Einungis fjórir þingflokkar af átta virtu eldri borgara svars

Lengi hefur verið deilt um það hvernig hækka skuli ellilífeyri. Á hækkun hans að fylgja almennum launahækkunum eða vísitölu neysluverðs?  Lagagreinin, 69.gr laga um almannatryggingar, sem kveður á um þetta er frekar óskýr. Þar segir að ákvörðun um breytingar bóta almannatrygginga skuli vera í samræmi við fjárlög. „Tekið skuli mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“   þetta gefur stjórnvöldum nánast sjálfdæmi um hvort viðmiðið er notað, launaþróun eins og fjármálaráðuneytið skilgreinir hana eða vísitala neysluverðs. Það hefur síðustu árin verið algengara að miða við hækkun vísitölu neysluverðs, en launaþróunina. Þar sem laun hafa hækkað meira en  neysluverðs vísitalan, hefur skapast kjaragliðnun sem gerir að verkum að bilið milli þeirra sem lifa af ellilífeyri frá TR og  almennra launþega breikkar með hverju árinu.

Í blaði Landssambands eldri borgara sem kom út í vor, var leitað til nýkjörinna þingmanna úr öllum flokkum á Alþingi og þeim boðið að svara spurningum sem hljóðuðu þannig. Samkvæmt lögum á að miða hækkun lífeyris við áramót við hækkun á almennum markaði. Þetta hefur ekki verið gert. Af hverju heldur þú að svo sé? Munt þú beita þér fyrir að þessi verði breytt þannig að farið verði að gildandi lögum.

Kristrún Frostadóttir

Kristrún Frostadóttir Samfylkingu, svarar því meðal annars til að hún telji mjög mikilvægt að kjaragliðnun milli almenna markaðarins og þeirra sem fá greiðslur í tengslum við örorku og ellilífeyri verði stöðvuð. Það sé algjört lágmark að það séu ekki samþykkt fjárlög eftir fjárlög þar sem gliðnunin eykst.

Eyjólfur Ármannsson

Eyjólfur Ármannsson frá Flokki fólksins segir flokkinn ávallt hafa barist fyrir því að Alþingi virði þau skýru lagafyrirmæli að lífeyrir almannatrygginga skuli fylgja launaþróun. Hann segir þegar viðtalið er tekið að frumvarp flokksins um að fjárhæðir almannatrygginga hækki í samræmi við launavísitölu, bíði fyrstu umræðu á Alþingi.

Jódís Skúladóttir

Jódís Skúldóttir Vinstri grænum segir meðal annars jákvætt að bætur haldi í við verðlagsþróun, því þá geti þær hækkað þó svo að laun hækki ekki. Hún telur rétt að skoða hvort skýra ætti betur ákvæði 69 gr. laga um almannatryggingar, þannig að forsendur ákvarðana fjármálaráðherra um breytingar á bótum séu sem skýrastar.

Bergþór Ólason

Bergþór Ólason Miðflokki, segir meðal annars að vandinn sem við sé að glíma sé hversu óskýr fyrirmælin séu um hækkun bóta almannatrygginga. Þau þurfi að skýra. „Hitt er svo annað mál“, segir hann, „að þó að bætur hefðu fylgt launavísitölu þá eru kjör lífeyrisþega knöpp og stóra verkefnið sem við okkur blasir er að bæta þau heilt yfir“.

Þessa grein má lesa í heild sinni í LEB blaðinu með því að smella hér.

Tekið er fram í greinini að nýkjörnum þingmönnum úr öllum flokkum á Alþingi hafi verið boðið að svara þessum spurningum, en einungis fjórir hafi gert það. Ástæðan fyrir því að Bergþór Ólason svarar fyrir Miðflokkinn, er að hvorugur þingmanna hans er nýkjörinn þingmaður Alþingi. Stjórnarandstöðuþingmenn hafa flutt á Alþingi frumvörp og tillögur við afgreiðslu fjárlaga um að miðað verði við launaþróunina þegar ellilífeyrir hækkar, en þær hafa ekki náð fram að ganga.

 

Ritstjórn ágúst 2, 2022 07:00