Þó heimsendir yrði á morgun myndi ég planta eplatréi í dag

Agnes M Sigurðardóttir

„Mér þótti skemmtilegast í prestsstarfinu að predika. Vegna þess að þá þarf að ástunda guðfræði og færa innihaldið í  texta Biblíunnar til samfélagsins í dag. Hann þarf að passa inn í líf fólks á 21. öld. Þetta eru eldgamlir textar skrifaðir fyrir þúsundum ára. Þetta  er spennandi viðfangsefni og líka mjög krefjandi“, segir Agnes M. Sigurðardóttir biskup, þegar blaðamaður Lifðu núna hitti hana að máli fyrir páskana. Agnes sem hefur verið biskup á Íslandi í tæp sex ár, fyrst kvenna til að gegna því embætti, ákvað 17 ára að verða prestur. Eftir að hún lauk námi í guðfræðideild Háskóla Íslands vígðist hún sem æskulýðsprestur þjóðkirkjunnar, en síðan lá leiðin til prestsstarfa úti á landi, fyrst á Hvanneyri í Borgarfirði og þaðan til Bolungarvíkur.

Páskaboðskapurinn á erindi við nútímann

Agnes segir að það þurfi líka að taka tillit til þess hvar er predikað. „Það var öðruvísi fyrir mig að predika í Bolungarvík í söfnuði sem ég þekkti, en í dómkirkjunni á nýársdag í útvarpsmessu, segir hún. Páskarnir eru stórhátíð kirkjunnar og Agnes telur páskaboðskapinn um dauða Krists á krossinum og upprisu, eiga erindi við nútímann. „Vegna þess að hann flytur boðskap um lífð, um ljósið, um vonina, blessunina og um kærleikann. Þetta er boðskapur sem allar manneskjur á öllum tímum þurfa á að halda og auðgar  líf hverrar manneskju“, segir hún.

Konur voru fyrstu vottar og boðberar upprisunnar

„Þjáning Krists á krossinum var ekki bara líkamleg, hún var ekki síður andleg. Lýðurinn hrópaði meiðandi og særandi orð að Jesú“, heldur Agnes áfram.  „Menn gætu hugsað sem svo, að hið illa hefði sigrað hið góða, þegar Jesú var líflátinn. Konurnar sem komu að gröf hans á páskadag til að smyrja líkið, urðu óttaslegnar þegar þær urðu þess áskynja að hann var ekki þar, en heyrðu þá rödd sem sagði að hann væri upprisinn. Það voru konur sem voru fyrstu vottar og boðberar þessara tíðinda, sem kirkjan okkar byggist á.“ Agnes segir páskaboðskapinn skipta máli, það sé svo margt fólk í veröldinni sem hafi fengið að reyna það í eigin lífi að Jesús er upprisinn. Þeir finni fyrir því að þeir gangi ekki einir á lífsins vegi, heldur sé Jesús með þeim.

Það er alltaf von um „upprisu“

„Maður sér margar líkingar dauða og upprisu Krists í lífinu“, segir Agnes. Það eru margar „krossfestingar“ sem manneskjan getur gengið í gegnum á lífsleiðinni. Það er margt sem gerist sem er erfitt, ósanngjarnt og óviðráðanlegt. Sumir berjast við fíkn, aðrir við sjúkdóma. Þarna kemur krossfestingin og upprisan inn í myndina. Það hjálpar fólki að sjá að maður festist ekki á erfiðum stað, það er alltaf von um „upprisu“, segir hún. „Eftir veturinn kviknar líf á ný og grasið verður grænt. Þannig virkar upprisan í daglegu lífi mínu. Bölið hefur ekki sigur, heldur blessunin. Dauðinn hefur ekki síðasta orðið heldur lífið. Illskan hefur ekki betur, heldur kærleikurinn. Það er ekki krossfestingin sem  heldur velli, heldur upprisan. Þetta finnst mér gefa mér kraft í mínu lífi, til að þrauka þegar illa gengur og til að treysta því að það komi betri dagar“.

Þeir sem eldast hugsa meira um tilgang lífsins

„Reynsla okkar með aldrinum breytir lífsviðhorfinu. Eftir því sem við eldumst, höfum við reynt meira og kynnst fleiru“ segir Agnes, þegar talið berst að aldri fólks. „Það eru aðrir hlutir sem fara að skipta máli, hlutir sem skiptu menn engu á öðrum aldursskeiðum. Lífið líður svo fljótt. Menn spyrja sig hvernig gat þetta gerst svona hratt? Ég held að flestir sem eldast staldri við og hugsi meira um tilgang lífsins og  hvað þeir vilji skilja eftir sig þegar þeir fara héðan. Maður var ekki að hugsa um dauðann á meðan maður var yngri en nú finnur maður að lífið styttist í annan endann. Samt á maður eins og Lúther sagði, alltaf að hugsa um framtíðina. Hann sagði þessi fleygu orð. Þó heimsendir yrði á morgun, myndi ég planta eplatréi í dag“.

 

Ritstjórn mars 30, 2018 09:40