Farðu vel með hendurnar

Hendur margra eru illa farnar eftir kuldatíðina í vetur. Neglur eru þurrar og brotna við minnsta hnjask og margir er með aum og sprungin naglabönd. Það er ekki bara vetrarveðrið sem fer illa með hendurnarnar,  skortur á vítamínum getur bitanað á nöglum og naglaböndum. Neglurnar geta klofnað og brotnað vegna skorts á B2 vítamíni. Neglurnar geta líka orðið stökkar vegna skorts a A-vítamíni eða kalki. Og skortur á zinki getur valdið því að naglaböndin verða þurr og hörð.

Hlífið höndunum

Hér eru nokkur einföld ráð til að hlífa höndunum. Alltaf að nota gúmmíhanska við uppvask og þrif. Nota milda handsápu sem þurrkar ekki húðina. Hafa feitan handáburð við höndina og ekki gleyma að nota hann. Ef húðin á höndunum er mjög þurr er gott að fjárfesta í bómullarhönskum og góðum handáburði. Berið vel af áburði á hendurnar fyrir svefninn og sofið með hanskana. Fólk ætti heldur ekki að vera berhent úti, heldur klæða sig í hlýja vettlinga eða hanska.

Olíubað fyrir naglaböndin

Hitið smá lögg af ólífuolíu og setjið í skál. Setjið hendurnar í olíuna og bíðið meðan olían er að kólna. Þegar hún er orðin köld takið þá hendurnar uppúr og nuddið olíunni vel inn í naglaböndin, neglurnar og hendurnar. Einföld en ákaflega góð aðferð til að mýkja neglur og naglabönd.

 

Ritstjórn mars 17, 2015 11:52