðrunum sem með vinnu sinni og elju gerðu það að verkum að stór hópur getur nú notið þess að dvelja á unaðslegum reit í sveit.

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn júlí 27, 2018 09:20