Kaffi og með því – er það lausnin?

Sigrún Stefánsdóttir

Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

Aðgát skal höfð í nærveru sálar. Þessu er oft slegið fram þegar talað er um börn og þá sem minna mega sína. Mér finnst að þessi orð mætti líka hafa í huga þegar talað er um og við fullorðið fólk. Sálin fær nefnilega ekki skráp með árunum. Hún er alltaf viðkvæm og auðsæranleg, þó svo að við reynum að fela það þegar árunum fjölgar. Við eigum að vera svo lífsreynd og þroskuð, ekki satt! En erum við það? Ekki ég.

Mér finnst viðkvæm sálin oft gleymast þegar fólk er að ljúka löngum starfsferli. Langþreyttir starfsfélagar sjá það í hillingum að sleppa við að stimpla sig inn og horfast í augu við nýja vinnuviku. Galgopast með hvað sá sem er að hætta eigi gott og geti sofið út og lúslesið dagblöðin upp á hvern dag. En þetta er ekki svona auðvelt. Það eru ótrúleg viðbrigði að hætta störfum, kveðja vinnustað, vinnufélaga og daglegar venjur. Íslendingar eru vinnusamir og mörg okkar verðum smám saman að því sem við störfum við. Hvað heitir þú og við hvað starfar þú?  Hver þekkir ekki þessar spurningar? Þú ert það sem þú starfar við. Ég var í þessum hópi.

Minn síðasti vinnuveitandi var mjög skilningsríkur þegar ég sagði honum að ég þyrfti ekki staðlaða uppsagnarbréfið þegar ég yrði sjötug. Ég sagði honum að ég vissi að ég yrði að hætta í föstu starfi á þessum tímamótum. Ég hafði lesið svona bréf hjá eldri starfsfélögum mínum, þar sem þeim var sagt upp störfum vegna aldurs. Þeir sögðu mér að lestur bréfsins hefði verið sár. Salt í sárin sem fyrir voru vegna þessara tímamóta

Það sem mig langar til þess að segja með þessum pistli er að það skiptir sköpum að vel sé haldið utan um starfslok. Kaffi og með því er ekki lausnin, þó auðvitað megi ekki vanmeta kveðjuhófið. Það hefur verið mér mjög mikilvægt að eiga afturkvæmt í stök verkefni og félagsskap. Finnast ég eiga erindi og geta miðlað áfram mínu á einhvern hátt. Vita að ég sé boðin á árshátíðina og geti hitt félagana eftir þeirra vinnudag. Laun eru ekki endalega málið heldur viðurkenningin sem felst í því að vera beðin um að vera með.

Starfsmannastjórar nútímans leggja mikla áherslu á ferla þegar nýir starfsmenn eru ráðnir. Auðvitað er það mikilvægt en umvefjandi ferlar í kringum starfslok eru að mínu mati gæðastimpill nútíma vinnastaða. Ekki halda að það sé sælan ein að setjast fram í eldhús með maknum og lesa dagblöðin, dag eftir dag og ár eftir ár!

p.s. Ég fór að hugsa um þessi mál eftir að ég ræddi við góðan vin sem var niðurbrotin eftir hvernig haldið hefur verið utan um mál hans og væntanleg starfslok.

Sigrún Stefánsdóttir janúar 7, 2019 07:56