Tengdar greinar

Er í lagi fyrir augun að nota gleraugu úr apótekinu eða Tiger?

Hverjir þurfa á lesgleraugum að halda? Við öll, einhverntíma. Ástæðan er svokölluð ellifjarsýni, sem minnkar getuna til að sjá hluti skýrt sem eru nálægt manni. Flestir fara að taka eftir þessu uppúr fertugu.  Þannig hefst grein af systurvef Lifðu núna í Bandaríkjunum, sem fylgir hér með stytt og örlítið staðfærð.

Fjarsýni sem stafar af aldurstengdum breytingum í augunum er óhjákvæmileg og  ólæknandi. En sérfræðingar segja að réttu gleraugun, geti hjálpað fólki til að sjá betur til dæmis litla hluti og skjáinn á farsímanum. Þegar rætt er um réttu gleraugun, geta það líka verið gleraugu sem hægt er að kaupa á bensínstöðinni eða í apótekinu. En hvernig á að finna réttu gleraugun. Hér koma nokkur ráð frá sérfræðingum.

Gleraugu seld án ávísunar frá lækni

„Lesgleraugu úr apótekinu eru allt í lagi, er haft eftir Michelle Andreoli augnlækni í greininni. Hún segir að ódýr gleraugu keypt í lágvöruverslunum og á bensínstöðvum geti hjálpað fólki að sjá betur nær sér og þau skemmi ekki sjónina. En þeir sem þjáist af ellifjarsýni megi búast við að hún fari versnandi til 65 ára aldurs.

Þetta þýðir að styrkleiki gleraugnanna sem fólk byrjar með, dugir ekki lengi og því þarf að fá sér sterkari gleraugu með árunum.  Það er ágætis þumalputta regla að miða við að fólk á aldrinum frá 45 ára til 65 ára, þurfi að fá sér ný lesgleraugu á tveggja ára fresti, segir í greininni

Sérfræðingar mæla með því að menn láti mæla í sér sjónina áður en þeir kaupa fyrstu lesgleraugun. Þá er hægt að finna út hvaða númer menn þurfa. +1 eða +2,.50. Því hærri sem talan er, þeim mun meiri styrkur er í gleraugunum.  En það er líka hægt að hafa með sér lesmál í apótekið og prófa að lesa það með gleraugunum sem þar fást og eru misjafnlega sterk. Þannig er hægt að finna út hvaða styrkur hentar best.

Ef menn liggja einhvers staðar milli númera og geta ekki fundið út hvort þeir þurfa gleraugu sem eru til dæmis  +1.50 eða +2.00, er mælt með að þeir taki lægri styrkinn. Það er vegna þess að ef menn velja lesgleraugu sem eru aðeins of sterk, veldur það yfirleitt meiri óþægindum en gleraugu sem eru aðeins of veik.

Það skiptir líka máli hvernig menn ætla að nota lesgleraugun. Ef meiningin er að nota þau við tölvuna, þá er fjarlægðin meiri en ef fólk ætlar að lesa bók og þess vegna þurfa þau ekki að vera jafnsterk og gleraugu sem á að nota eingöngu til bóklesturs.

Gleraugu gegn ávísun frá lækni

En það hentar alls ekki öllum að kaupa ódýr gleraugu í apótekinu eða á bensínstöðinni.  Þeir sem eru með sjónskekkju eða þurfa stekari gler fyrir annað augað en hitt, ættu að leita til augnlæknis og fá hann til að skrifa út ávísun á sérstök lesgleraugu.

Margir kjósa margskipt gleraugu, þannig að þeir sjái allt með þeim, geti lesið, unnið á tölvu og séð frá sér með sömu gleraugunum og þurfi ekki að vera að skipta um gleraugu allan daginn.  Leita þarf til læknis til að fá slík gleraugu, en þeir sem glíma ekki við sérstök augnvandamál geta hæglega notað ódýr gleraugu sem þeir kaupa beint úr búð án aðkomu læknis.

Þeir sem hafa aðrar þarfir og vilja sérstök gleraugu, eftir ákveðna hönnuði til dæmis, velja gjarnan að fara til augnlækna og kaupa gleraugun sín í sérverslunum með gleraugu þar sem úrvalið er margfalt meira en í apótekinu. Einföld lesgleraugu fyrir þá sem ekki þurfa sértæk gleraugu frá augnlækni, fást sums staðar í gleraugnaverslunum, en annars er þau almennt að finna í apótekum og lágvöruverslunum.

Hvaða styrk þarftu af lesgleraugum?

Aldur Styrkur gleraugna
40-43 + 1.00
44-47 +1.25  – +1.50
48-51 +1.50 – +1.75
52-55 +1.75 – +2.00
56 -59 +2.00 – +2.25
50 – 64 + 2.25 – +2.50
65 + + 2.50 – + 3.00

 

 

 

 

Ritstjórn apríl 26, 2023 07:00