Finna ástina á netinu

Björn Ingi Halldórsson

Björn Ingi Halldórsson

„Þegar ég setti vefinn upp hélt ég að 90 prósent allra sem myndu skrá sig yrðu á aldrinum 20 til 30 ára og meirihlutinn karlar. Raunin varð hins vegar allt önnur því hlutfall kynjanna er jafnt og flestir þeirra sem skrá sig eru á miðjum aldri,“ segir Björn Ingi Halldórsson, eigandi Makaleit.is  Hann segir að það sé svo sem ekkert undarlegt því þessi aldurshópur sé hættur að fara út að skemmta sér en sé mikið inn á netinu. Netið sé staðurinn þar sem fólk kynnist í dag.

Hægt að ákveða hverjir fá upplýsingar

Stefnumótavefurinn Makaleit.is var stofnaður fyrir tæpum tveimur árum. Í dag eru notendur hans 3.700. Fólk getur prófað vefinn því það getur skráð sig inn í tíu daga án þess að það kosti nokkuð, en ef það vill gerast áskrifandi að vefnum kostar það 600 krónur á mánuði. Notendur geta ákveðið sjálfir hverjir fá upplýsingar um þá. Til dæmis getur sá sem er 55 ára valið að einungis þeir sem eru 50 til 60 ára fái upplýsingar sem snúa að honum.

Leggja inn eina krónu

Margir sem nota stefnumótavefi eru hræddir um að þær upplýsingar sem fólk gefur um sig séu ekki réttar, að fólk sé að villa á sér heimildir. Það er hins vegar hægt að láta auðkenna sig á makaleit en þá er leitað staðfestingar á kyni og réttum aldri notendans. „Margir nýta sér þetta,“ segir Björn og bætir við að notandinn leggi inn eina krónu á reikning vefjarins og þá sjái umsjónarmennirnir nafn og kennitölu viðkomandi og geti þannig staðfest aldur og kyn.“

Ekki ætlaður fyrir skyndikynni

Björn segir að mikið sé lagt uppúr því að fólk fari ekki inn á vefinn í leit að skyndikynnum enda sé hann ekki ætlaður til þess. Makaleit.is sé fyrir fólk sem vilji finna einhvern til að deila lífinu með. Björn segist hafa fengið margar sögur frá fólki sem hafi fundið sér félaga á vefnum. Ein þeirra er af 72 ára gamalli konu sem skráði sig á vefinn fljótlega eftir að hann fór í loftið. „Hún skrifaði mér og þakkaði fyrir sig. Sagðist búa ein, en hún hefði fundið mann í gegnum vefinn. Svo vel gekk hjá þeim að þau ákváðu að eyða jólunum 2013 saman,“ segir Björn Ingi.

Bauð upp á ís

Önnur saga er af 55 ára gömlum manni sem hitti jafnöldru sína í gegnum vefinn. Hann skrifði Birni Inga þessi skilaboð. „Ég fann konu hér. Bauð henni upp á ís, en þá vorum við búinn að vera í sms sambandi. Við vorum tilbúin að hittast og fá okkur ís. Ég bauð henni upp á jojo ís.  Þegar hún var búin að fylla sína ísdós þá kom ég til að borga með korti, en þá var því hafnað. Þá voru góð ráð dýr. Ég sagði að ég þyrfti að redda þessu með peningana. Bað hana að bíða eftir mér. Er ég kom aftur var hún ekki búin að missa áhugann á karlinum. Við hlógum að þessu af því að ég var pening í vasanum til að borga ísinn. Við erum enn saman. Mjög sáttur í dag enda náði ég í yndislega og góða konu. Takk fyrir mig.“

Björn Ingi segir að það séu sögur á borð við þessar sem geri það svo gaman að halda vefnum úti. Það sé greinilega þörf fyrir stefnumótasíður fyrir fólk á öllum aldri.

 

 

Ritstjórn febrúar 13, 2015 12:26