,,Áföll lífsins hafa gert mig að sigurvegara,“ segir Bubbi Morthens.

Þegar blaðamaður náði tali af Bubba Morthens var hann í göngu úti á Gróttu með hundinn, sem hann gerir nánast daglega. Þá var hann búinn að fara í ræktina og taka á og var tilbúinn í daginn. Hann viðurkennir fúslega að hann sé hégómlegur og að það skipti sig máli að líta vel út. Það þýði að hann verði að halda líkamanum vel við, útlitið sé bónus en heilsan sé aðalatriðið. ,,Ég er í sömu buxnastærð núna eins og þegar ég var tvítugur,“ segir Bubbi og hlær.

Verðum að taka ábyrgð sjálf

Bubbi verður 68 ára gamall í júní og segist vera löngu búinn að gera sér grein fyrir því að það sé undir honum sjálfum komið hvernig efri ár hann muni fá. Hann byrjaði snemma á ævinni að hreyfa sig, líka þegar hann var í dópinu. ,,Ég var alltaf að lyfta lóðum þótt ég væri ruglaður og alltaf eitthvað að sprikla. Ég er heppinn með gen því ég hef alltaf verið heilsuhraustur þrátt fyrir að hafa verið í dóprugli árum saman en auðvitað tók það sinn toll,“ segir Bubbi en hann fékk hjartaáfall fyrir nokkrum árum. Þegar hann kom í eftirlit, ári frá hjartaáfallinu, kallaði hjartalæknir hans á kollega sína til að skoða hvaða árangur hafði náðst. Það þótti með ólíkindum.

En dópruglið kostaði Bubba næstum lífið

Dópruglið hafði sem sagt næstum því kostað Bubba lífið en þökk  sé læknavísindunum náðu fagmenn að bjarga honum. Þeir komust að því að ein æðin sem liggur að hjartanu var óvenju lítil og þröng sem er meðfæddur galli. Það var því ekki hægt að setja Bubba í hjartaþræðingu en aðrar aðferðir notaðar til að bjarga honum og það tókst. ,,Ég hef aldrei litið á mig sem sjúkling en hjartaáfallið var sannarlega afleiðing slæms lífernis. Ég reykti bæði og drakk í mörg ár fyrir utan önnur fíkniefni og þá er ekki von á góðu,“ segir Bubbi og bætir við að hann hafi strax verið ákveðinn í því að ná fyrri heilsu til baka ef þess væri nokkur kostur. ,,Ég er nú í betra formi en hjartalæknirinn minn,“ segir hann og hlær. ,,Ég sagði við þann góða mann að þetta áfall gæti ekki hafa gert mér nema gott eins sérkennilegt og það hljómar. Þetta var enn ein viðvörunin og kenndi mér rækilega að forgangsraða í lífinu. Ég tók ábyrgð á því sem kom fyrir mig og hlusta ekki á úrtölur. Ég er ekki að grínast þegar ég segi að ég vilji deyja í góðu formi en ekki lélegu,“ segir hann og brosir.

Hjartaáfallið gerði mér ekkert nema gott

Bubbi er hér að skuggaboxa sem hann gerir reglulega. Á þennan hátt

æfir hann samhæfingu handa, fóta og augna. Hann hreyfir sig hratt

á litlum fleti og hreyfingin lítur út eins og dans enda kallar hann hana ,,dansaðu“.

Nauðsynlegt að beita sig aga og umbunin er svo mikil

 ,,Lykillinn að vellíðan fram eftir aldri er auðvitað að halda heilsu og þar koma erfðir inn sem einn þáttur, en bara einn. Við  getum nefnilega gert svo margt til að stuðla að góðri heilsu fram eftir aldri. En þegar allt kemur til alls er þetta spurningin um að taka ábyrgð á sjálfum sér því ef við gerum það ekki þá fer allt fjandans til eins og dæmin sanna,“ segir Bubbi ákveðinn. Hann bætir við að vöðvarnir hafi gífurlega hæfileika til að bregðast við áreiti og þjálfun. ,,Það er svo ótrúlegt hvað hægt er að fá vöðvana til að svara þjálfun vel. En til þess þarf maður auðvitað að beita sig aga en umbunin er svo mikil ef maður heldur það út.“

Vill að verkirnir í líkamanum stafi af æfingum en ekki kyrrsetu

Bubbi segir fullum fetum að hann viti að verkirnir í líkamanum komi af æfingum en ekki kyrrsetu. Hann hafði spilað tónleika daginn áður en viðtalið var tekið  og fór ekki að sofa fyrr en klukkan tvö. ,,Ég vil frekar halda daglegri rútínu og fara snemma af stað inn í daginn en sofa fram eftir. Ég hef þá trú að maður þurfi að hlusta á líkama sinn en ekki hausinn því hausinn segir manni of oft að leggjast bara í sófann og bíða þess að verkirnir hverfi. Í mörgum tilfellum er einmitt það versta sem við gerum að leggjast fyrir. Því fyrr sem fólk áttar sig á því þeim mun betur mun því líða.“

Aldrei of seint að byrja

,,Það finna allir að með aldrinum fer bæði hreyfifærni og -geta að dala en þá skiptir miklu máli að gefa ekki eftir og muna að það er aldrei of seint að byrja,“ segir Bubbi. ,,Í dag get ég sagt að ástandið á mér sé með ólíkindum gott en það er bara af því ég tek ábyrgð á sjálfum mér því það gerir það enginn annar. Við þurfum að spyrja okkur hvort við ætlum að ferðast á fyrsta farrými eða þriðja í gegnum lífið. Við höfum val og ég kýs fyrsta farrými en það kostar vinnu. Þá er það bara spurningin hvort við erum tilbúin að leggja á okkur þá vinnu. Ég hef reynsluna og veit að það borgar sig margfalt,“ segir Bubbi og hvetur jafnaldra sína og alla aðra að gera það sama.

Enginn meinlætamaður í mataræði

Bubbi segist ekki vera neinn meinlætamaður í mataræði en sé vakandi yfir því sem hann láti ofan í sig. ,,Ég borða hollt og í dag nota ég engin fíkniefni, hvorki reyki né drekk áfengi. Ég hvet alla til að láta áfengi eiga sig því nýjustu rannsóknir sýna að áfengir drykkir eru krabbameinsvaldandi. Og af hverju ætti maður þá að innbyrða þá? Svo er það þetta með hreyfinguna og ég hef komist að því að til að ná verulegum árangri þurfi maður helst að koma hreyfingu á blóðið  fjórum sinnum í viku.

Það er staðreynd að líkaminn brennir fæðunni hægar eftir því sem við eldumst og þá er ágætt að huga að því að minnka skammtastærðir og færa sig yfir í mat sem dugar líkamanum lengur. Það vita svo sem allir að ruslmaturinn er ekki góður fyrir okkur þótt við getum auðvitað leyft okkur að borða hann stöku sinnum. Það eru flestir orðnir ágætlega tæknivæddir og geta þess vegna séð hvað þeir eru að brenna svo það er engin afsökun,“ segir Bubbi og brosir.

Áríðandi að lyfta lóðum

Bubbi þjálfar sjálfan sig sex daga vikunnar í líkamsræktarstöð og líður mjög vel með það. Sjöunda daginn gerir hann miklar teygjur eftir að hafa farið í sauna og heitan pott. ,,Auðvitað er gott að fara út að ganga rösklega en eftir því sem við eldumst því meira áríðandi er að lyfta lóðum reglulega. Það viðheldur vöðvum og beinþéttni. Hreyfigetan minnkar með árunum og þá fer fólk að detta og brjóta sig. Þar með fer af stað vítahringur sem betra er að vera laus við.“

Getum gert æfingarnar heima  

Bubbi segir að við getum auðvitað gert æfingar heima hjá okkur en þá höfum við ekki aðhaldið sem felst í því að fara í líkamsræktarstöð þar sem eru þjálfarar. Mjög áríðandi sé að æfa bæði fætur og hendur. ,,Einföld æfing, sem skilar sér mjög hratt, er að setjast á stól og standa upp fimmtíu sinnum á dag en það er mjög góð æfing fyrir fætur. Best er að finna æfingar sem okkur þykja skemmtilegar og þá er björninn unninn. Ef við finnum ekki aðferðir til að koma hreyfingu inn í daglega rútínu þá erum við að svíkja sjálf okkur,“ segir Bubbi ákveðinn. ,,Það er bara til eitt eintak af okkur og eins gott að bera virðingu fyrir því eintaki.“

Hlakkar til á hverjum degi!

Eitt af því sem Bubbi veit að skiptir hann miklu máli, og alveg örugglega fleiri, er að hafa eitthvað til að hlakka til á hverjum degi, sama á hvaða aldri maður sé.

,,Við erum öll á leiðinni að deyja, það er ekkert leyndarmál, en í guðanna bænum höfum gaman á meðan við erum hér. Það skiptir svo miklu máli að varðveita barnið í okkur og finna fyrir tilhlökkun. Ég hef það fyrir reglu að fara yfir verkefni næsta dags á hverju kvöldi og gæti þess að á þeim lista sé alltaf eitthvað sem vekur tilhlökkun með mér. Það þarf ekki að vera eitthvað merkilegt eða stórkostlegt því litlu hlutirnir vekja tilhlökkun líka.“

Bubbi er ekki farinn að spila golf en segist vera svo mikill ástríðumaður að hann komi ekki fleiri áhugamálum fyrir. ,,Ég gæti alveg dottið í golfið en í bili er laxveiðin of fyrirferðarmikil á sumrin.

Bubbi Morthens hefur farið í gegnum rennireið lífsins með viðkomu í djúpum dölum en líka háum hæðum eins og alþjóð veit nú eftir að ævisaga hans var sett á svið Borgarleikhússins og vel yfir 100.000 gestir hafa séð. Niðurstaðan eftir þá rennireið er skýr, hann hefur komist að því hvað skiptir mestu máli fyrir hann og hagar lífi sínu í dag á þann hátt að draumar hans geti haldið áfram að rætast. Á þeim lista er þjálfun líkamans stórt atriði.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn maí 3, 2024 07:00