Fara í mál til að fá umgengni við barnabörnin

Sífellt fleiri breskir afar og ömmur leita til dómstóla til að reyna að fá umgengnisrétt við barnabörn sín. Þetta kemur fram í grein á vef The Telegraph. Samkvæmt tölum frá breska dómsmálaráðuneytinu var 2000 slíkum málum skotið til dómstóla árið 2016 samanborið við 1.600 árið 2014.  Auk þess komu 45.500 slík mál til meðferðar barnaverndarnefnda árið 2015 en voru 52.200 á síðasta ári. Mun algengara er að það séu föður afar og ömmur sem reyna að fá umgengni við barnabörnin. Skýringin er að mæður fara oftar með forsjá barna eftir skilnað eða sambúðarslit. „Afar og ömmur lifa mun lengur en fyrir nokkrum áratugum og geta því fylgst með barnabörnunum vaxa úr grasi. Þau eru heilsuhraustari, lifa lengur og geta því frekar barist fyrir umgengni sinni við barnabörnin,“ segir lögfræðingurinn Meave Thomson. Hún geldur þó varhug við því að afar og ömmur fari í mál fyrir dómstólum til að reyna að fá umgengnisrétt. Það geti verið dýrt og það sé engin trygging fyrir því að þau fái dæmdan umgengnisrétt. Í nær öllum tilfellum ættu afar og ömmur frekar að reyna að semja um ákveðna umgengni og hafa hagsmuni barnsins til lengri tíma að leiðarljósi.

Á Íslandi er ekki tryggt í lögum að afar og ömmur fái umgengnisrétt við barnabörn sín. Á heimasíðu Umboðsmanns barna segir;

Í lögum er ekki beinlínis kveðið á um umgengnisrétt barns við afa og ömmur. Litið er á rétt þeirra, sem og annarra fjölskyldumeðlima, sem afleiddan af rétti foreldra til umgengni við börn sín.  Mikilvægt er að barn þekki fjölskyldu sína og nánustu ættingja og umgangist þau, ef foreldri telur slíka umgengni ekki vera andstæða hagsmunum barns af einhverjum ástæðum.  Foreldrar, eða þeir sem fara með forsjá barns, geta ákveðið að ung börn þeirra umgangist ekki ákveðna aðila í fjölskyldunni en þegar börnin eldast og þroskast eiga þau að fá meira að segja um samskipti sín við ættingja sína. Í sérstökum tilvikum, t.d. þegar umgengnisforeldrið er látið, eða er af einhverjum ástæðum ófært um að sinna umgengni (t.d. vegna veikinda, dvalar erlendis eða fíkniefnaneyslu), eða nýtur verulega takmarkaðrar umgengni, getur barn átt rétt á umgengni við afa og ömmur eða aðra nána vandamenn.  Um þetta er fjallað í 46. gr. a barnalaga en þar segir: Ef annað foreldra barns er látið eða bæði, foreldri er ókleift að rækja umgengnisskyldur sínar við barn eða foreldri nýtur verulega takmarkaðrar umgengni, á barnið rétt á umgengni við nána vandamenn þess foreldris eða aðra nákomna barni, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið. Ef ágreiningur er um umgengni er það sýslumaður í því sveitarfélagi sem barn á lögheimili sem tekur ákvörðun.

 

Ritstjórn apríl 10, 2018 11:51