Verðum ekki stirð af því við erum gömul

Kristín B Hallbjörnsdóttir

Það var fullur salur af konum í stólaleikfimi, raunar stólajóga í Jónshúsi í Garðabæ, þegar blaðamaður Lifðu núna leit þangað í heimsókn nýlega. Um 40 konur koma að staðaldri í þessa tíma hjá Kristínu Björgu Hallbjörnsdóttur jógakennara. Þær eru á aldrinum 60 – 93ja ára. Tímarnir eru tvisvar í viku á vegum Félags eldri borgara í Garðabæ. Kristín er einnig með tíma á Álftanesi.

Hættir að geta hreyft höfuðið til hægri

„Ég er alltaf jafn dolfallin yfir þessum konum. Maður sér hvað þær hugsa vel um heilsuna og þær eru svo flottar“, segir hún og er mikið niðri fyrir þegar talið berst að hreyfigetu eldra fólks og fólks almennt. „Ef þú hættir að hreyfa höfuðið til hægri, þá stífnarðu upp á endanum og hættir að geta hreyft höfuðið til hægri“, segir hún.

Öflugar æfingar viðhalda hreyfigetunni

Kristín segir að margir hafi ekki uppgötvað hvað það er gott að fara í jóga. „Það er ágætt að fara í líkamsrækt í stórum sölum, en þar er verið að taka á allt örðum þáttum. Þar er hávaði og læti en í jóganu kemur fólk inní rólegan sal, lærir að anda rétt og gera öflugar hreyfingar sem viðhalda teygjunni í líkamanum. Það væri ekki svona mikið um meiðsli ef liðleikinn væri til staðar. Við verðum ekki stirð af því við verðum gömul, heldur af því að við leyfum okkur það“, segir jógakennarinn.

Gott að fetta og bretta ristina

Æfingarnar hjá Kristínu myndu seint falla undir „dútl“. Þetta er stólajóga, öflugar jógaæfingar á stólum. „Ég legg áherslu á það í mínu jóga að fara yfir alla liði og liðamót líkamans til að fólk haldi hreyfigetunni og stirðni ekki upp“ segir hún og lætur konurnar í stólajóganu teygja og hreyfa bæði tær og fingur. „Það er líka gott að fetta og bretta ristina. Það stuðlar að góðu blóðflæði til handa og fóta, sem verður oft lélegt þegar fólk eldist“. Nokkuð sem menn velta örugglega ekki mikið fyrir sér á yngri árum. En þetta skiptir máli segir Kristín. „Þegar það er hálka skiptir máli hversu liðug og teygjanleg við erum. Stirt fólk rífur upp allar sinar og festur ef það dettur“.

Þurfum að geta staðið upp

„Ég tala líka um lærvöðvana í tímum. Það er nauðsynlegt að þeir séu sterkir og hreyfanlegir, því við notum þá til að geta staðið upp af klósettinu. Það er of mikið um að fólk geti það ekki. Og ef fólk dettur á gólfið, þá getur það ekki staðið upp ef vöðvarnir eru orðnir of lélegir“, segir hún. „Það væri heldur ekki svona mikið um hné- og ökklameiðsli ef við gerðum jafnvægisæfingar reglulega. Þær felast í því að standa á örðum fæti og styrkja sinar og festar og vöðvana þar í kring“, segir hún.

Ótrúlegt hvað þetta tekur á

Kristín Árnadóttir

Kristín Árnadóttir ein þeirra sem var í stólajóganu í Jónshúsi, er líka í stjón Félags eldri borgara í Garðabæ. Hún sagði að tímarnir væru rosalega vel sóttir og hefðu verið það frá fyrsta degi. „Þetta er annar veturinn með Kristínu, sem er frábær“, segir hún og bætir við að hún sé búin að vera í tímunum hjá henni frá upphafi. „Mér finnst þetta svo þægileg hreyfing. Það er ótrúlegt hvað maður tekur á, maður hitnar og svitnar við æfingarnar. Þó þetta sé stólaleikfimi tekur hún virkilega í. Það er líka mjög flott að félagið hér skuli borga þetta fyrir sína félagsmenn. Þeir geta líka farið í tíma í línudansi og Zumba hjá félaginu sér að kostnaðarlausu“.

Mæðgur saman í stólajóga

Auður Gunnarsdóttir og Margrét Harðardóttir

Mæðgurnar Auður Gunnarsdóttir og Margrét Harðardóttir eru saman í stólajóganu. Þær búa nálægt Jónshúsi, Auður á Strikinu og Margrét á Strandvegi í Sjálandshverfinu. Auður sem nú er að nálgast nírætt, segist alltaf hafa verið í leikfimi. „Ég byrjaði hjá ÍR þegar ég var 15 ára“, segir hún brosandi.  Hún segir að hreyfingin sé lífið sjálft. Hún hafi hrist af sér margar hremmingar með því að hreyfa sig. „Þetta er dásamlegt og Kristín er frábær kennari“ segir hún um stólajógað. Þær mæðgur Auður og Margrét stunda ekki bara jógaleikfimina. „Við förum út að ganga á hverjum morgni klukkan 10. Svo er hægt að fara í leikfimi hinum megin við götuna og líka í dans“, segir Auður, sem er hæst ánægð með að búa í Sjálandshverfinu í grennd við dóttur sína. Þær voru svo á leið í bíó síðar um daginn sem blaðamaður Lifðu núna hitti þær og ætluðu að sjá Bohemian Rhapsody. Hér fyrir neðan má svo sjá fólk á Álftanesi í stólajóga. Þar eru jafn margir karlar og konur.

 

Ritstjórn janúar 22, 2019 07:07