Ömmur og ömmur að láni

Sigrún Stefánsdóttir

Sigrún Stefánsdóttir

Sigrún Stefánsdóttir forseti hug- og félagsvísindadeildar HA skrifar

Þessa dagana liggja á borðinu mínu drög að dagskrá málþings, sem ber yfirskriftina Ömmur fyrr og nú. Það verður haldið í Háskólanum á Akureyri í lok september. Á þessari ráðstefnu mun fólk á öllum aldri segja sögur af ömmum sínum. Ég hlakka til þess að hlusta á sögurnar.

Ég er meðal þeirra kvenna sem er svo lánsöm að eiga glæsilegan hóp af barnabörnum. Þau eru mér mikill gleðigjafi og ég á ófáar gefandi stundir með þeim. Ég kenni þeim að búa til bestu lambasósu bæjarins í eldhúsinu mínu, þau fara með afa og ömmu í  ferðir til útlanda og þau kenna ömmunni að vera á facebook og útskýra fyrir henni merkingu nýyrða yfir nýjustu tæki sem eru notuð til samskipta unga fólksins.

Ég gleymi því stundum að það er ekki sjálfsagt að verða amma. Það eru til konur sem aldrei fá að upplifa þá gleði að heilsa nýju barnabarni og fylgjast með því vaxa og dafna. Ég á vinkonu sem á  einn fatlaðan son sem aldrei mun eignast barn. Hún segist bara öfunda aðra konur af einu í lífinu og það er að upplifa það að verða amma. Ekkert annað í lífinu sé þess virði að öfundast yfir, segir hún.

Í eldhúsinu mínu er stór mynd af afasystrum mínum, þeim Ingibjörgu og Sesselju Eldjárn. Þær giftust aldrei og eignuðust engin börn. Ég var svo lánsöm að búa í nágrenni við þær þegar ég var að alast upp á Akureyri. Þær opnuðu faðminn og voru mér og systkinum mínum ótrúlega góðar. Þær voru búnar að búa til veislu áður en við náðum að setjast á kollana við eldhúsborðið þeirra í Þingvallastrætinu. Þegar Sella, eins og hún var kölluð, var búin að missa systur sína og orðin fullorðin á elliheimili í Reykjavík, urðum við trúnaðarvinir. Ég gat sagt henni frá mínum ástarsorgum og ósigrum og hún gat rætt það við mig að hún væri búin að fá nóg og vildi deyja. Hún dæmdi aldrei og stóð alltaf með mér. Ég stóð líka allaf með henni og mótmælti því jafnvel ekki að hún ætti rétt á því að ræða um eigin dauða og óskhyggjuna sem tengdist honum.

Ég hef myndina af systrunum í heiðursæti í eldhúsinu mínu og minningin um þær gerir mig glaða yfir morgunkaffinu í byrjun dags. Þær voru mér fjársjóður og ég kynntist þeim miklu betur en ömmu minni, nöfnu minni á Tjörn í Svarfaðardal. En samt fóru þær á hliðarlínuna – eins og aðrir þeir sem ekki eignast börn og barnabörn. Það eru engin niðjamót og það eru engar veislur þegar þessar konur hefðu orðið 100 ára !

Vinkona mín með fatlaða soninn á vinafólk sem hefur nýlega opnað henni aðgengi að börnunum sínum. Hún ljómar þegar hún segist mega kalla sig ömmu þeirra og hún fer með þau í leikhús og gefur þeim jólagjafir. Þegar ég lít til baka þá voru Imba og Sella nokkurs konar ömmur okkar krakkanna. En við hefðu þurft að vanda okkur betur við það að vera „barnabörnin“ þeirra. Láta þær finna betur hvers virði þær voru. Ég legg til að unga fólkið sem er að ala upp börnin sína að horfi í kringum sig. Er ekki einhver góð kona þarna úti, sem hægt væri að gleða með því að tengja hana börnunum. Hún gæti jafnvel gert það mögulegt að parið gæti farið í bíó áhyggjulaust þar sem „nýja amma“ væri að passa.

 

 

 

Sigrún Stefánsdóttir september 7, 2015 09:43