Engar alvöru áætlanir til að mæta fjölgun eldra fólks

Anna Birna Jensdóttir

„Þessi tíðu umskipti í stjórn landsins hafa komið sér illa fyrir öldrunarþjónustuna, stjórnmálamenn átta sig ekki á hvað er í gangi. Það tekur tíma að komast inní þessi mál, það gerir það enginn á einu bretti“, segir Anna Birna Jensdóttir framkvæmdastjóri og hjúkrunarforstjóri Sóltúns í Reykjavík. Hún segir að almenningur og stjórnendur hjúkrunarheimila heyri sömu loforðin fyrir hverjar kosningar. Allir vilji gera vel, en efndirnar séu mjög hægfara. Þær gangi með hraða snigilsins.  „Það vantar ekki, að það liggji ekki fyrir allar upplýsingar um fjölgun eldra fólks, en það eru engar alvöru áætlanir gerðar, óháð því hvaða stjórnmálaflokkar eiga í hlut“, heldur hún áfram. „Landspítalinn ræður ekki við þann stóra hóp sem þar er, hjúkrunarheimilin anna ekki þörf og heimaþjónustan á öllum stigum sé í fjársvelti.  Það sama gildir um heilsugæsluna“, segir Anna Birna. „Það færi betur á því að það fé sem sóast við hin öru stjórnarskipti væru nýtt í velferðarþjónustuna“, bætir hún við.

Finnst ég eins og biluð grammófónplata

„Við erum eftirbátar annarra Norðurlandaþjóða þegar kemur að þjónustunni við eldri borgara. Ég hef unnið alla mína starfsævi í öldrunarþjónustunni og ég er að verða sextug. Mér finnst ég eins og biluð grammófónplata, ég er alltaf að flytja sömu ræðuna“, segir hún. „Öldrunarþjónustan gengur ekki eingöngu  á steinsteypu. Það ber öllum saman um að það vanti fólk, það er mikill skortur og fréttirnar þessa dagana fjalla einmitt um það. Stór hluti hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða er að fara á eftirlaun og margir þeirra fara í önnur störf, til dæmis í ferðaþjónustunni“.  Hún segir að mikið álag á starfsfólkið skapi streitu. Mönnum líði ekki vel og finnist það ekki geta nýtt menntun sína í að sinna fólkinu eins og þarf. „Við fljótum sofandi að feigðarósi og það er ekki það að menn hafi ekki upplýsingar“, segir hún.

Við góða heilsu og lifa sjálfstæðu lífi

Fjöldi Íslendinga sem eru áttræðir og eldri, mun nær þrefaldast fram til ársins 2050. Þá verða þeir 33 þúsund, en eru um 12 þúsund í dag. Íslendingar eru langlífir og Anna Birna segir að heilsufarserfiðleikar muni færast meira yfir á efstu árin. „ Ég er að tala um þá sem eru veikastir, en sem betur fer eru flestir eldri borgarar við góða heilsu og lifa sjálfstæðu lífi, þessu má maður ekki gleyma. Það eru ekki nema rúmlega 6% af aldurshópnum frá 67 ára og uppúr, sem eru á hjúkrunarheimilum  eða rúmlega 2.500 af 41.000 manns.  Yngri aldurshópurinn frá 67-80 ára hefur alla burði til að lifa góðu lífi. Meirihluti þessa fólks mun búa við betri heilsu. Heilabilun sem margir óttast mikið mun trúlega fjölga en mest í allra efstu aldurshópnum,.  En af því að það eru bara rúmlega 6% á hjúkrunarheimilum sem er þyngsta þjónustustigið, þá svíður mér að við svona efnuð þjóð skulum ekki geta hugað sómasamlega að þessum litla hópi.  Það er í umræðunni hvað þetta sé dýrt og mikill baggi. Við erum svo heppin hvað þetta eru fáir, en samt erum við með buxurnar niður um okkur í þessu.  Þetta er svo öfugsnúið.  Í hvert skipti sem ég ræði þetta eru allir sammála, en þeir sem fá völdin gera ekki nógu mikið til að snúa þessu við“, segir hún.

Gæti opnað nýtt Sóltún á morgun og það myndi fyllast

Anna Birna segist ekki talsmaður þess að eldra fólkið flykkist inná stofnanir,nema síður sé.  Það eru 92 hjúkrunarrými  í Sóltúni. „það komast mun færri að en þurfa og vilja, ég gæti opnað jafn stórt heimili hér við hliðina á morgun og það myndi fyllast“. Hún segir að samkvæmt þjónustusamningi við ríkið, hafi fólk frá Landspítalanum forgang í Sóltúni. Menn hafi því miður lítið um það að segja hvert þeir fari á hjúkrunarheimili. Opinberar tölur segja að biðlistinn eftir hjúkrunarrýmum sé  næstum 360 manns á landinu öllu, þar af 150 á höfðuborgarsvæðinu. „En við höfum talið að hann væri lengri, því það er erfitt að fá færni-og heilsumat.  Rýmum á hjúkrunarheimilum hefur  fækkað frá því fyrir hrun, eru í dag um 2500 en voru 2.700-2.800 fyrir hrun. Ein af ástæðum þessa er að herbergjum hefur verið breytt úr fjölbýli í einbýli og eldri hjúkrunarheimilum verið lokað. Ríkið telur að það vanti hér 500 rými á hjúkrunarheimilum á næstu 10 árum, sveitarfélög og margir stjórnendur í öldrunarþjónustu telja hins vegar að það þurfi að bæta við 160 rýmum árlega á næstu árum“, segir Anna Birna að lokum.

 

Ritstjórn nóvember 2, 2017 10:41