Töluverð bið er eftir að komast í aðgerðir þar sem skipt er um hnélið í fólki sem einhverra hluta vegna er farið í hnjánum. Stefán Andrésson húsasmíðameistari fór í hnéaðgerð í gær, en hann er búinn að bíða í næstum eitt og hálft ár eftir að komast í hana. Honum var sagt að um 300 manns væru að bíða eftir svona aðgerð. Lifðu núna ræddi við hann áður en hann fór í aðgerðina.
Demparinn fór úr hnénu
Stefán lenti í vinnuslysi fyrir nær þrjátíu árum og sleit liðþófa í hægra hné að utanverðu. „Þar með var demparinn farinn úr hnénu“, segir hann. Hann hélt áfram í byggingavinnu og árin liðu. En árið 1998 lenti hann í bílslysi og varð að hætta allri erfiðisvinnu. Hann réði sig í vinnu hjá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen tveimur árum síðar og starfar þar í dag aðallega við skrifstofuvinnu.
Átti erfitt með hreyfingu og svefn
Hnéð fór svo aftur að segja til sín. „Ég var með miklar þrautir og verulega kvalinn í hnénu. Ég átti erfitt með að hreyfa hnéð, átti erfitt með að ganga og fór að þjást af svefnleysi“, segir Stefán. Hann segist hafa verið lengi á verkjarlyfjum og bólgueyðandi lyfjum. En hafi hætt á þeim vegna þess að það gagnaðist lítið að taka þau. Með hjálp sjúkraþjálfara hafði náðst að eyða bólgunni úr hnénu.
Hnéliðurinn ónýtur
Stefán segir að það hafi komið dagar, sem hann hafi ekki getað unnið, en sem betur fer ekki margir. Hann stundaði fótbolta til ársins 1998 „Það var hluti af minni tilveru“, segir hann. Eftir bílslysið leitaði hann til bæklunarlæknis enda hafði hann meiðst í baki. Tíminn leið, hnéð versnaði og í ljós kom að hnjáliðurinn hægra megin var orðinn ónýtur. Krossböndin farin að skemmast og ekki um annað að ræða en að fara í aðgerð. Hann segir að biðin eftir aðgerðinni hafi verið það versta, en hann beið í næstum eitt og hálft ár.
Ekki svæfður bara deyfður
Aðspurður hvort hann hlakkaði til að fara í aðgerðina og fá nýtt hné, sagði Stefán „ Já og nei. Vinnufélagi minn fór í aðgerð í vor. Hann brosir breitt í dag og fór á hreindýraveiðar fimm mánuðum eftir aðgerðina. Mér er sagt að ég verði í 3 mánuði frá vinnu, en að sögn þessa félaga míns er það alveg þess virði. Það er viss kvíði í mér, ég verð ekki svæfður, bara deyfður og mun heyra þegar verið er að saga og slípa beinið til. Það er ekki notaleg tilhugsun, en tekur fjótt af“, segir hann.
Of ungur fyrir nýtt hné?
Stefáni þótti það athyglisvert að læknirinn vildi bíða með það í lengstu lög að senda hann í aðgerðina. „Hann taldi mig of ungan“, segir hann. „En svona aðgerð á að endast í 10-15 ár ef ekki lengur miðað við tæknina í dag. Ég verð orðinn 78 ára eftir 15 ár, þannig að ég er hissa á því hvernig hægt er að telja mig og ungan til að fá nýtt hné“.