Fáránlega lítið mál að fá nýjan augastein

Ragnar Daníel Stefánsson verkfræðingur er nýbúinn að fá nýjan augastein í vinstra auga. Tildrög þess eru þau, að hann er með sykursýki og hefur þess vegna farið til augnlæknis til að láta skoða augnbotninn á sex mánaða fresti. Það bætir ekki úr skák að í ætt Ragnars hættir fólki til að fá augnbotnarýrnun. Það kom í ljós í þessum skoðunum að augasteinninn var farinn að glata gegnsæi. Og í maí síðast liðnum var hann hættur að sjá á spjöldin hjá lækninum með vinstra auganu.

Var farinn að hugsa um að fara í Sjónlag

„Þá var ég búinn að bíða í eitt og hálft ár eftir að komast í augasteinsaðgerð“, segir Ragnar og farinn að hugsa um að fara í aðgerðina hjá Sjónlagi. „En þá var mér sagt að ég gæti komist að á Landspítalanum í maí. Þá skall hins vegar á verkfall , síðan komu sumarleyfi og aðgerðinni var frestað til 13. ágúst“. Hann mætti í aðgerðina snemma morguns og fannst það svolítið óþægileg tilfinning að það ætti að fara að krukka í augað. „En ég átti ekkert val“, segir hann.

Ragnar Daníel Stefánsson

Ragnar Daníel Stefánsson

Augasteinninn ryksugaður upp

Ragnari var boðið að setjast í Lazy-boy stól og fékk kæruleysisdrykk og heita bakstra á augað. Síðan voru settir í það augndropar. „Maður sat þarna og hlustaði á þægilega tónlist“, rifjar Ragnar upp. „Undirbúningurinn tók hálftíma. Það var settur grænn dúkur yfir höfuðið með gati fyrir augað og síðan var ég beðinn að horfa í skært ljós. Það var rist í augað og svo var hátíðnitæki rennt inn í það. Augasteininn var sprengdur með því og síðan var hann ryksugaður upp“, segir hann.

Gríðarlegur kostnaðarmunur

Læknirinn sagði að Ragnar myndi finna örlítið fyrir því þegar nýja augasteininum var rennt inní augað og svo var allt klappað og klárt. „Þetta kostaði 3.800 krónur“, segir Ragnar „minna en leigubíllinn heim af spítalanum. Aðgerðin hjá Sjónlagi hefði hins vegar kostað mig um 300.000 krónur“.   Honum finnst sorglegt hvað biðlistinn er langur eftir þessari einföldu aðgerð. „Þetta var í raun ekki neitt“, segir hann. Samkvæmt opinberum upplýsingum voru í september síðast liðnum 2.915 manns á biðlista eftir augasteinsaðgerð á Landsspítalanum.

Eins og eineygður sjóræningi

Eftir aðgerðina þurfti Ragnar að nota augndropa í mánuð, og þar sem hann mátti undir engum kringumstæðum nudda augað, var hann með plashlíf fyrir því á næturnar í fimm daga. „Ég var eins og eineygður sjóræningi“. segir hann. Hann mátti ekki fara í sund í þrjár vikur og það var eini fylgifiskur aðgerðarinnar.

Nærsýnn og þröngsýnn

Ragnar sér vel með nýja augasteininum, en segir að sjónin hafi breyst og hann þurfi því ný gleraugu. Hann er nærsýnn á hægra auga og líka á nýja auganu, þar sem það þarf að vera jafnvægi þarna á milli. „Ég er nærsýnn og líka þröngsýnn og með bréf uppá það“ segir Ragnar léttur í bragði. Það kom nefnilega í ljós við læknisskoðun að æðakerfið í augnbotnunum hjá honum var ekki nægilega þroskað, sem stafaði af því að hann var einungis fimm merkur þegar hann fæddist. Sjónsviðið er því heldur þrengra en hjá öðrum. Nú þarf Ragnar að láta augað jafna sig vel, áður en hann getur farið í sjónmælingu til að fá ný gleraugu og um aðgerðina segir hann. „Þetta er fáránlega lítið mál og sorglegt að það skuli vera svona löng bið eftir að komast í þessar aðgerðir.

 

 

Ritstjórn október 26, 2015 15:23