Þegar afi og amma skilja

Ef að afi og amma hafa tekið ákvörðun um að skilja og eru búin að tilkynna börnum sínum um skilnaðinn er kominn tími til að ræða við barnabörnin. Að öllum líkindum þekkja börnin annað hvort af eigin reynslu eða af sögusögnum vina sinna einhvern sem hefur skilið. Samt sem áður geta þessar fréttir af fyrirhuguðum skilnaði afa og ömmu orðið þeim afar þungbærar. Hafið þetta því í huga.

Veljið góðan tíma til að tala við barnabörnin. Tíma þar sem þau eru ekki þreytt eða upptekin. Best er ef þið getið varið nokkrum klukkustundum með þeim eftir að þið hafið fært þeim fréttirnar.

Ekki reyna að fela neitt og ekki segja börnunum að það verði engar breytingar í lífi þeirra þó afi og amma skilji. Börn skilja miklu meira en fullorðnir halda og þau eru fljót að sjá í gegnum það ef þeim er ekki mætt af fullri hreinskilni.

Það getur verið gott að bjóða foreldrum barnanna að vera viðstöddum þegar þeim eru færðar fréttirnar. Það eykur líkurnar á að börnunum finnist þrátt fyrir allt eindrægni ríkja í fjölskyldunni. Foreldrar eru líka góðir til að svara ýmsum spurningum sem gætu vaknað hjá börnunum.

Verið undir það búin að eldri barnabörnin í hópnum spyrji hvort það sé einhver annar í spilinu eða hvort afi eða amma séu komin í nýtt samband. Svarið af hreinskilni án þess að fara út í einhver smáatriði um nýja sambandið ef þið eruð á annað borð komin í nýtt samband.

Forðist að tala illa um þann sem þið eruð að skilja við sama hversu reið þið eruð eða hverjum er um að kenna. Sá sem þið eruð að skilja við verður þrátt fyrir allt afi eða amma barnanna áfram. Forðist alla neikvæðni.

Reynið að vera ekki of tilfinningasöm. Ef barnabörnin spyrja hvort þið séuð óhamingjusöm, viðurkennið það ef svo er en forðist biturleika eða reiði. Látið foreldrana um frekari útskýringar ef það reynist ykkur of erfitt.

Reynið alltaf að hafa allar útskýringar eins einfaldar og hægt er og takið mið af þeim aldri sem börnin eru á. Amma/afi hafa ákveðið að búa aðskilin. Það er engum að kenna. Við elskum ykkur og við verðum ávallt afi ykkar og amma. Þið getið hvenær sem er haft samband við okkur eins og áður.

Áhyggjur barnanna geta beinst að því að þau missi annað hvort ykkar. Ræðið þetta sérstaklega. Ef annað hvort ykkar er að flytja í annan landsfjórðung segið börnunum það þá. Segið börnunum sannleikann, að það verði ekki hægt að vera í eins þéttu sambandi og áður vegna flutninganna en þið munið gera ykkar besta eins og þið hafið ávallt gert.

Spyrjið börnin hvort þau hafi einhverjar spurningar og verið undirbúin að svo sé. Þið getið gert ráð fyrir að þau spyrji af hverju eruð þið að skilja, hvað þýðir það fyrir mig og koma pabbi og mamma til með að skilja líka?

Þegar skilnaðurinn er genginn um garð skiptið ykkur þá ekki af sambandið hvors annars við barnabörnin. Ef þið hafið einhverjar athugasemdir þá eiga þær eingöngu að beinast að því að hvetja fyrrverandi maka til að hafa meira samband við börnin. Haldið áfram að mæta í öll boð sem eru haldin vegna barnabarnanna, sama þó fyrrverandi sé líka boðin.

Reynið að halda sambandinu við barnabörnin eins og það var áður en til skilnaðarins kom. Þú verður enn bakhjarl þeirra og þau halda áfram að leita til þín. Þín bíður það verkefni að halda áfram að baka pönnukökur með þeim, spila við þau og kenna þeim um lífið.

Ritstjórn mars 16, 2018 11:14