Endurhæfing eftir áfall getur breytt öllu

Að ná sér eftir veikindi eða slys verður erfiðara með aldrinum og mjög mikilvægt að menn fái endurhæfingu til að geta byggt sig upp að nýju. En það er líka mjög margt sem fólk getur gert sjálft og það er valdeflandi að taka virkan þátt í eigin bata og vanda sig við að lifa lífinu.

Hjartasjúkdómar

Hjarta- og æðasjúkdómar eru algengir á Vesturlöndum og tengdir lífsstíl nútímamanna. Hjartasjúkdómar fara vaxandi meðal kvenna og þær ættu að vera meðvitaðar um að einkenni þeirra eru önnur hjá þeim en hjá karlmönnum. En eftir hjartaáfall er virkilega mikilvægt að breyta lífsstíl sínum til að byggja upp orku og ná meiri og betri bata. Í dag hefur dauðsföllum af völdum hjartasjúkdóma fækkað mjög mikið. Fyrst og fremst vegna þess að læknavísindin hafa betri tæki og tól til að grípa inn í og fólk greinist oft fyrr. Eftirfylgni eftir hjartaáfall er einnig meiri og betri og fólk fær stuðning til að byggja sig upp og breyta því sem þarf að breyta en hér er það helsta:

Ef fólk reykir ætti það umsvifalaust að reyna að hætta.

Mataræði hefur einnig mikið að segja og flestir geta án mikillar fyrirhafnar borðað hollari fæðu. Flestallir ættu til dæmis að borða meira grænmeti og með því að minnka kolvetni á borð við hrísgrjón eða kartöflur með mat og bæta við soðnu grænmeti eins og gulrótum, rófum, brokkólí, blómkáli eða rósakáli í staðinn.

Hreyfing er líka mikilvæg og nýjar rannsóknir sýna að ef fólk getur bætt 1000 skrefum á dag við hreyfingu sína hefur það umtalsvert áhrif á heilsu þess til batnaðar.

Streita er sömuleiðis viðvarandi hjá mörgum og margvísleg ráð eru til  að draga úr henni. Með því að taka frá klukkustund á dag til að gera eitthvað sem viðkomandi hefur gaman af og nýtur þess að verja tíma í er líklegt að streitustigið lækki umtalsvert.

Endurhæfing og uppbygging vegna lungnaþembu

Greinist fólk með lungnaþembu er algjört lykilatriði að hætta að rækja. Bara við það eykst virkni lungnanna og lítilsháttar á hverju ári haldi menn bindindið. Það hjálpar einnig mikið að læra góða öndunartækni og rétta tækni við innöndun. Það getur hjálpað fólki að auka súrefnisflæði um líkamann og dregið úr öndunarörðugleikum. Margir hafa mikið gagn af því að læra að nota tæki sem mæla breytileika í lungnastarfsemi. Að öðru leyti ætti lungnaveikt fólk að nýta sér sömu lífsstílsbreytingar og mælt er með að hjartasjúklingar tileinki sér.

Endurhæfing eftir mjaðmabrot

Fyrstu vikurnar eftir aðgerð má alls ekki stíga af fullum þunga í slasaða fótinn en gönguþjálfun ætti samt sem áður að hefja eftir nokkra daga. Markmiðið er að ná sömu gönguvirkni og fyrir brotið. Í sumum tilfellum getur endurhæfingin farið fram heima – helst auðvitað með stuðningi heilbrigðisstarfsmanna. Margir þurfa hins vegar að leita til endurhæfingarstofnana. Það er hins vegar mikill kostur að geta æft sig í því umhverfi sem viðkomandi kemur til með að búa í áfram og þess vegna um leið og það telst öruggt er mælt með því að fólk geri æfingar heima og reyni að ganga um heimilið eins mikið og þeim er fært.

Endurhæfing eftir heilablóðfall

Eftir heilablóðfall fer í gang bráðameðferð á sjúkrahúsi en þegar læknar meta það mögulegt er sjúklingur sendur í enduhæfingarmeðferð. Staðan er metin og meðferðin miðar að því að gera það besta úr stöðunni hver sem hún er og auka færni eins og mögulegt er. Endurhæfing getur verið mjög krefjandi bæði líkamlega og andlega en hún skilar árangri og flestir sjá stöðugar framfarir. Stundum gerast þær hægt en stundum verða hraðari breytingar.

Endurhæfingarmeðferð þarf að hefjast eins fljótt og auðið er eftir heilablóðfallið og fyrstu vikurnar og mánuðina er hún stöðug og krefjandi. Til að byrja með miðar hún að því að kanna hver staðan er og skilja hvað þarf að byggja upp. Meðal annars er minnið kannað, málfærni, geta til að sinna daglegum athöfnum og verkum. Getur viðkomandi til dæmis haldið uppi samræðum áreynslulaust? Er hann fær um sinna persónulegu hreinlæti sínu, elda, fara í gönguferðir og borða upp á eigin spýtur. Sjúkraþjálfarar aðstoða menn við að byggja upp hreyfifærni að nýju og þeir kenna mönnum einnig að nota þau hjálpartæki sem eru í boði.

Iðjuþjálfar hjálpa líka til við að finna hentug hjálpartæki og gera ráðstafanir inn á heimilinu til að auðvelda sjúklingnum að koma heim og bjarga sér þegar þangað er komið. Talmeinafræðingar eru kallaðir til og þeir aðstoða ef sjúklingurinn glímir við tal- og kyngingarerfiðleika. Heilablóðfall getur haft áhrif á sjónina og valdið sjóntruflunum en það er mögulegt að draga úr þeim með ákveðnum þjálfunaraðferðum sem iðjuþjálfar kunna stundum skil á. Augnlæknar meta svo hvort þörf sé á nýjum gleraugum eða hvort aðrar leiðir séu til að bæta sjónina.

En vilji fólk ná aftur fullri stjórn á eigin lífi ætti það að leggja sig fram við að gera þær æfingar sem mælt er með. Það er nauðsynlegt að spyrja sem mest út í allt það sem er í gangi og fá eins miklar upplýsingar og hægt er frá þeim sérfræðingum sem koma að þínu máli um hvað þú mátt og átt að gera. Hversu mikið máttu til að mynda æfa? Ættir þú að fara út að ganga?

Fagið endurhæfing hefur verið til í um það bil tvær aldir og verið í stöðugri þróun í þann tíma. Byrjunin var þróun kennsluaðferða til að hjálpa blindum og döff fólki til að taka þátt í samfélaginu en síðan hófst skipuleg kennsla og uppbygging færni meðal fólks sem glímir við fötlun. Fljótlega varð mönnum ljóst að æfingar og þjálfun hjálpa alltaf og aðal áskorunin er að finna þær réttu fyrir hvern og einn einstakling. Mikið stökk var tekið fram á við þegar ungir menn sneru aftur úr fyrri og seinni heimstyrjöldinni mismunandi skaddaðir á líkama og sál. Undanfarna áratugi hefur átt sér stað mikil uppbygging í endurhæfingarþjónustu fyrir aldraða hjá sveitarfélögunum. Nú er yfirleitt stefnt að því að gera fólki kleift að búa inni á eigin heimili sem lengst.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn febrúar 10, 2025 07:00