Minningarfyrirlestur um Snorra Sturluson

Þriðjudaginn 27. september kl. 20 flytur Úlfar Bragason, prófessor erimitus, fyrirlestur í Snorrastofu í Reykholti, sem ber yfirskriftina  „„Harðmúlaðr er Skúli“: Níðið um Snorra“. Fyrirlesturinn, sem er hluti af fyrirlestraröðinni „Minningarfyrirlestur um Snorra Sturluson“, er öllum opinn og er aðgangur ókeypis.

Snorri Sturluson var í Noregi á árunum 1218–1220 eftir því sem Íslendinga saga Sturlu Þórðarsonar segir. Þar varð hann hirðmaður Skúla jarls Bárðarsonar, sem fór þá með landsstjórnina og Hákonar Hákonarsonar konungs. Flutti hann jarlinum tvö lofkvæði og fékk skip og fimmtán aðrar stórgjafir að launum. Snorri tók að sér að koma á friði milli norskra kaupmanna og Íslendinga en kaupmenn höfðu drepið Orm Jónsson, fósturbróður Snorra, og Jón son hans í Vestmannaeyjum. Björn Þorvaldsson, tengdasonur Orms, var ekki ánægður þegar hann frétti af loforði Snorra um milligönguna enda vildi hann fá rétt sinn gagnvart kaupmönnum og taldi að Snorri mundi standa í veginum. Hæddust hann og stuðningsmenn hans að Snorra og fengu mann til að snúa út úr stefinu í öðru lofkvæði Snorra. Útúrsnúningurinn lét í veðri vaka að samband Snorra og jarlsins hefði verið of náið, jafnvel kynferðislegt, og dró auk þess dár að kvæðinu og taldi skáldfíflahlut. Í fyrirlestrinum verður fjallað um þessa níðvísu út frá

Snorralaug

hugmyndum 13. aldar um karlmennsku.

Úlfar Bragason hóf störf árið 1988 á Stofnun Sigurðar Nordals , sem var ein þeirra fimm stofnana sem urðu að sameinaðri Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum árið 2006. Úlfar gegndi starfi forstöðumanns stofnunarinnar 1988–2006 en við sameininguna varð hann stofustjóri alþjóðasviðs nýrrar Árnastofnunar. Ásamt því að byggja upp Stofnun Sigurðar Nordals hefur hann sinnt fjölda trúnaðarstarfa og stundað rannsóknir. Þá sat hann í stjórn Snorrastofu frá upphafi til 2014.

Fyrirlesturinn er styrktur af Uppbyggingarsjóði Vesturlands.

 

Ritstjórn september 24, 2022 22:05