Framúrskarandi en þó ekki

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar J. Guðmundsson verkfræðingur og doktorsnemi skrifar

Þau voru sniðug sem fengu þá hugmynd að selja fyrirækjum vottun um að þau séu framúrskarandi, ef þau fara eftir lögum og eru rekin með hagnaði að uppfylltum ákveðnum rekstrarlegum skilyrðum. Þetta virðist vera eftirsóknarvert hjá stjórnendum fyrirtækja, miðað við hvað þátttakan í þessu er mikil. Lítil ástæða er hins vegar fyrir almennt starfsfólk fyrirtækja að fagna þessari vottun. Líklegra er að sérstök áhersla stjórnenda fyrirtækja á að öðlast svona framúrskarandi vottun geti frekar haft neikvæð áhrif en jákvæð fyrir almennt starfsfólk fyrirtækja. Oftast er það nefnilega almenningurinn sem ber byrðarnar þegar einhvers staðar þarf að hagræða.

Það hefði mátt halda að það þætti sjálfsagt og eðlilegt að fyrirtæki fari eftir lögum og að þau séu rekin með hagnaði. Þess vegna er það einmitt tær snilld að fá fyrirtæki til að borga fyrir að fá staðfesingu á þessu. Þeir sem eru í forsvari fyrir þau fyrirtæki sem taka þátt í hinni framúrskarandi vottun virðast telja að það sé ástæða til að auglýsa sérstaklega að starfsemin sé í samræmi við lög og að reksturinn skili hagnaði. Mörg þessara fyrirtækja borga nefnilega ekki bara fyrir vottun fjárhags- og viðskiptaupplýsingafyrirtækisins Creditinfo  um að þau séu framúrskarandi, heldur auglýsa þau það einnig með einstaklega samstilltum og samræmdum hætti, aðallega í útvarpi, þegar hinn árlegi listi yfir framúrskarandi fyrirtæki er gerður opinber.

Ekki er hægt að útiloka að einhverjir hafi gagn og kannski gaman af auglýsingum hinna framúrskarandi fyrirtækja, jafnvel þó svo að auglýsingarnar séu allar eins. Þar er viðskiptavinum fyrirtækjanna og starfsfólki þeirra þakkaður sá árangur að hljóta vottun Creditinfo. Þakkir til starfsfólks hljóma þó stundum ansi holar í þeirri síbylju sem þessar auglýsingar óhjákvæmilega eru.

Á heimasíðu Creditinfo er listað upp hvaða skilyrði fyrirtæki þurfa að uppfylla til að hljóta hina framúrskarandi vottun. Þar er fátt upp talið sem vekur athygli, enda aðallega atriði eða þættir er snúa að rekstri og afkomu. Ástæða þykir hins vegar til að gera þá kröfu að ársreikningi fyrirtækis hafi verið skilað á réttum tíma samkvæmt lögum. Þetta er óneitanlega sérstakt. Það sem þó vekur mesta athygli í þessu sambandi, til viðbótar við skilyrðið um löghlýðnina, er það sem snýr að hinum mannlega þætti, það er, það sem varðar starfsfólk fyrirtækjanna. Í því sambandi er skilað auðu. Ekki er svo mikið sem einu orði vikið að starfsfólkinu í skilyrðum Creditinfo fyrir vottun um að fyriræki séu framúrskarandi. Þetta er auðvitað sérstaklega athyglisvert í ljósi þess hvað starfsólki framúrskarandi fyrirtækja er mikið þakkaður árangurinn í því að hljóta vottun í auglýsingum þeirra. Það skiptir nefnilega engu máli hvernig fyriræki koma fram við starfsfólkið til að hljóta vottun um að þau séu framúrskarandi. Þetta er ekki traustvekjandi fyrir hið framúrskarandi vottunarferli, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess hve algengt það er að almennt starfsfólk fyrirækja missi vinnuna þegar hagrætt er í rekstri.

Ég veit ekki hvort það er einhver tíska í gangi á vinnumarkaði um þessar mundir, en mér finnst ég sífellt heyra meira og meira af því að fólk missi vinnu sína þegar það nálgast eftirlaunaaldur. Eflaust er allur gangur á þessu. Og væntanlega eru stjórnendur fyrirtækja og stofnana mismunandi að upplagi, og sumir þeirra án efa til fyrirmyndar.

Maður nokkur, sem hefur starfað hjá sama fyrirtæki í um fjóra ártugi, allt frá því er hann lauk skólanámi, fékk um daginn að vita að fyrirtækið hefði ekki lengur not fyrir hann. Honum var sagt upp og tilkynnt að hann ætti að hafa sig á brott fyrir jól. Hann á örfá ár eftir í hinn almenna eftirlaunaaldur en hann hafði hugsað sé að ljúka starfsævinni eftir 67 ára afmælisdaginn. Uppsögnin var sögð vera í hagræðingarskyni, auðvitað. Vel er hugsanlegt að einhver hagræðing náist fram. Starfsmaður með svona langan starfsaldur er alla jafna dýrari í rekstri en þeir sem yngri eru. Fyrirtækið verður kannski betur gjaldgengt til að hljóta vottun Creditinfo sem framúrskarandi fyrirtæki. Og þá verður hægt að auglýsa að starfsfólkinu sé þakkaður árangurinn. En hvað er framúrskarandi við svona nokkuð? Kannski eitthvað lægri launakostnaður og jafnvel vottun frá Creditinfo. Er það í alvörunni eitthvað til að sækjast eftir ef forsagan er eitthvað í líkingu við þetta dæmi? Varla.

Mælikvarðinn sem lagður er til grundvallar fyrir vottun um að fyrirtæki séu framúrskarandi er kolvitlaus. Gallinn er bara sá að hann er í samræmi við svo margt annað, eins og ótrúlega sorgleg og ljót dæmi úr stjórnsýslunni að undanföru staðfesta.

 

 

 

 

Grétar Júníus Guðmundsson nóvember 10, 2019 12:46