Ólafur Sigurðsson varafréttastjóri skrifar
Ekki er að undra þó að fólki bregði í brún, þegar æðstu stjórnendur ríkisins fá kauphækkanir, þegar hækkunin ein nemur allt að tvöföldum lægstu launum í þjóðfélaginu.Það þarf vissulega einhverra skýringa við.
Hver ber ábyrgðina?
Kjaradómur og Kjaranefnd voru stofnuð með lögum, meðal annars til að alþingismenn þyrftu ekki sjálfir að ákveða sín eigin laun. Þó að þau heyri ekki með beinum hætti undir Alþingi eða ríkisstjórn starfa þau á ábyrgð Alþingis, sem hefur það í hendi sér að breyta lögum og skerpa á starfsreglum.
Hvað fá aðrir í laun?
Áður en þjóðin missir sig algerlega út af þessum launahækkunum væri ekki úr vegi að athuga hvað aðrir hafa í laun, sem sinna með einhverjum hætti þjónustu við borgarana. Hvað hafa til dæmis forstjórar ríkisstofnana í laun og hvað hafa þeir í aðrar tekjur? Hvað hafa ráðuneytisstjórar í tekjur þessa dagana? Laun þeirra hafa lengst af verið lægri en ráðherranna, en tekjurnar oft miklu hærri. Hvaða laun hafa leiðtogar verkalýðshreyfingarinnar, fyrir að gæta hagsmuna launafólks? Hvaða tekjur hafa forsvarsmenn þeirra mörgu samtaka, sem gæta hagsmuna atvinnulífsins gagnvart stjórnvöldum og þjóðinni? Það væri fróðlegt að fá nákvæmar upplýsingar um hvað forsvarsmenn lífeyrissjóða hafa í tekjur, fyrir að gæta og ávaxta ellilífeyri launþega. Ég hef það fyrir satt að laun þeirra séu mjög misjöfn, en að dæmi séu um svo sem þreföld nýju launin forsætisráðherrans. Það gæti verið fróðlegt að kynnast tekjum hæst settu bankamannanna, þegar ríki á þá að mestu eða öllu leiti og hagnaður þeirra er talinn í hundruðum milljarða króna. Og síðast en ekki síst, hvað ætli Kjararáð fái í laun og fyrir hvað mikið vinnuframlag?
Kemur okkur þetta eitthvað við?
Vafalaust finnst flestum sem hafa há laun að það sé þeirra einkamál, en ef betur er að gáð er það ekki þannig. Almenningur á rétt á þvi að vita hvað gert er við fjármuni samfélagsins. Það sama á í raun við um um stjórnendur stórfyrirtækja. Meðferð fjármuna þeirra er hluti af hag allra landsmanna og á ekki að vera leyndarmál. Til dæmis eiga lífeyrissjóðir um fjörutíu prósent af öllu hlutafé í kauphöllinni. Kemur það ekki landsmönnum við? Okkur kemur það líka við hvaða laun menn fá, sem reka stórfyrirtæki, sem eru með fjölda starfsmanna á lágum launatöxtum, á sama tíma og hagnaður fyrirtækjanna er talinn í tugum milljarða. Ég þykist vita að menn sem reka “einkafyrirtæki” telji það engum koma við hvað þeir geri við fjármuni fyrirtækisins. En það er nú þannig að hagur fyrirtækja verður ekki skilinn frá hagsmunum þjóðar. Það má minna á ummæli hagfræðingsins Hernando de Soto, sem segir að kapitalisminn hafi verið skapandi afl í uppbyggingu þjóðfélaga, sem snerist um uppbyggingu atvinnulífs, þjónustu við samfélagið og atvinnusköpun fyrir landsmenn. Nú sé það ranglega kallaður kapitalismi að versla með fjármuni í algerri leynd.
Hvað verðum við lengi að gleyma?
Það er mikil blessun fyrir alla valdhafa á Íslandi hversu fljót við erum að gleyma. Ef að líkum lætur verður allur æsingurinn út af þessu gleymdur eftir áramót og eitthvað annað æsingamál kemur í staðinn. Hinsvegar mætti nota þetta tækifæri til að ræða í fullri alvöru um launamál. Hver á launamunur að vera? Ættu allir að hafa sömuj laun? Hvernig á að meta hvers virði störf manna eru í flóknu samfélagi? Ef maðurinn á olíubílnum kemur ekki að skipshlið og dælir olíu í fiskiskipið, getur skipstjórinn ekki farið til veiða og aflað sér mikilla tekna. Hvor þeirra skiptir meira máli? Ef hjúkrunarfólk er ekki á sjúkrahúsinu geta læknar ekki unnið fyrir góðum tekjum. Hvorir skipta meira máli? Ef afgreiðslumaður á kassanum í stórmarkaði afgreiðir ekki viðskiptavininn verða engin viðskipti og þá breytir engu hversu klár forstjórinn er. Hvor skiptir meira máli?
Hættum öllu pukrinu
Fram að þessu hefur verið almenn sátt um það að munur sé á launum eftir því hvert starfið er, en umræða síðustu daga bendir til að sú sátt sé að rofna. Það eitt að hugsa um þetta mál er erfitt, hvað þá að komast að niðurstöðu og leysa málið. Það er grundvallaratriði í félagslegri umræðu að tala opinskátt án leyndar. Laumuspilið í samfélaginu er meinsemd, sem virðist fara versnandi.