Ekkert starfsfólk engin þjónusta

„Fjölga þarf starfsfólki í umönnun og hjúkrun aldraðra, auka og efla  þjálfun og stuðla að faglegum metnaði þeirra sem annast um þá sem eru mjög veikir“. Þetta er meðal þess sem lögð er áhersla á í ályktun landsfundar LEB, um heilbrigðis- og velferðarmál. ´“Að umönnun aldraða koma stöðugt fleiri hópar. Þar skipta allir máli, sjúkraliðar, félagsliðar, iðjuþjálfar, sálfræðingar, sjúkraþjálfarar, næringarfræðingar, félagsráðgjafar, hjúkrunarfræðingar, læknar og ótal margir aðrir aðilar og mikilvægt er að þessir aðilar vinnu saman“ segir í ályktuninni. Þá er einnig sagt mikilvægt að innleiða mannúðlega stefnu á hjúkrunarheimilum til að bæta líðan og lífsgæði fólks sem þar dvelur – þannig að lífið sé þess virði að lifa því allt til enda.

Ályktunin þar sem komið er inná fjölda mála sem tengjast umönnun aldraðra, var samþykkt samhljóða á landsfundinum. Fulltrúar þeirra 27.000 eldri borgara sem þar voru sáu líka ástæðu til að fagna því framtaki sem heilbrigðisráðherra hefur sýnt í málefnum eldri borgara á síðustu misserum.

Framundan er loks veruleg uppbygging hjúkrunarrýma sem lengi hafði verið beðið eftir. Á þessu og næsta ári bætast við 200 ný hjúkrunarrými fyrir aldraða, en alls er gert ráð fyrir opnun nærri 800 nýrra rýma til loka ársins 2023.

Tannlæknakostnaður eldra fólks var óbreyttur frá 2004. Nú hefur verið ákveðið að auka niðurgreiðslur tannlæknakostnaðar eldra fólks þannig að aldraðir greiða 50 % af kostnaðinum i stað 73 % áður.

Komugjöld hafa verið felld niður fyrir aldraða á heilsugæslustöðvum.

Margt fleira mætti nefna.

En rétt er að árétta að enn má bæta í og laga þrátt fyrir góðan byr. Þar er um að ræða verkefni sem snúa ekki aðeins að ríkinu heldur líka að sveitarfélögunum og ekki síður þeim sem bera ábyrgð á rekstri hjúkrunarheimilanna.

 

Ritstjórn apríl 11, 2019 08:41