Lifað og lært – Tómas R. Einarsson

Reynslan sýnir að ekki er sjálfsagt að við lærum af reynslunni en þeir sem í þessum þætti tala miðla af sinni reynslu af lífinu. Fyrstur til að tala er Tómas R. Einarsson tónlistarmaður með meiru.

Bræðralag

Minn starfsferill í tónlist hefur staðið í fjóra áratugi. Fram til aldamótanna spilaði ég ýmist með fólki sem var eldra eða yngra en ég sjálfur, allt í prýðilegri blöndu. Sá sem elstur var af þeim sem ég spilaði mest með var fæddur 1925, það var Guðmundur R. Einarsson. Þó ég hugsaði það ekki þannig þá var þetta nú engu síður langt og meira að segja launað nám í Sveifluskóla Guðmundar R. Hann byggði sinn stíl á djasstrommurum sem hæst bar milli 1935 – 40, þannig að ómeðvitað kynntist maður samhenginu í djassmúsíkinni.

Eftir fimmtugsafmæli mitt 2003 hef ég að kalla einvörðungu spilað með mér töluvert yngra fólki. Það var engin meðvituð ákvörðun heldur æxlaðist einfaldlega þannig. Framan af voru þetta hljóðfæraleikarar sem voru 15 til 25 árum yngri en ég en síðasta áratuginn hefur aldursmunurinn verið allt upp í 30 ár! Nánasta samstarfið hefur verið við gítarleikarann Ómar Guðjónsson, hann er fæddur 1978, það er sem sé aldarfjórðungur á milli okkar. Ég hef aldrei fundið til þessa aldursmunar nema að einu leyti, Ómar hefur alla jafna verið fyllri af eldmóði og krafti en ég. Og það hefur verið hreinn hagnaður minn í samstarfinu, fyrir nú utan hans fína gítarspil. Því er nú einu sinni svo farið að æskukrafturinn dempast með aldrinum og þá er gott að vera innan um fólk sem sér ekki eins mörg tormerki á ýmsum framkvæmdum. Það er til dæmis um gott samband okkar að hann er eini maðurinn sem hefur fengið að eiga lög á plötum sem ég hef gefið út! Ómar var búinn að viðra dúóhugmynd við mig árum saman en ég var hugsi af því ég vil alltaf ráða öllu sjálfur. En svo létum við vaða og var boðið að taka upp í gömlum uppgerðum fjárhúsum á Kolsstöðum í Hvítársíðu. Þá var ég orðinn 62 ára. Ég er ekki viss um að aðrir en Ómar hefðu náð að teyma mig í tónleikaferð eins og þá sem við fórum í um haustið 2015 til að kynna plötuna Bræðralag. Það var þriggja vikna ferð, tuttugu tónleikar hringinn í kringum landið. Það eru ýmis dæmi um það að músíkantar hafi leitað á vit örvandi efna af ýmsu tagi til að efla sér kraft í spilamennsku, ekki síst þegar frumkrafturinn var þrotinn og gráum hárum fjölgaði. Ég hef sloppið við það hingað til og er ekki síst að þakka þeirri örvun sem spil með yngra fólki hefur veitt mér.

 

Ritstjórn mars 18, 2020 08:07