Tvær brauðsneiðar og tvö vötn

Sigrún Stefánsdóttir

Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar:

Ungur maður afgreiddi mig í verslun á dögunum. Þegar ég ég var búin að setja vörurnar mínar í poka og borga, sagði pilturinn: „Eigðu góðan dag“. Ég verð alltaf  orðlaus þegar ég er kvödd á þennan hátt og verður hugsað til elskulegrar Vigdísar Finnbogadóttur og baráttu hennar fyrir íslenskri tungu. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort starfsmannastjórar verslana kenni starfsfólki að kveðja viðskiptavinina með þessum orðum eða hvort ég er bara orðin svona gamaldags að þykja þetta óásættanleg, léleg þýðing á ensku kveðjunni „Have a nice day“. Næst þegar ég verð ávörpuð á þennan hátt er ég að hugsa um að svara með „Eigðu hann sjálfur“ eða „ Þú líka“ sem væri eðlileg þýðing á „You too“

Ég get ekki vanist þessari kveðjuklausu en endanlega gekk fram af mér þegar ég fór á markað um helgina. Við innganginn stóð unglingur sem heilsaði gestum með kveðjunni „Eigðu góðan tíma“, sennilega þýðing úr ensku „Have a nice time“. Við áttum svo sem ágætis stund á svæðinu í ausandi rigningu en þessi kveðja bætti engu við annars góðan dag í minni eigu.

En engin regla er án undantekninga. Ég fór í ónefnda verslun í Kringlunni og þar afgreiddi mig stúlka sem brosti og kvaddi mig með orðunum: „Vertu sæl“. Mér varð svo mikið um að áður en ég vissi af var ég búin að þakka henni fyrir að hlífa mér við eignarhaldinu á góða deginum. Unga stúlkan sagðist leggja metnað sinn í það að tala fallega íslensku og við kvöddumst  með virktum.

En Adam var ekki lengi í Paradís. Fyrir utan verslunina hitti ég vinkonu mína og við fórum á kaffihús. Ég bað um brauðsneið og glas af vatni og það sama gerði vinkonan. Afgreiðslustúlkan skrifaði þetta niður og fór svo yfir pöntunina til öryggis. Hún hljóðaði svona: Tvær brauðsneiðar með geitaosti og tvö vötn.  Ég er enn að velta því fyrir mér hvort þarna væri um að ræða Másvatn og Mývatn, eða hvort þetta voru einhver vötn á Suðurlandi. Spyr sú sem ekki veit.

Sigrún Stefánsdóttir júlí 31, 2023 07:00