Tekur hrukkunum fagnandi

Monica Krog-Meyer.

Monica Krog-Meyer.

Danska fjölmiðlakonan Monica Krog-Mayer á farsælan 40 ára feril að baki í útvarpi og sjónvarpi. En hún er ekki bara fjölmiðlakona hún er líka móðir og amma.

Eitt hefur þó angrað hana á síðustu árum en það eru andlitshrukkurnar. Nú hefur hún tekið tímamótaákvörðun að láta sér standa á sama um hrukkurnar og hætta að tala illa um líkama sinn.  Rætt var við Monicu á vef danska ríkisútvarpsins. Lifðu núna stytti og endursagði viðtalið.

„Ég ætla ekki að hallmæla eigin líkama svo lengi sem ég get gengið, hoppað, hjólað og haldið á barnabörnunum. Ég ætla ekki lengur að standa fyrir framan spegilinn og segja við sjálfa mig að ég líti hörmulega út og það eigi bara eftir að versna,“ segir hún. „Nú lít ég í spegilinn og sé konu með fallegar hrukkur,“ bætir hún við.

Hún segist kalla hrukkurnar árhringi. Þær séu sönnun þess að hún hafi lifað lífinu. Með tímanum líkist hún meira og meira frænku sinni sem sé  86 ára og hún er ánægð með það. Monica segir að æskudýrkun sé mikil. Það hafi þau áhrif að við viljum ekki sýnast gömul. Fólk geri allt mögulegt til að líta yngra út. Það fari í andlistlyftingu, noti Botox  eða allt of  mikið af meiki og svo framvegis. „Mér finnst þetta tímasóun. Það er langtum betra að sætta sig við útlit sitt,“ segir Monica.  Við eigum að ræða um efri árin við yngra fólk og þær breytingar sem verða á okkur með tíð og tíma. „Ég get vel skilið að ungu fólki finnist það að eldast hræðilegt, því  við sem eldri erum gerum allt sem í okkar valdi stendur til að fela aldurinn.“ Eftir að Monica tók hrukkurnar í sátt segist hún finna breytingu á á því hvernig hún hugsi um aldur á jákvæðan hátt. „Þegar ég sá einhverja sem höfðu verið frægir í fjölmiðlum fyrir 20 til 30 árum og sá þá svo aftur í sjónvarpi mörgum árum síðar hugsaði ég með mér – þau eru orðin gömul. Auðvitað eldast allir og nú er ég hætt að hugsa svona,“ segir Monica.

 

 

Ritstjórn júlí 21, 2016 12:06