Ekki bara gaman eða grátlegt

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson verkfræðingur og doktorsnemi skrifar

Oft er gaman að sjá eða heyra fréttir í fjölmiðlum frá því fyrr á árum. Auk þess að vera fræðandi eða jafnvel skemmtilegar þá geta slíkar frásagnir stundum varpað ljósi á það sem er efst á baugi í dag. En þessar gömlu fréttir geta líka verið leiðinlegar eða jafnvel, það sem verra er, grátlegar. Ein slík var í morgunþætti Rásar eitt fyrir skömmu. Þáttarstjórnandinn las frásögn upp úr hálfrar aldar gömlu dagblaði. Frásögnin var sorgleg vegna þess að við fyrstu heyrn virtist eins og verið væri að flytja nýja frétt, en ekki hálfrar aldar gamla. Hún fjallaði um ömurlegt ástand í húsnæðismálum.

Það er hálf óraunverulegt að hugsa til þess að staðan í húsnæðismálunum sé enn og aftur orðin eins og hún var um og upp úr miðri síðustu öld; leiguverð upp úr öllu valdi, þar sem allt of fáar leiguíbúðir eru í boði miðað við allan þann fjölda sem þarf á slíkum íbúðum að halda; einungis fáir útvaldir eiga kost á því að kaupa eða byggja, vegna stjarnfræðilega fáránlegs greiðslumats, sem drepur niður alla möguleika fólks til að skapa sér tækifæri; og á meðan er fullt af fólki á hrakhólum. Þetta ástand var auðvitað ömurlegt á sínum tíma, en að svo sé enn hjá einni ríkustu þjóð í heimi, sem er svo rík að hún hefur efni á því að gefa frá sér tekjur í stórum stíl, eins og þegar skattar voru lækkaðir umtalsvert nýlega, eða jafnvel alveg felldir niður, á þeim sem eiga svo mikið að þeir geta varla vitað hvað þeir eiga að gera við allan auðinn. En hvað er gert í stöðunni? Jú, þrjú stykki ráðherrar húrra til fjöldasamkomu allra þeirra sem telja sig hafa einhverjar hugmyndir fram að færa um hvað væri hugsanlega hægt að gera til bæta stöðuna á húsnæðismarkaðinum. Getur verið að þetta ráðherralið viti ekki enn hvað þurfi að gera í húsnæðismálum, eftir allt sem á undan er gengið? Er það mögulegt? Ef þetta væri ekki svona sorglegt þá væri þetta kómískt, jafnvel súrealískt. Hvað hefur þetta lið, sem tók að sér að stjórna hérna, eiginlega verið að gera? Svo ekki sé nú minnst á aðal, sem maður hélt að hefði það hlutverk að halda öllu heila klabbinu saman. Hann mætir reglulega hjá útvaldri útvarpsstöð, og sagði nú síðast, að það sé ótrúlegt vaxtaokrið hérna. Svo hann er búinn að fatta það. Það er þó að minnsta kosti jákvætt Og hann sem verður bráðum búinn að stýra þessu dæmi í þrjú ár, ef fram heldur sem horfir. Kræst!

 

 

 

 

 

Grétar Júníus Guðmundsson október 29, 2015 14:33