Falleg bók um Thor Vilhjálmsson

Og svo tjöllum við okkur í rallið, bókin sem Guðmundur Andri Thorsson skrifaði um Thor Vilhjámsson föður sinn, er alveg sérstaklega falleg bók. Myndirnar eru fallegar og textinn ákaflega fallega skrifaður. Hver einasta lína í bókinni og hver einasti bókstafur lýsir kærleika til Thors, viðfangsefnisins sem er „hægt og rólega“ að hverfa honum inní ljósið, eins og hann orðar það sjálfur. Guðmundur Andri skrifar bókina út frá ljósmyndum af Thor og fleira fólki.

Á blaðsíðu 11 er mynd af þeim feðgum þar sem Thor er með Guðmund Andra á háhesti. Það er sama mynd og notuð er á forsíðunni og Guðmundur Andri skrifar:

Hann hóf mig upp á háhest og bar mig um svo að ég gæti virt fyrir mér veröldina, hvílt á öxlum hans eins og hann væri góðgjarn risi í þjónustu minni. Þannig var það alla tíð, fram á síðasta dag.

Og svo tjöllum við okkur í rallið. Við förum út í rauða Fólksvagninn okkar – áður Morrisinn og seinna Saabinn – og loks Mözduna – og höldum af stað í bæinn á vit mannlífsins en þó ekki fyrr en pabbi er búinn að fara sjö ferðir aftur inn í hús að sækja eitthvað nauðsynlegt. Út í bílinn rogast hann blásandi eftir einhverjum japönskum öndunaraðferðum með hauga af bókum, tímaritum, blöðum og pappírum, eins og það sé meiri háttar ferðalag að fara úr Karfavogi niður í bæ – sem það kannski er. Þetta eru eintök af bókunum hans í erlendum þýðingum – framan af bara í enskri útgáfu af Andliti í spegli dropans með blárri kápu – L´Observateur, Sight and Sound og Il Dramma, með athyglisverðum greinum sem honum finnst að hann þurfi að hafa með sér eins og viskufarm eða andlega kjölfestu; vasakompur með pári, teikningum, símanúmerum og adressum, hugrenningum og spuna; sunddót fyrir okkur báða og peysur; erlendir dómar um útgefnar bækur hans og úrklippur með greinum um hann, einkum þó og sér í lagi grein um pabba eftir Arthur Lundkvist, óvin Astridar Lindgren, með fyrirsögninni Hann sitter på en ö og drömmer europeiskt, og pabbi ljósritar hvar og hvenær sem hann kemst í ljósritunarvél og á í hundruðum eintaka ef hann skyldi þurfa að sýna hana einhverjum. Á ferðum sínum um bæinn hefur hann með sér bæði útlönd og innlönd. Það er eins og hann sé ekki viss um að við munum eiga afturkvæmt heim og hann þurfi að pakka því helsta.

Og svo gleymir hann einmitt því helsta. Því sem hann átti að taka með sér. Þegar hann er minntur á það – eða annað sem hann hefur gleymt eða trassað að gera – kemur á hann svipur sem lýsir bæði gremju og sárindum yfir því skilningsleysi sem hann mætir og hann segir: Ég er með hausinn fullan af ótal hlutum og ég get ekki munað eftir öllu.

Seinna í kaflanum segir:

Hann sat á sinni eyju og dreymdi evrópska drauma. Hann var með hausinn fullan af ótal hlutum og gat ekki munað eftir því að muna eftir öllu. Ég vissi ekki þá hvað það táknaði fyrir hann að vera með alla þessa hluti í hausnum, og hversu erfitt að reyndist honum oft að þurfa að koma skipan á allt sem þar geisaði og festa það á blað, og hvað það kostaði hann að leita inn í sitt sundraða geð – og vera ferðalangur í heimahöfn. Hann var Ódysseifur. Hann var Maðurinn. Og Maðurinn er alltaf einn og Maðurinn fer um heiminn og ber í sér heiminn og ber á herðum sér heiminn. Daglega rauf ég einsemd hans þar sem ég birtist með allt mitt rimsírams. Ég vissi ekki þá hversu erfitt það gat verið honum að hafa köllun í lífinu. Ég veit það varla enn.

 

Ritstjórn desember 9, 2015 15:12