Tengdar greinar

Þurr janúar er heilsubætandi

Það getur verið gott fyrir heilsuna að hætta áfengisneyslu, jafnvel þó það sé aðeins tímabundið. Í Bretlandi hefur hreyfingin Dry January eða Þurr janúar verið að ryðja sér til rúms á síðustu árum.  Þeir sem taka þátt í átakinu neyta ekki áfengra drykkja fjórar fyrstu vikur ársins.  Það er ýmislegt sem bendir til að það hafi góð áhrif á heilsuna.  Á vefnum considerable.com er sagt frá tilraun sem tíu starfsmenn  breska tímaritsins New Scientist gerðu á sjálfum sér og hvaða áhrif það hafði á þá að hætta að drekka í 31 dag. Niðurstöður tilraunarinnar voru áhugaverðar. Fita í lifur þeirra minnkaði um 15 prósent að meðaltali, blóðsykurinn lækkaði um 16 prósent og þátttakendurnir léttust að meðaltali um tæpt eitt og hálft kíló, auk þess sem þeir sem tóku þátt í tilrauninni sögðu að þeir hefðu sofið betur og verið orkumeiri.

Það er í sjálfu sér ekki hægt að draga miklar ályktanir af svo litlu úrtaki. Samt eru niðurstöðurnar áhugaverðar í ljósi þess að þær eru ekki ósvipaðar þeim sem komu í ljós í könnun á meðal þeirra sem höfðu tekið þátt í könnun á vegum hreyfingarinnar Þurrs janúars. Í henni kváðust 71 prósent þátttakenda hafa sofið betur, 67 prósent sögðust hafa orðið orkumeiri, 58 prósent sögðust hafa lést og 88 prósent sögðust hafa sparað töluverða fjármuni. Það kostar jú skildiningin að drekka.

Prófessor Rajiv Jalan, London Medical School sem fylgdi tilraun starfsmanna New Scientist eftir segir að það sé engin leið að segja til um hver heilsusamleg áhrif þess að hætta að drekka í fjórar vikur hafi á fólk til lengri tíma. „Það geta verið 15 dagar eða 6 mánuðir, við vitum það ekki,“ segir hann.

Enn ein rannsókn bendir til að Þurr janúar sé ekki galin hugmynd. Árið 2016 fylgdust vísindamenn við Háskólann í Sussex með 857 bretum sem höfðu tekið þátt í janúarbindindinu. Niðurstaða þeirrar rannsóknar var sú að flestir höfðu minnkað áfengisneyslu sína næstu sex mánuði eftir að þeir höfðu lokið átakinu.

Ritstjórn janúar 15, 2019 07:24