Eldra fólk dýrmætt á vinnumakaði

Sigrún Stefánsdóttir tók fyrir ári við starfi forseta hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri en hún er nú 67 ára. Áður hafði hún sagt upp starfi sínu sem dagskrárstjóri sjónvarps og útvarps í Ríkisútvarpinu. Sigrún á að baki langan starfsferil í fjölmiðlum, sem fréttamaður og dagskrárstjóri. Þegar hún stóð á fimmtugu réði hún sig rektor Norræna blaðamannaháskólans í Árósum og síðan sem deildarstjóra hjá Norrænu ráðherranefndinni í Kaupmannahöfn. Þegar hún var orðin sextug réðst hún sem dagskrárstjóri hjá RÚV. Það kemur ekki heim og saman við reynslu margra kvenna sem eru komnar yfir miðjan aldur, um að það sé auðvelt fyrir eldri konur að fá starf aftur, ef þær missa vinnuna á annað borð eða vilja skipta um starf.

Uppgjöf og þú verður fórnarlamb

„Ég held að margir upplifi það þannig, að þeir muni ekki fá vinnu aftur ef þeir eru komnir á ákveðin aldur, en ég held að margir gengisfelli sjálfa sig líka.  Ég varð vör við þetta þar sem ég hef unnið, bæði hér og í Kaupmannahöfn.  Ég man eftir finnskri konu, sem var orðin rúmlega fimmtug og sló því föstu að hún myndi aldrei fá vinnu framar.  Um leið og þú gefst upp ertu orðin fórnarlamb“, segir Sigrún.

Eldra fólk dýrmætt á vinnumarkaði

Það er mikilvægt fyrir fólk að trúa að það sé eftirsóttur vinnukraftur“, segir hún og bendir á að margir haldi því fram að fólk, sem er komið á efri ár, sé besti vinnukrafturinn ef heilsan er góð. Þá eru börnin farin að heiman og fjárhagurinn orðinn betri.  „Það er enginn dýrmætari á vinnumarkaðinum en þeir sem eru orðnir fimmtugir og eldri“, segir hún.  Sigrún talar um gildi þess að fólk í háskólaumhverfinu  fái að stunda rannsóknir þegar kennslustarfi ljúki. Það sé ekki skynsamlegt að henda fólki út 67 ára.

Sumir þrá að hætta að vinna

Sigrún segir að sumir þrái það að hætta að vinna og finnist þriðja æviskeiðið dásamlegt. Það er gott og gilt en það á ekki að setja þeim stólinn fyrir dyrnar sem vilji vinna lengur.  Heilsa fólks sé önnur en var fyrir nokkrum átatugum.  „Horfum á okkur og ömmur okkar“, segir hún.  „Við búum við svo miklu betra atlæti og gætum verið 20 árum yngri en ömmur okkar þegar þær voru á sama aldri. Við erum líka betur á okkur komnar en mæður okkar voru þegar þær voru á okkar aldri. Þegar mamma varð sextug snerust hlutverkin við og við fórum að „vernda“ hana, til dæmis ef farið var til útlanda. Ég fer enn til útlanda á eigin vegum og held utanum allt mitt og stundum vel það. Ég er ekki komin í pössun“, segir hún og hlær.

Þarna liggja tækifæri fyrir eldra fólk

En það er misjafnt hvernig menn vilja hafa hlutina þegar þeir eldast. „Ef ég væri ekki að vinna, myndi ég búa mér til einhvers konar vinnu“, segir Sigrún.  Hún segist hafa hlustað á viðtal við frumkvöðla og segir að þarna liggi svo mikil tækifæri fyrir eldra fólk.  Það hafi reynslu og menntun og þarna liggi kannski tækifærin fyrir þá sem vinumarkaðurinn vill ekki. Sigrún segist hafa rætt við konu sem finnist dásamlegt að vera hætt að vinna og geta gert það sem hana langar til. Sjálf hafi hún prófað það í eitt ár að vera ekki í fastri vinnu og ekki þótt það dásamlegt. „Ég er svo mikil félagsvera, hef gaman af fólki og nenni ekki að vera pensionisti“ segir hún.

Fær ekkert nema maður sæki um

Ég geng út úr föstu starfi 65 ára“ segir Sigrún „ og gaf mér það að ég væri ekki hætt á  vinnumarkaðinum“.  Hún segist hafa farið að sækja um störf og hafi verið númer 2-3 á lokasprettinum í umsóknarferli um annað starf, þegar hún fékk starfið sem hún er núna í.„Maður fær ekkert ef maður sækir ekki um“, segir hún.

Annars missir maður kjarkinn

Sigrún segir það vafasamt að vera á sama  vinnustað í 40 ár.  Unga fólkið geri það ekki, það skipti reglulega um störf.  Sjálf segist Sigrún hafa skipt um störf á átta ára fresti.  „Annars missir maður kjarkinn“, segir hún.  Það er alltaf átak að ganga inná nýjan vinnustað“.  Hún segir líka að fjölbreytt reynsla sé dýrmæt.  „Ég er að upplifa það hér að ég kann ýmislegt sem aðrir kunna ekki, ég hef annan bakgrunn, önnur sambönd,  annars konar reynslu og hef ekki verið í háskólaumhverfinu allt mitt líf. Sigrún segir einnig að það sé mikilvægt að fylgjast vel með. Það sé líka spurning hvernig menn klæði sig og að þeir séu almennt í takt við tímann.

Góð heilsa er undirstaðan

En góð heilsa er undirstaða alls annars, segir hún.  Maður ráði ýmsu sjálfur í þeim efnum, að minnsta kosti því hvernig maður fer með sig. „Ég tel að grunnurinn að því að ég er við góða heilsu sé að ég hreyfi mig mikið.  Fólk er að vorkenna mér vegna þess að ég geng í vinnuna með bakpokann minn, 45 mínútna gang til og frá vinnu. Og þetta er ekki bara tími sem ég geng í vinnuna, ég get hugsað á leiðinni, skipulagt daginn og undirbúið fyrirlestra.  Ég nýti þennan tíma vel og þarf ekki í Worldclass.

Vill setja á laggirnar vísindaskóla

Ég finn aldrei fyrir því að ég sé með þeim elstu á vinnustaðnum. Þetta er kannski þessi dásamlega sjálfsblekking en ég verð heldur ekki vör við að aðrir umgangist mig eins og ég sé elst. Ég er svo forvitin, sem ég held að sé gott.  Það var ekki tilviljun að ég valdi mér blaðamennsku að lífsstarfi.  Mér finnst nauðsynlegt að fylgjast vel með og vera skapandi. Ég fékk nýlega hugmynd að vísindaskóla fyrir unga Akureyringa og er nú að þróa þá hugmynd áfram.  Það er bara svo skemmtilegt og ævintýrin eru á hverju horni !!

Hérna fyrir neðan eru myndir frá starfsferli Sigrúnar í sjónvarpinu og gönguferðum á Ströndum og á Grænlandi.  Neðst t.v. er mynd af henni með sambýlismanninum Yngvari Björshol  og með sonunum tveimur, Þorleifi Stefáni og Héðni Björnssonum.

 

 

 

 

Ritstjórn nóvember 20, 2014 11:26