Er virkilega hagkvæmt að við gerum allt sjálf?

Erna Indriðadóttir

Erna Indriðadóttir fjölmiðlakona skrifar

Ég vandist því að geta hringt í flugfélagið mitt og pantað farseðla með tiltölulega lítilli fyrirhöfn. Starfsmaðurinn hinum megin á línunni fann ódýrasta fargjald, ef ferðinni var heitið til nokkurra áfangastaða til dæmis í Bandaríkjunum eða Evrópu. Stundum pantaði hann hótel sem var á hentugum stað fyrir ferðina. Nú er öldin önnur og það er keppst við að lýsa því fyrir okkur hvað þetta er nú allt einfaldara og auðveldara núna, að geta nálgast allar upplýsingar og þjónustað sig sjálfur á netinu.

Ég skipulagði nýlega ferð til Bandaríkjanna, nánar tiltekið til New York og Tampa í Flórída. Ég gat flogið með íslensku flugfélagi til New York og síðan með ódýru bandarísu flugfélagi  þaðan til Tampa og aftur tilbaka til New York, þar sem ég ætlaði að dvelja í tvo daga á leiðinni heim. Ég þurfti að búa til reikning „account“ hjá báðum flugélögum með notendanöfnum og lykilorðum.  Og það má geta þess að ég er orðið með alls kyns reikninga og óteljandi lykilorð til að nálgast hitt og þetta á netinu. Allt gekk þetta vel, þar til að því kom að ég þurfti að aflýsa ferðinni af óviðráðanlegum ástæðum.  Ég  reyndi að fylgja öllum leiðbeiningum, þó þær væru ekki sérlega skýrar og svo var bara að vona, að mér hefði tekist að afpanta öll flugin og gistingu á tveimur hótelum. Ég sat þarna milli vonar og ótta, kófsveitt, því þarna var um töluverðar fjárhæðir að tefla og mikilvægt að gera allt rétt.  Allt tók þetta ótrúlegan tíma, líklega 1-2 daga allt í allt og sem betur fer gekk allt upp að lokum. Skyldi þetta vera hagkvæmt fyrir samfélagið þegar upp er staðið að allir geri allt sjálfir?

Allir þekkja hvernig það er að annast öll bankaviðskipti sjálfur. Vera með netbanka og kunna á allar skipanir þar og í bankaappinu. Það kostar  hins vegar langa bið í síma, ef maður ætlar að ná tali af lifandi manneskju í bankanum, en gervigreindin getur stundum hjálpað. Þegar beðið er í símanum er vakin athygli á að gjöld í samræmi við gjaldskrá bankans, kunni að vera tekin fyrir þjónustuna. Ég hef lítið verð að skoða skrána yfir þjónustugjöldin, en datt í hug að kíkja á þau á meðan ég beið í símanum en ég var númer 14 í röðinni. Þarna var verið að taka 310 krónur fyrir að segja viðskiptavinum frá stöðu á reikningum og 310 krónur fyrir að taka út peningaseðla í útibúi.  Það kostaði svo 950 krónur að framlengja yfirdráttarheimild í bankanum og ef menn vilja að starfsmaður breyti heimild á kreditkorti, kostar það líka 950 krónur. Mér þótti þetta býsna skondið. Hélt að bankastarfsmennirnir fengju einmitt greitt kaup fyrir þessa vinnu. Sumt af þessu er að vísu hægt að gera ókeypis í bankaappinu, ef fólk kann á það og  svo öllu sé til skila haldið, þá greiða 67 ára og eldri ekki fyrir öll þessi viðvik. Gott mál.

Ef tölva er keypt eða sjónvarpstæki, er reiknað með að fólk setji þetta saman heima, sæki forrit á netið, hlaði Microsoft Office pakkanum niður í tölvuna og  stilli inn alls kyns öpp í sjónvarpstækið. Það er reiknað með að allir kunni þetta, en Guð hjálpi fólki ef það strandar einhvers staðar í leiðbeiningabæklingunum. Það getur tekið heilan dag að koma þessu heim og saman, ef það gengur þá. Það eru sem betur fer til fyrirtæki sem veita þessa þjónustu og hún kostar verulegar fjárhæðir, en stundum er það eina leiðin.

Þá er ótalin þjónustan á póthúsunum, þeim örfáu sem eftir eru. Ef menn geta ekki eða vilja ekki fylla út fylgibréf með pakkanum á netinu, þá gera starfmennirnir það fyrir 275 krónur. Svo tekur orðið óratíma að senda bréf eða pakka milli landa. Maður efast stundum um að þeir skili sér í tíma. Í löndum sem flogið er til daglega, getur tekið allt að þrjár vikur að koma litlum pakka til viðtakenda. Ef maður vill að vera öruggur um að afmælispakki komist í tíma til viðtakenda í útlöndum, getur borgað sig að fara sjálfur með pakkana á áfangastað. Undantekning frá þessum eilífðartíma í póstinum er netverslunin, þar virðist mögulegt að senda pakka milli landa á 2-3 dögum.

„Óþekkt vara á pokasvæði! Leitið aðstoðar starfsmanns! Setjið vöru á pokasvæði!“. Þetta eru setningar sem glymja í eyrum, ef farið er í verslun að kaupa í matinn. Stundum er ástæðan fyrir þessum hrópum og köllum í vélunum alsendis ókunn, það er ekki að sjá að neitt sé að og starfsmenn koma hlaupandi með aðgangskortin sín, þannig að viðskiptavinurinn geti haldið áfram að skanna inn vörurnar sínar.  Þetta er mikil hagræðing og sparar verslunum líklega mikla peninga. Það er samt erfitt að sjá  að þetta hafi skilað neytendum lægra vöruverði.

Ég sakna gömlu daganna, þegar maður hitti fólk í búðum og fyrirtækjum og spjallaði við það, um leið og maður keypti inn, eða óskaði eftir þjónustu. Það er orðið fágætt að hitta fyrir fólk sem virðist hafa ánægju af því starfi sínu að þjónusta fólk. Það gerist þó annað slagið fyrir eitthvert kraftaverk og þá gengur maður út með bros á vör.

Erna Indriðadóttir september 4, 2023 07:00