Fá að lesa minningargreinarnar fyrirfram

Brúðkaupsmynd af Guðfinnu og Helga, hún 18 ára og hann 20.

“Þetta er nánast eins og að fá að lesa minningargreinarnar fyrir fram,” segja þau Guðfinna Helgadóttir og Helgi Axelsson brosandi en þau eru þessa dagana að hætta rekstri VIRKU vefnaðarvöruverslunar eftir 42 ára rekstur. Viðbrögð sem þau hafa fengið eftir að það kvisaðist út að þau ætluðu að hætta rekstrinum hafa yljað þeim mjög. Þau hjónin hafa unnið af mikilli hugsjón og lagt mikið á sig allan þennan tíma til að geta þjónustað dygga viðskiptavini sem best. Og nú uppskera þau eftir allt erfiðið og geta lifað áhyggjulaust ævikvöld. Þau eru sammála um að það sé ómetanlegt að fá að heyra í kúnnunum núna frekar en að öll þessi fallegu orð yrðu geymd fyrir minningargreinarnar. “Þá fengjum við aldrei að heyra þau,” segja þessi hressu hjón sem bæði eru orðin sjötug. Þau ákváðu að leggja verslunina niður frekar en að selja hana af því þau vita hvað þarf til að svona rekstur geti gengið. “Við vitum að yngra fólk mun ekki geta fórnað tíma sínum í þennan rekstur eins og við höfum gert og þá gaf auga leið að betra væri að leggja fyrirtækið niður. Þá gætum við leigt húseignina sem gæfi okkur tekjur eftir að við værum hætt að vinna,” segja þau.

Guðfinna og Helgi kvíða ekki aðgerðarleysi þegar Virka hverfur úr lífi þeirra því þau eru mjög virkar manneskju. Þau eiga til dæmist eyju á Breiðafirði þar sem er dúntekja og hlakka til að geta sinnt því áhugamáli sínu betur. Þau hafa verið íþróttamanneskjur frá því í gamla daga þegar skíðin áttu hug þeirra allan en sú íþrótt varð happadrjúg í lífi þeirra. Golfið er aðeins komið inn í lífið, þó heldur meira hjá Helga en Guðfinnu sem segist brosandi vera styrktarmeðlimur í golfklúbbnum en njóti þess að vera úti þótt hún slái ekki í kúlurnar enn sem komið er.

Kynntust á balli í Hlégarði

Helgi og Guðfinna kynntust á balli með Lúdó og Stefáni í Hlégarði þegar hún var 16 ára og hann 18 í október 1963. Október er mikill örlagamánuður í lífi þeirra hjóna því fyrir utan að kynnast í þeim mánuði fæddist fyrsta barnið þeirra í þeim mánuði, þau stofnuðu fyrirtækið í október og leggja það niður í október 42 árum síðar.

Guðfinna geymdi geysilega fallegan brúðarkjólinn en hann er svo lítill þar sem hún var svo smá að enginn hefur getað notað hann enn sem komið er.

Þau Helgi og Guðfinna höfðu áður séð hvort annað á skíðum, sem þau stunduðu bæði, en á ballinu í Hlégarði byrjaði sambandið sem átti eftir að vara allt til þessa dags. Ári eftir að þau byrjuðu saman ákvað Helgi að fara til frænda síns í Bandaríkjunum að vinna og þar tók hann síðar ameríska verslunarskólaprófið. Fljótlega ákvað Guðfinna að elta hann þangað eins og hún segir. Í þá daga bjó fólk ekki saman ógift í Bandaríkjunum svo það var ekki um annað að ræða en að gifta sig bara og það gerðu þau. Guðfinna hafði farið á námskeið í fatahönnun og Helgi stakk upp á að hún saumaði brúðarkjólinn sjálf sem hún gerði aðeins 18 ára gömul. Foreldrar hennar komu til Bandaríkjanna í brúðkaupið og Guðfinna rétt náði að klára kjólinn áður en mamma hennar kom til þeirra og Guðfinna sýndi henni afraksturinn stolt. Móðir hennar varð bæði hissa og glöð. Þegar upp var staðið komu 130 gestir í veisluna þeirra, mun fleiri en þau höfðu boðið. “Það vildu svo margir Vestur-Íslendingar sjá hvernig íslenskt brúðkaup færi fram og mættu bara og allir með gjafir,” segja þau hlæjandi sem kom sér aleilis vel í upphafi búskapar þeirra. Þau eiga þrjú börn, Sigurð sem er í viðskiptum eins og foreldrarnir og selur dróna, Axel sem er formaður smábátaeigenda og

Hér sést kjóllinn betur en hann er saumaður úr atlas silki og Guðfinna saumaði allt skraut á hann sjálf og yfirdekkti hnappana.

Dagbjörtu sem hefur starfað með foreldrunum í Virku og barnabörnin eru orðin 10 talsins.

Verslunin stofnuð

Guðfinna var 28 ára og Helgi 30 ára  þegar þau réðust í að stofna Virku og börnin voru þá öll fædd, 5, 6 og 8 ára. Þetta var 1. október 1976 og þau munu afhenda húsið nýjum aðilum, sem verða þó ekki í sama rekstri, 1. október 2018 eftir farsælan rekstur. Þau fundu fyrst húsnæði fyrir verslunina að Hraunbæ 102 sem þeim fannst ákjósanlegt þar sem þau bjuggu þar skammt frá. Þannig gátu börnin komið til þeirra þegar þau vildu en eins og gefur að skilja þurftu hjónin að vinna mikið fyrstu árin og þar var Virka fyrstu 5 árin.

Keyptu fótanuddtæki fyrir mömmu og pabba

Börnin fylgdust með foreldrum sínum vinna fyrirtækið upp og fannst þau oft ansi þreytt. Þau tóku sig því til einn daginn, tóku alla sparipeningana sína og fóru í strætó niður í bæ þar sem þau vissu hvar hægt var að kaupa fótanuddtæki. Þau áttu fyrir tækinu en ekki strætóferðinni heim en góðviljaður vagnstjóri aumkaði sig yfir þau svo þau komust heim með forláta fótanuddtækið og gáfu foreldrum sínum með mikilli viðhöfn. Guðfinna og Helgi voru auðvitað mjög glöð með uppátæki barnanna en nú þegar þau eru að tæma allar geymslur áður en þau afhenda húsnæðið nýjum leigjendum kom fótanuddtækið í ljós. Þau segjast því miður sjaldan hafa haft tíma til að nota tækið góða en hugur barnanna hafi verið svo dásamlega fallegur og gjöfin svo nytsöm, en dæmi um hlut sem þau komust af án allan þennan tíma. Þau segja hlæjandi frá því að nú sé ef til vill kominn tími þar sem þau geti gefið sér tóm til að njóta fótanuddtækisins.

Helgi smíðaði vörur sem þau seldu í Virku. Þetta er auglýsing frá þeim tíma.

Létu ekkert aftra sér

Helgi og Guðfinna voru ung og hugmyndarík og létu ekkert aftra sér þegar þau voru að vinna fyrirtækið upp og lögðu á sig þá vinnu sem þurfti. Helgi smíðaði allar innréttingarnar í verslunina sjálfur og Guðfinna einhenti sér í að setja saman námskeið sem hún þóttist vita að konur hefðu áhuga á en það voru námskeið í hnýtingum og smyrna. Þau ráku verslunina í 5 ár í Hraunbænum og fluttu hana þá á hornið á Klapparstíg og Hverfisgötu þar sem Virka var í 13 ár. Þá var komið að kaflaskilum aftur því þau tóku ákvörðun um að taka þátt í Kringluævintýrinu og opnuðu útibú þar. Þau fluttu útibúið í Faxafen 12 eftir aðeins tvö ár í Kringlunni en voru áfram á Klapparstígnum. Það hentaði þeim ekki að fylgja boðum um aukinn opnunartíma í Kringlunni sem allar verslanirnar þar þurftu að taka þátt í. 1994 byggðu þau svo húsið sem Virka hefur verið í við Mörkina 3 allt til þessa dags og sameinuðu verslanirnar þar.

Bútasaumurinn varð geysivinsæll

Þau leituðust við að fara aðrar leiðir í rekstri verslunarinnar en þær vefnaðarvöruverslanir sem voru hér fyrir. Þau fluttu inn tískufataefni sem urðu mjög vinsæl og árið 1978 fóru þau á sýningu í Seattle í Bandaríkjunum og komust þar í kynni við hjón sem aðstoðuðu þau fyrstu skrefin í viðskiptum með bútasaumsefni. Þessi hjón eru enn þann dag í dag miklir vinir Guðfinnu og Helga. Bútasaumsþátturinn í rekstrinum hefur gengið svo vel að þau hafa fengið kúnna frá Bandaríkjunum og Ástralíu í heimsókn. Hópur frá Bandaríkjunum nýtti sér tilboð Icelandair um ódýrt far til Íslands og þótti það meira spennandi en leita uppi bútasaumsverslanir á heimaslóðum. Kona frá Ástralíu sem stödd var á læknaráðstefnu í London með eiginmanni sínum valdi að fara til Íslands til að komast í Virku þegar hún mátti ráða hvað þau hjónin gerðu í þrjá daga eftir ráðstefnuna. VIRKA hefur lengi verið þekkt um allan heim fyrir gott úrval og þjónustu við áhugafólk um þessa listgrein eins og bútasaumur er oft kallaður. Þótt þau hjón séu núna að hætta rekstri Virku ætlar Guðfinna að halda áfram að vera með bútasaumsnámskeið á Hótel Örk eins og hún hefur gert í mörg ár. Hún nær því ekki þetta haust en mun halda námskeið þar haustið 2019.

Voru alltaf hrædd við að taka áhættu

Þegar Helgi og Guðfinna réðust í að stofna fyrirtækið hafði hann m.a. starfað sem skrifstofustjóri hjá Reykjalundi og hún í verslun. Þau voru blönk, eins og gengur með ung fólk, og Guðfinna fékk sér vinnu sem hún gat sinnt á kvöldin þegar Helgi kom úr sinni vinnu. Þau hafa tekið stórar ákvarðanir í rekstrinum í gegnum tíðina en aldrei stærri en svo að þau hafi ekki séð fyrir endann á ævintýrinu. Þannig hefur reksturinn gengið vel allan tímann þótt þau hafi gengið í gegnum þrengingar eins og þjóðin öll þegar kreppti að. Þau voru samt bæði heppin og útsjónarsöm þegar þau þurftu að taka  stórar ákvarðanir á ferlinum, t.d. þegar þau hófu að byggja húsið þar sem Virka er búin að vera undanfarin 24 ár. Það var á tíunda áratugnum en í byrjun hans var líka kreppa á Íslandi. Frekar en taka boði verktaka um að byggja húsið, sem hljóðaði upp á 130 milljónir, ákvað Helgi að vera sinn eiginn verktaki og náði að byggja húsið fyrir mun lægri upphæð. Og nú er þetta hús lífeyrir þeirra það sem eftir er. 

Ritstjórn ágúst 31, 2018 09:37