Fimm skilnaðarráð fyrir konur yfir fimmtugu

Þegar skilnaður verður um leið og ýmsar aðrar breytingar í lífinu, svo sem eins og að farið er á eftirlaun eða komið er að því að annast aldraða foreldra, er freistandi að draga sængina upp yfir höfuð og fara aldrei framar fram úr rúminu. Þótt það sé eðlilegt að verða mjög ráðvilltur við skilnað, getur það bjargað þér frá óþarfa stressi og átökum að forðast þessi fimm mistök sem hér verða talin upp, þannig að þú getir haldið áfram með líf þitt. Þau eru fengin af bandaríska vefnum sixty and me.

1. Að missa sjónar á heildarmyndinni

Skilnaður er ömurlegur vegna þess að okkur hefur ekki verið kennt að búa okkur undir þessi ósköp.

Er það ekki merkilegt? Læknar hafa árum saman brýnt fyrir okkur að fara vel með okkur, þannig að okkur líði betur þegar við eldumst. Fjármálaráðgjafar hafa predikað yfir okkur að búa okkur undir eftirlaunaárin. Hvers vegna gildir ekki það sama um skilnað? Enginn hefur hvatt okkur til að búa okkur undir hann.

Þegar við stöndum í skilnaði þyrmir yfir okkur í stað þess að við spyrjum okkur þeirrar eðlilegu spurningar, hvaða plan er í gangi? Hvar vil ég vera stödd þegar ár verður liðið frá skilnaðinum og hvernig kemst ég þangað? Það er ekki skrítið þó okkur finnist við hafa misst stjórn á eigin lífi.

Gerðu áætlun um hvar þú ætlar að vera eftir sex mánuði eða ár frá skilnaðinum og hvaða skref þarf að taka til að komast þangað, í stað þess að berjast við að lifa af daginn. Þessi aðferð getur líka hjálpað til við að búa okkur undir ófyrirséðar aðstæður og það versta sem getur hugsanlega gerst.

2. Að láta tilfinningarnar hlaupa með sig í gönur

Þegar þú tekur frá sársaukann við að skilja við makann þinn, er skilnaður í raun og veru viðskiptagjörningur. Það þarf að skipta eignum og skuldum og halda áfram. Þar með er ekki verið að gera lítið úr áratuga hjónabandi, en það er afar mikilvægt að halda tilfinningunum í skefjum, þegar átt er við viðskiptahlið skilnaðarins.

Heilinn skilur hvað er í gangi, en sá hluti af þér sem er öskureiður eyðir hugsanlega mánuðum í að rífast yfir hlutum sem hafa ekkert með viðskiptahliðina að gera. Það er skiljanlegt. Við tökum ákvarðanir út frá tilfinningum okkar af því við erum uppfull af særindum. Eina leiðin sem við þekkjum er að taka þær út í gegnum fjárhagslegar ákvarðanir, sérstaklega ef við höfum skilið eftir langt hjónaband.

Við skjótum yfir markið, því við ætlum að „sigra“ í skilnaðinum og „ná okkur niðri á“ fyrrverandi maka. Þessar litlu deilur draga skilnaðinn bara á langinn og gera að verkum að fólk lifir í endalausu uppnámi. Þú átt betra skilið. Þú ert búin að leggja þitt af mörkum árum saman og átt skilið að njóta lífsins. Hvers vegna að rogast með fullt af beiskju inn í næsta kafla lífsins?

Það „vinnur“ enginn skilnað og þú þarft að vera skýr í kollinum og taka skynsamlegar ákvarðanir. Annars glatar þú tíma, peningum og tilfinningalegri orku. Það er hins vegar nokkuð sem þú þarft nauðsynlega á að halda í lífínu eftir skilnaðinn.

3. Að láta aðra taka ákvarðanirnar

Þegar gengið er í gegnum erfiða skilnaði eftir fimmtugt er auðvelt að segja: „Veistu hvað, ég ætla bara að láta lögfræðinginn um þetta,“ eða: „Allt í lagi, ef ég samþykki allar kröfur hans losna ég endanlega við þetta fólk og get haldið áfram mínu lífi.“ Kannski gerir þú þau mistök að leita ráða hjá fólki sem er ekki fyrst og fremst að hugsa um þína hagsmuni.

Það er ekkert rangt að leita upplýsinga og ráða. En mundu að þegar upp er staðið er þetta þitt líf og þín framtíð. Það er á þína ábyrgð að taka ákvarðanir varðandi skilnaðinn. Þú getur fengið fólk til að ráðleggja þér, til dæmis sérstaka skilnaðarráðgjafa eða lögfræðinga. En þegar allt er um garð gengið, ert það þú sem þarft að lifa við þessar ákvarðanir – er þá ekki líka rétt að þú takir þær sjálf?

4. Að kynna sér ekki málin 

Hefurðu heyrt orðalagið „ Þekking er vald?“ – Þetta er vinsælt orðtak af því það er satt.

Skilnaður getur verið yfirþyrmandi. Á þeim tímapunkti í lífinu þegar fólk er komið yfir fimmtugt, finnst því oft að erfiðu tímabilin í lífinu séu að baki, en þá fær það skilnað í hausinn og veit ekki hvernig á að fást við hann.

Eina leiðin til að minnka óttann og óöryggið er að leita sér fræðslu um það ferli sem er að fara í gang. Það er hægt að finna upplýsingar um þetta á netinu og skilnaðarlögfræðingar og hjónabandsráðgjafar bjóða oft uppá ráðgjöf. Það er mikilvægt að skilja réttindi sín og hvar aðstoð er að fá, þannig að ekki sé valtað yfir þig í skilnaðinum. Eftir því sem þú aflar þér meiri upplýsinga, dregur úr hræðslunni og óörygginu. Aukinni þekkingu fylgir nefnilega aukið vald.

5. Að byrja að „deita“ áður en þú ert tilbúin

Eftir skilnaðinn, færðu ótrúlegt tækifæri til að ná þér, uppgötva sjálfa þig uppá nýtt og öðlast sjálfstæði – enginn nema þú getur upplifað þetta. Hvers vegna ættir þú þá að taka upp tilfinningasamband við nýjan mann, þegar þú hefur ekki einu sinni náð að læra að standa á eigin fótum? Og hvað gerist svo, þegar nýja sambandið sem lofaði svo góðu, gengur ekki upp?

Allar manneskjur þrá ástina. Það er skiljanlegt að verða einmana eftir að hafa varið stórum hluta lífsins með makanum þínum. Það er dapurlegt að skilja, en það er eiginlega verra að vera háður einhverju. Til dæmis háður því að komast sem fyrst í annað samband til að finnast maður verða elskaður eins og maður er.

En nú er hægt að rjúfa þennan vítahring. Stólaðu á vini þína, fjölskyldu, góðan sálfræðing, geðlækni og jafnvel skilnaðarhóp þegar þú ert einmana, ef slíkir hópar eru til staðar í þínu samfélagi. Á þessu tímabili í lífinu þarftu að setja sjálfa þig í fyrsta sæti.

Skilnaðarferlið er langt og strangt ferðalag, sérstaklega á efri árum. En ef þú aflar þér upplýsinga og leitar aðstoðar, getur það hjálpað þér að forðast þau mistök sem hér hafa verið rakin og flýtt fyrir þannig að þú farir að njóta bestu æviáranna fyrr en varir.

Ritstjórn nóvember 24, 2021 07:34