Fann ástina á innan við klukkustund

Elsa Egilsdóttir

Elsa Egilsdóttir

„Okkur fannst vanta á markaðinn stefnumótasíðu fyrir fólk sem er í sannri leit að félaga og eða lífsförunaut. Það eru nokkrar  stefnumótasíður í gangi hérlendis, maki.is er góð viðbót við þá flóru,“ segir Elsa Egilsdóttir, stjórnandi maka.is.

 Með dýrmæta reynslu 

Maki.is fór í loftið í byrjun ágúst. Þar eru 1001 virkur notandi á skrá, á aldrinum 18 til 65 ára álíka margir karlar og konur. Sá elsti sem hefur skráð sig inn síðuna er 86 ára. Elsa segir að ástæður þess að fólk skrái sig inn séu margvíslegar. „Sumir eru að byrja lífið aðrir eru að byrja upp á nýtt með dýrmæta reynslu í farteskinu,“ segir hún og bætir við að  þar sem stefnumót á netinu séu feimnismál fyrir marga á Íslandi, hafi verið ákveðið að hafa  síðuna einungis opna fyrir þá sem skrá sig. Það eru ekki allir sem kæra sig um að foreldrar, börn eða vinnufélagar viti að þeir séu skráðir á stefnumótasíðu.

Hægt að ákveða hverjir sjá prófílinn

Fólk getur líka ákveðið að einingis þeir sem eru á ákveðnu aldursbili geti séð prófíl viðkomandi. Til dæmis getur 60 ára maður ákveðið að einungis konur á aldrinum 55 til 65 ára sjái prófílinn hans. Menn og konur verða að skrá sig inn á síðuna undir kennitölu, sem er ekki sýnileg öðrum notendum. Villumeldingar birtast  ef kennitalan er ekki til og menn eru að reyna að skrá sig undir rangri kennitölu. Þetta er gert til að koma í veg fyrir að fólk sigli undir fölsku flaggi. Þá er fólk beðið um að skrá upplýsingar um barnafjölda, í hvaða atvinnugrein það starfar og svo framvegis. Notendur eru skráðir undir nafni eða gælunafni og þeir verða að senda andlitsmynd af sér. Það verður að vera hægt að þekkja þá af myndinni. Stjórnendur síðunnar fara handvirkt yfir allar skráningar til að sannreyna að allt sé rétt og satt.

Hægt að afþakka með einum smelli

Til að einfalda leitina að hinum eina sanna félaga er maki.is með 56 myndir yfir áhugamál sem  notendur geta valið úr og birtast á síðunni þeirra. Stefnumótasíðan, parar fólk svo saman við einhvern annan sem það deilir svipuðum áhugamálum með. Einnig er hægt láta vita að maður hafi áhuga á einhverjum en hafi hinn aðilinn ekki áhuga afþakkar hann pent með einum smelli.  „Þá er enginn vandræðagangur með hvað eigi að gera ef gagnkvæmur áhugi er ekki fyrir hendi. Þá er líka hægt að senda  gjafir, hrós og setja aðra notendur á áhuglista eða bannlista eftir  því hvað hentar hverjum.“

Makinn er fundinn

Það kostar ekkert enn sem komið er að skrá sig á maki.is en þegar fólk afskráir sig er það beðið um skýringu á því af hverju það vill ekki lengur vera inn á síðunni.  „Oftast er ástæðan sú að tilvonandi maki er fundinn,“ segir Elsa. Einn sendi póst og sagðist vera búinn að finna það sem hann leitaði að. Annar sagðist hafa skráð sig á margar stefnumótasíður en það hefði aldrei gengið neitt hjá honum. Maki.is var lokatilraunin en hún skilaði árangri og hann fann konuna sem hann var að leita að.  Sá þriðji sagðist hafa fundið ástina sína innan við klukkustund frá stofnun aðgangsins.

 Fann ástina eftir sjö ára leit

Og loks þessi saga af maki.is „Ég kynntist ástinni minni nánast um leið og ég  stofnaði síðuna mína hjá ykkur. Ég er yfir mig ástfanginn og alsæll því hún er búin að vera draumamaki minn allt mitt líf. Ég er yfir mig  ástfanginn og hefði aldrei trúað því að þetta væri hægt á  slíkum vef. Ég var búinn að vera á hinum og þessum  stefnumótasíðum í 7 ár og var við það að gefast endanlega upp  þegar ég stofnaði síðuna hjá ykkur sem átti að vera síðasti  séns og viti menn það tókst.“

 

 

 

 

 

Ritstjórn febrúar 19, 2015 13:58