Eiga enga aðkomu að kjarasamningum

Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður LEB

Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður Landssambands eldri borgara sagði á landsfundi sambandsins í dag að eldri borgarar ættu enga aðkomu að kjarasamningum, þó rætt hafi verið við Drífu Snædal og marga fleiri. Hún sagði að verkalýðsforystan vildi eldri borgurum vel, en vandinn væri sá að hér væri ekki uppi sama staða og í Danmörku, þar sem heildarsamtök launþega hefur náið samstarf við sína eftirlaunaþega. Slíku væri ekki að heilsa hér.  Síðan sagði hún.

Þegar ég var í forystu verkalýðshreyfingar, þá var aldrei gengið frá samningum um laun á vinnumarkaði öðru vísi en að fjallað væri jafnframt um kjör aldraðra í landinu. Á þessu hefur því miður orðið breyting í verkalýðshreyfingunni og því ætlum við að breyta aftur.

Þórunn sagði að eldri borgarar þyrftu að bretta upp ermar og skoða stöðuna miðað við kjarasamningana og setja fram kröfur. Hún sagði orðalag 69 greinar almannatryggingalaganna versta óvin þeirra. Þar væri miðð við tvær leiðir til launahækkana hjá eldri borgurum, annars vegar að að greiða þeim hækkanir miðað við launaþróun – eða verðlagsþróun. Oftast væri ákveðið rétt fyrir jól að velja þá niðurstöðu sem kæmi verr út fyrir eldri borgara og miða hækkunina við hana.

Verður því breytt?  Hvað segið þið????   Öllu má breyta og í lífskjarasamningnum svonefnda eru skattalækkanir sem koma eldra láglaunafólki til góða eins og öðrum láglaunahópum. En gleymum því ekki að enn er ósamið við næstum helming vinnumarkaðarins. Venjan er sú að þá hefst kapphlaup og allir bæta í. Kjaramálin virðast eilíf og endalaust deiluefni.

Rúmlega 100 fulltrúar sitja nú á landsfundi LEB, sem er haldinn í húsnæði Félags eldri borgara í Reykjavík. Þeir koma frá 54 félögum eldri borgara í landinu og telja um 27.000 manns.

Ritstjórn apríl 10, 2019 14:57