Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar
Eftir ítrekaða hvatningu frá fjölskyldunni fjárfestum við í nýrri eldavél á árinu sem leið. Þetta var talsvert mál. Það þurfti að stækka gatið í borðplötunni og mjókka skúffu á verkstæði. Aðgerðin sú tók nokkra mánuði. En það var ekki það versta. Nú þurfti að læra á nýju snertiplötuna. Gömlu, góðu snúningstakkarnir eru komnir út tísku. Daginn eftir að vélin var tekin í gagnið vorum við með 8 erlenda gesti í mat. Sambýlingurinn skemmti gestum með spjalli í stofu en ég barðist við pípandi eldavélina, sem hafði ákveðið að pottar og pönnur mætti ekki standa nema á stöðum sem henni sjálfri hentaði. Barnalæsningin hrökk svo óvart í gang og ekkert hitnaði, nema taugakerfið mitt. Loks tókst þetta og ég bölvaði tækninni í hljóði, setti upp bros og fór með matinn inn á borð.
Ég er ekki tæknitröll og hata leiðbeiningarbæklinga. Einu sinni sagði sonur minn að hann væri búinn að finna framtíðarstarf fyrir mig. Ég gæti ferðast milli heimilistækjaframleiðanda. Ef nýtt tæki lifði mig af, mætti setja það í framleiðslu.
Við gistum á dögunum í lítilli íbúð erlendis með eldavél með stórri nýtískulegri glerhellu. Sambýlingurinn ætlaði að steikja egg og beikon. Hann stóð fyrir framan vélina með lesgleraugun á nefinu og þreifaði um allt yfirborðið en ekkert gerðist. Hér verður ekkert eldað var niðurstaðan. Ég bretti upp ermarnar og fór í stríðið með honum enda mjög hrifin af steiktum eggjum og beikoni. Verður mér þá ekki litið á framhlið vélarinnar. Þar eru þessir sex myndarlegu takkar vandlega merktir. Takki fyrir hverja plötu og tveir fyrir ofninn. Hiti frá einum upp í sex, kveikt og slökkt. Við hlógum mikið og ræddum hve fljótur maður er gleyma og verða að einhvers konar fórnarlamb meintra framfara í eldhústæknibúnaði.
Því miður gildir þetta ekki bara um eldavélar. Sjónvarpið er ekki skárra. Mér er nær að ætla að engin tvö sjónvörp fylgi sama kerfinu. Við lánum oft vinum og ættingjum íbúð sem við eigum í höfuðborginni. Það er segin saga að sjónvarpið er dautt þegar við ætlum að kveikja næst á því og við höfum ekki hugmynd um hvernig er hægt að vekja það til lífs aftur. Þurfum að leita til þar næstu kynslóðar eftir hjálp. Nú ætlum við að fara að útbúa lítið leiðbeiningarblað þar sem stendur: Frjáls aðgangur að öllu nema sjónvarpinu.
Og munið að taka barnalæsninguna af eldavélinni.