Hvað á að gefa afa og ömmu í jólagjöf?

Mig vantar ekki neitt, það eina sem ég vil er faðmlag og bros frá mínum nánustu, sagði eldri maður þegar börnin hans og barnabörnin voru að spyrja hvað hann langaði að fá í jólagjöf. Fyrir margt eldra fólk er samvera dýrmætasta jólagjöfin og það skyldi aldrei vanmeta. En flesta langar líka til að gefa eitthvað og þá kemur spurningin: hvað á að gefa afa og ömmu í jólagjöf? Hér eru nokkrar hugmyndir sem Lifðu núna fann á veraldarvefnum og gætu gagnast þeim sem vita ekkert hvað á að gefa elstu fjölskyldumeðlimunum í jólagjöf.  Klukka sem tilgreinir bæði vikudag og tíma er ein hugmynd. Margt eldra fólk gleymir því gjarnan hvaða dagur er og því er slík klukka himnasending fyrir það.

Hljóðbækur eru líka frábær gjöf fyrir eldra fólk og þær fást orðið í miklu úrvali í bókabúðum. Mörgum finnst líka gaman að hlusta á tónlist og ein hugmynd gæti verið að gefa disk með úrvali af tónlist sem var vinsæl þegar afi og amma voru ung. Flestum finnst gaman að fara út að borða og því ekki að gefa gjafkort á veitingastað. Það er líka hægt að gefa leikhúsmiða, miða á tónleika eða bíómiða. Allt eftir áhugamálum hvers og eins.

Sokkar með góðu gripi eru líka sniðug gjöf fyrir eldra fólk, hlýjar peysur og sjöl eru líka alltaf klassískar gjafir. Hægt er að fara inn þessa síðu á netinu og þar er að finna  margar góðar hugmyndir að góðum gjöfum handa afa og ömmu http://www.goodgiftsforseniorcitizens.com/2014/05/01/christmas-122514/

Ritstjórn desember 13, 2016 10:41