Barnamatseðil, takk

Sigrún Stefánsdóttir

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

Ég las nýverið viðtal við norsk hjón sem höfðu farið í ferð í fyrrasumar með börnin um eigið land vegna covid-19. Hápunktur ferðarinnar hafði verið gisting á hóteli í Þrándheimi. Ástæðan var morgunverðurinn sem var sérstaklega sniðinn að ungu kynslóðinni. Þetta hafði verið ógleymanleg upplifun fyrir krakkana og sett hótelið á topplista þeirra.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar við gamla settið fórum í dekurferð með tvo ömmustráka á glæsilegt hótel með kvöldverði og morgunmat. Þeir fóru í heitan pott, með svaladrykk og rör, og ræddu um væntanlegan kvöldverð. Sá eldri ætlaði að fá sér hamborgara og sá yngri pasta. Hógværar væntingar það!  Við klæddum okkur upp á eins og maður gerir á fínu hóteli og mættum á umsömdum tíma til kvöldverðar. Þegar ég pantaði gistinguna hafði ég sérstaklega spurt hvort maturinn væri ekki við hæfi barna. Ég var fullvissuð um að það væri alltaf hægt að gera eitthvað gott fyrir þau. Við fáum matseðlana. Þar voru hvorki hamborgarar né pasta. Þumbaralegur ungur maður segir okkur að ekkert annað sé í boði en það sem sé á matseðlinum. Uppábúið andalæri og nautasteik í framandlegri múss og svo framvegis. Sá eldri lagði höfuðið á borðbrúnina og sagðist ekki vera svangur. Stemningin var alveg komin í mínus. Þá kom annar þjónn til sögunnar. Hún las stöðuna rétt og sagði að það hlyti að vera hægt að bjarga pasta og frönskum. Það birti yfir þeim eldri. Hún kom aftur að vörmu spori og sagði að því miður væri ekki til pasta. Þeir gætu fengið heita samloku með frönskum. Við gerðum eina gæs fótalausa. Hótelið mátti eiga það að rukka ekki fyrir mat strákanna. Óumbeðið.

Covid hefur breytt svo mörgu. Meðal þess er að Íslendingar eru farnir að ferðast meira innanlands og gista á hótelum jafnvel með börn. Til þess að þessi nýi hópur viðskiptavina upplifi dvölina á jákvæðan hátt, þarf að vera í boði matur við þeirra hæfi. Virðulegt hótel missir ekki stílinn við að hafa í boði það sem börnum þykir gott, heldur þvert á móti. Þau eru viðskiptavinir framtíðarinnar. Barnamatseðill tryggir upplifunina og gerir það að verkum að ferðalangar af ólíkum kynslóðum sofna glaðir og mettir í þægilegum rúmum í hótelherbergi með útsýni yfir hafið.

 

 

Sigrún Stefánsdóttir júní 28, 2021 07:56