Skilnaður ekki eina lausnin í miðaldurs krísu

Flest þekkjum við ugglaust hjón sem hafa skilið á eftir árum, eftir áratuga hjónaband. Það getur valdið skilnaði þegar fólk gengur í gegnum krísu á miðjum aldri. Miðaldurskrísan sem slík, getur haft neikvæð áhrif á hjónabandið eða orðið til þess að það rennur upp fyrir fólki að sambandið sem það hefur verið í, er ekki fullnægjandi. Þannig hefst grein á vefnum Sixty and me, sem fjallar um miðaldurskrísur og skilnaði. Hún fylgir hér í lauslegri þýðingu Lifðu núna.

Miðaldurs krísa er eðlilegt viðbragð við hækkandi aldri.

Þegar lífið er hálfnað áttar fólk sig ef til vill á því, að það er ekki ánægt með það líf sem það hefur lifað. Því finnst jafnvel að það eigi ekki sérstaklega langt eftir og nú þurfi að gera ráðstafanir til að njóta lífsins til fulls.

Almenn óánægja sem orsök miðaldurskrísu

Það kann að vera að samband fólks við makann sé ein af ástæðum þess að það er ekki ánægt. En það geta líka verið aðrar ástæður. Fólk getur verið óánægt með að hafa ekki náð ákveðnum markmiðum sem það setti sér, eða ekki náð þeim frama í starfi sem það óskaði sér. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir, hvað það er nákvæmlega sem menn eru óánægðir með og á hvaða sviði lífsins óánægjan liggur áður en þeir bugast alveg og telja sér trú um að þetta snúist allt saman um að hjónabandið sé ómögulegt.

Miðaldurskrísa getur valdið skilnuðum

Stundum finnst fólki það þurfa meira frjálsræði. Það kemst kannski að þeirri niðurstöðu að hjónabandið sé óþolandi. Það er ekki óalgengt að leiðast úr í framhjáhald við þessar aðstæður, eða aðra hegðun sem skaðar sambandið.

Skilnaður  ekki eina lausnin

En það er mikilvægt að leyfa ekki miðaldurskrísunni að hafa neikvæð áhrif á hjónabandið. Ef fólk kennir hjónabandinu eingöngu um vanlíðanina í miðaldurskrísunni, er erfitt að gera nokkuð til að bæta sambandið. En sem betur fer er mögulegt að bæta hjónabandið, jafnvel þótt miðaldurskrísan hafi þegar leikið það grátt.

En það tekur tíma að lagfæra það sem hefur farið úrskeiðis og það er mjög mikilvægt að geta rætt málið við makann sinn og fundið það út í sameiningu hvað best er að gera til að bjarga hjónabandinu.

Að eiga kærleiksríkt og gott samtal um vandann

Fólki er í greininni bent á að það sé skynsamlegt að leita til fjölskylduráðgjafa þegar hjónabandsvandræði steðja að. Það sé ekki endilega mikið vit í því að hjónin ræði málin bara einslega. Þau eru ef til vill orðin föst í ákveðnu fari og þurfa aðstoð við að komast uppúr því.

Hvað er það sem veldur óánægjunni?

Takið tíma í að hugsa það vel og vandlega hvað þið eruð að ganga í gegnum og reynið að festa fingur á ástæðuna fyrir því að þið eruð svona óáængð. Kannski er hjónabandið ekki vandinn og þess vegna ætti fólk ekki að rjúka burt bara venga þess að það vill meira frjálsræði og vill upplifa eitthvað nýtt

Hjón lenda oft í því að lífið verður að tilbreytingarlausri rútínu, án þess að nokkur hafi beinlínis ætlað sér það. Þegar það gerist, getur virst sem grasið sé miklu grænna hinum megin við girðinguna. En ef menn gefa sér tíma til að kanna ný áhugasvið, getur það komið þægilega á óvart hvað makinn er ánægður með það.

Að fara einn í hjónabandsráðgjöf

Ef hjónabandið er ekki gott, er ástæða til að spyrja sig hvers vegna það er. Það er líka gott að ræða það við hjónabandsráðgjafa og við makann sinn. Það getur verið að hann sé líka óánægður í hjónabandinu og sé að kljást við sín eigin vandamál. Það ætti að vera markmið að bæta sambandið, þannig að það uppfylli þarfir beggja. En jafnvel þótt makinn vilji ekki fara í viðtöl hjá hjónabandsráðgjafa, er fólki ráðlagt í greininni að fara samt, bara eitt.

Greinarhöfundurinn segist hafa einsett sér að breyta þeirri skoðun að það þýði ekkert fyrir annann makann að fara til hjónabandsráðgjafa án hins. Hann er hins vegar sannfærður um að það geti bætt stöðuna, öfugt við það sem oftast er haldið fram. Hann hafi reynslu af því sjálfur, að það sé hægt að snúa hlutunum við, með því að vinna einungis með öðrum makanum að því að bæta sambandið. Það sé mikilvægt fyrir fólk að ræða við einhvern sem hjálpar því að sjá hlutina í öðru ljósi og skilja hvernig miðaldurskrísan getur brenglað hugmyndir fólks um hjónabandið sem það er í.

Þegar fólk gengur í gegnum krísu á miðjum aldri, er það oft merki um að það þurfi að breyta ákveðnum hlutum í lífi sínu svo það verði ánægjulegra. Það sé einnig hægt að líta svo á að í krísunni felist tækifæri til að þroskast sem einstaklingur og bæta sambandið við makann í leiðinni.

 

 

Ritstjórn maí 25, 2023 07:00