Erum varla nefnd á nafn í fjárlögunum!

Margir eldri borgarar urðu vonsviknir þegar fjárlögin voru lögð fram

Margir eldri borgarar hafa beðið spenntir eftir að sjá fjárlögin fyrir næsta ár. Miðað við það hvernig stjórnmálamenn töluðu fyrir síðustu alþingiskosningar voru væntingar þeirra um bætt kjör miklar. Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður Landssambands eldri borgara segir fjármálaráðherra enn einu sinni fara með rangar tölur um tekjur eldri borgara, hann segi þá hafa 300 þúsund krónur á mánuði en það sé einungis fjórðungur þeirra sem fái þá upphæð, þeir sem búi einir. Margt hjónafólk sé undir þessum mörkum. „Við erum varla nefnd á nafn í fjárlagafrumvarpinu og gerum athugasemdir við það. Þeim verður komið á framfæri við ríkisstjórnina“, segir hún.

Þeir lakast settu í forgangi

Þórunn á jafnframt sæti í starfshópi Félags- og jafnréttismálaráðherra sem stofnaður var síðast liðið vor um kjör aldraðra. Vísað er til þess í erindisbréfi hópsins að í stjórnarsáttmálanum sé lagt til  að gerð verði sérstök úttekt á kjörum tekjulægstu hópanna í íslensku samfélagi, tillögur til úrbóta verði settar fram og þeim fylgt eftir. Sá hópur eldri borgara sem býr við lökust kjör er þannig til skoðunar í starfshópnum. Formaður hópsins er Haukur Halldórsson, formaður Félags eldri borgara á Akureyri. Hann á auk þess sæti í stjórn Landssambands eldri borgara

Leigjendur hafa það einna verst

Þórunn segir að hópurinn hafi undanfarna mánuði verið að kortleggja hvaða hópur eldri borgara það sé, sem hafi það verst. „Það eru leigjendur“, segir hún „en um 2.500 eldri borgarar búa í leiguhúsnæði. Það eru líka þeir sem búa einir og hafa ekki fulla heimilisuppbót. Sumir þeirra eru líka leigjendur.  Verst setta hjónafólkið er svo það sem er með 239.000 krónur á mánuði fyrir skatt. Þá eru tvennar tekjur, en þegar búið er að borga föstu útgjöldin, er eftir upphæð sem nemur neysluviðmiði velferðarráðuneytisins fyrir einn einstakling“.

Öryrkjar lækka í launum við að verða eldri borgarar

Þórunn segir að það megi bæta við þetta tveimur hópum, en þeir eru „búsetuskerta“ fólkið og í þeim hópi séu bæði Íslendingar og útlendingar. Menn þurfi að hafa búið hér á landi í 40 ár, til að eiga fullan rétt á ellilífeyri, en nái búsetan til að mynda einungis 20 árum eigi fólk aðeins rétt á 50% lífeyri.  Hinn hópurinn er öryrkjar sem  verða eldri borgarar, en við það lækkar lífeyririnn sem hann fær. Þórunn segir að verið sé að skoða hvaða leiðir séu færar til að bæta kjör þessara verst settu hópa. Það sé í algerum forgangi. „Við höfum fengið skýrslu eftir skýrslu og líka tillögur um kerfisbreytingar frá alls kyns aðilum“.

Vilja ræða stóru málin

Hún dregur hins vegar ekki dul á, að þau sem sitja í starfshópnum fyrir hönd eldri borgara, séu ekki ánægð með þann þrönga ramma sem honum sé settur, og að ekki skuli farið í að skoða fleiri atriði sem lúta að kjörum eldra fólks, svo sem skerðingarnar sem nemi 45% af lífeyristekjum. „Við viljum ræða þessi stóru mál, til dæmis þá staðreynd að eldra fólk megi ekki vinna eins og það vill og líka gallana á almannatryggingalögunum. Það þarf að horfast í augu við þá“, segir Þórunn. Hún nefnir ákvæðið um sveigjanleg starfslok, en þar er gert ráð fyrir því að fólk geti tekið út hálfan ellilífeyri hjá almannatryggingum, hálfan hjá sínum lífeyrissjóði og jafnvel unnið launaða vinnu líka. Þetta hafi ekki virkað og  það þurfi að leysa.

Eins og blaut tuska

Þórunni er orðið heitt í hamsi „Og hvar er samningsrétturinn okkar?“, spyr hún. „Þetta er stór spurning og ekki rétt að ráðherra hafi tvo valkosti þegar kemur að því að hækka laun eldri borgara. Að þeir hafi um síðustu áramót fengið 4,7% hækkun, á meðan allir aðrir launamenn hafi fengið 7,1%. „Það var eins og blaut tuska í andlitið á eldra fólkinu“, segir hún að lokum.

Starfshópur ríkisstjórnarinnar  á að skila tillögum fyrir 1. Nóvember næst komandi.

Skoðaðu lífeyrismálin með því að smella hér á Upplýsingabanka Lifðu núna.

 

Ritstjórn september 14, 2018 14:45