Fimm bala þak og síðar nærbuxur

Sigrún Stefánsdóttir

Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

Ég og sambýlingurinn ákváðum á haustdögum að endurtaka leikinn frá í fyrra og  fara til Andalúsíu í litla hvíta þorpið okkar og sleppa þannig við myrkur og snjó það sem eftir lifði árs. Við mættum til leiks með stuttbuxur, ermalausa boli og ecco-sandala. Í svartsýniskasti  á síðustu stundu hentum við lopapeysum ofan í tösku, síðum, vettlingum, treflum.

Við heilsuðum grönnunum í bröttu götunni. Keyptum inn mango, avocado, osta, skinku og vín. Nú skyldi það tekið ! Sólin skein í heiði fyrsta morguninn með hanagali og morgunverði á þakinu. Frábært að vera loks kominn í sól og frí.

En viti menn. Næsta dag byrjaði að blása norðlægum, ísköldum vindi þannig að lopapeysan og öll vetrarfötin voru dregin fram. Í fyrra bentu grannar okkar upp í himininn og sögðu biðjandi agua eftir langvarandi hita og þurrka og bentu svo á höfuðið á mér og sögðu sombrero. Nú horfði einn á okkur samúðaraugum og sagði frío og hrissti sig allann. Sólhatturinn var ekki nefndur á nafn. Um kvöldið drógum við fram þykka auka sæng út úr skáp og kúrum nú á nóttinni í síðum nærbuxum, bol og sokkum undir þremur lögum og er samt kalt. Við rúmgaflinn brosa tvær viftur sem ætlaðar eru til bjargar á rómantískum Spánarnóttum. Kaldhæðni örlaganna á ísköldum nóttum.

Í gær fór svo að rigna hundum og köttum. Sambýlingurinn kveikti upp í arninum við fyrsta hanagal og ég fór að skoða prjónauppskriftir og velta því fyrir mér hvort ég ætti að leggja í að prjóna peysu. Er ekki enn komin á þann stað. Það kemur kannski með aukinni innri hugarró. Fljótlega fórum við að heyra undarleg hljóð. Í ljós kom að regnvatn fossaði inn undir hurð á ganginum og uppi á efri hæðinni bunaði vatn í gegnum fimm sprungur í loftinu. Balar voru dregnir fram og allt í einu mundi ég eftir frægri frétt Ómars Ragnarssonar um sjö bala húsþökin í Reykjavík. Frétt sögð þegar flötu þökin voru sem mest í tísku. Við búum sem sagt í fimm bala húsi. Dagurinn fór í að fylgjast með breytilegum farvegi regnvatns inn í húsið og koma bölum undir. Um kvöldið spiluðum við Ólsen áður en við skriðum undir lögin þrjú. Hvað er hægt að gera annað í húsi þar sem hvorki er sjónvarp né útvarp.

En það er ekki öll nótt úti enn. Tveir mánuðir enn framundan í þorpinu og á morgun er veðurspáin skárri. Kannski verður sól á jólunum ! Hver veit.

 

 

 

 

 

Sigrún Stefánsdóttir nóvember 23, 2018 08:15