Umsóknum ýtt út af borðinu vegna aldurs

Viðar Eggertsson

 

Auglýsingar frá Gráa hernum og Landssambandi eldri borgara, Meira en 50.000 litbrigði af gráu,  birtast nú reglulega í Sjónvarpinu. Þar sjáum við Íslendinga sem eru orðnir gráir fyrir hærum. Heilinn á bak við auglýsingaherferðina er Viðar Eggertsson leikstjóri sem um skeið var verkefnisstjóri Gráa hersins. Hann leitaði samstarfs við Landssamband eldri borgara og það varð úr að sækja um styrk fyrir þessu verkefni til velferðarráðuneytisins, sem fékkst, og verkefnið sem menn hafa fyrir augunum í Sjónvarpinu þessa dagana, varð til.

„Mörgum, sem komnir eru yfir miðjan aldur, bregður illilega þegar rennur upp fyrir þeim hvernig staða þeirra er orðin á vinnumarkaði. Sérstaklega ef þeir þurfa af einhverjum ástæðum að sækja um nýtt starf. Það reynist nefnilega oft þrautin þyngri, en þeir hugðu“, segir Viðar í samtali við Lifðu núna. „Ég hef heyrt alltof margar sögur af þrautagöngu þeirra, sem lýsir sér einfaldlega í því að kennitalan þeirra virðist „ónýt”, þegar þeir sem fara með ráðningamál innan fyrirtækja fá umsóknir þeirra í hendur. Umsóknum þeirra er oftast ýtt út af borðinu, sökum aldurs!  Það er svo skammsýnt, því við erum að tala um fólk sem hefur oftar en ekki fjölbreytta reynslu að baki. Þó þau sæki jafnvel um störf sem gera minni kröfu um menntun en þau hafa og gefa þá einnig lægri laun, kemur allt fyrir ekki. Þetta er fólk sem er ekki á leiðinni í fæðingarorlof, hefur ekki ung börn í sinni forsjá og ekki heldur fjarvistir af vinnustað vegna veikinda barna. Þetta er fólk sem er oft afar stundvíst, samviskusamt og sjaldan veikt. Það er einhver óskiljanleg ströng æskudýrkun ríkjandi á mörgum vinnustöðum. Þó löngu sé orðið kunnugt í vinnustaðafræðum að það gefur vinnustöðum aukið gildi að þar starfi fjölbreyttur hópur starfsfólks, af reynslu, menntun og á fjölbreyttum aldri“.

Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður Landssambands eldri borgara

Viðar minnir á að í  félögum eldri borgara um allt land er aldurstakmarkið 60 ár. Í yngstu hópunum sé fólk á vinnualdri. „Okkur fannst ástæða til að vekja athygli á stöðu þessa hóps núna. Hann hefur ekki beint verið sýnilegur“, segir Viðar.  „En eitt útilokar ekki annað og það eru vissulega ýmislegt fleira sem þarf að skoða framhaldinu“, bætir hann við.  Formaður Landssambands eldri borgara er ein þeirra sem kemur fram í auglýsingunum.

„Þegar við hjá Landssambandinu fengum til okkar þessa frábæru hugmynd að gera auglýsingar um gráa gullið, verðmætin sem felast í eldra fólkinu í samfélaginu, vorum við sannfærð um að það myndi ná til fólks og vekja athygli á þessum hópi á nýjan hátt. Í mínum huga snýst þetta um virðinguna fyrir eldra fólki“ , segir Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður Landssambandsins. „Við erum í fullu fjöri og fær um allt mögulegt“. Hún segir eldra fólki hins vegar oft sýnt virðingarleysi og sem dæmi um það nefnir hún stjórnmálamenn sem lofi og lofi ýmsu fyrir þennan hóp, kosningar eftir kosningar, en svíki svo allt saman. „Þetta er virðingarleysi fyrir eldra fólki“ segir hún. Hún bendir á að menn sem eru komnir á eftirlaun fari sumir í ný störf eða sjálfboðaliðastörf þegar þátttöku þeirra á vinnumarkaði lýkur. „Þetta er geysilega mikilvægt fyrir þjóðfélagið og þetta viljum við undirstrika. Sýna fólk sem hefur með höndum margs konar hlutverk þó aldurinn færist yfir og getur verið virkir þáttakendur í samfélaginu. „Það er skylda þjóðfélagsins að sýna þessum hópi virðingu alla ævi, í orði og á borði“, segir hún.

 

Ritstjórn janúar 9, 2019 09:26