Við  bíðum ekki lengur segja eldri borgarar

Eldri borgarar hafa ekki hugsað sér að bíða lengur eftir viðbrögðum við ákalli um betri kjör og Landssamband eldri borgara efnir til málþings um kjaramál eldri kynslóðarinnar mánudaginn 2 október á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu og hefst það klukkan 13.

Dagskrá málþingsins er mjög ítarleg og forvitnileg, en fjöldi fólks mun reifa þar kjaramálin sem skipt verður í þrennt.

Í fyrsta lagi verður fjallað um almennar aðgerðir sem koma þeim best sem eru með lágar- og miðlungstekjur. Í öðru lagi verður farið yfir sértækar aðgerðir fyrir þá sem verst eru settir og í þriðja lagi verður rætt um Breytingar á lögum, skattalögum og lögum um almannatryggingar.

Kröfurnar sem Landssambandið hefur uppi í kjaramálum eru meðal annars að frítekjumark verði 100.000 krónur, að ellilífeyrir almannatrygginga verði aldrei lægri en lægsti launataxti, að árlegar hækkanir lífeyris og frítekjumarka fylgi launavísitölu, að skerðingar minnki eða falli niður hjá þeim sem eru undir almennu framfærsluviðmiði og að tryggt verði að lífeyristakar njóti betur hækkana frá lífeyrissjóðum.

Meðal þeirra sem tala á málþinginu eru félags- og vinnumarkaðsráðherra, alþingismenn, áhrifamenn úr hópi samtaka eldri borgara, fulltrúar úr verkalýðshreyfingunni og sérfræðingar um kjaramál eldra fólks.  Þá segja eldri borgarar reynslusögur úr eigin lífi.

Málþingið fer fram í fyrirlestrarsal 1. hæð á Hilton hótelinu, gamla Hótel Esju. Ókeypis aðgangur og öllum opið meðan húsrúm leyfir.

Málþinginu verður streymt á vef LEB www.leb.is og www.visir.is

 

Ritstjórn september 30, 2023 17:03