Flasa myndast vegna fitu í hársverðinum

Lilja Sveinbjörnsdóttir hárgreiðslumeistari

Lilja Sveinbjörnsdóttir langreyndur hárgreiðslumeistari segir að venjuleg flasa myndist vegna of mikillar framleiðslu á fitu í hársverðinum.  „Það veldur síðan sveppasýkingu“, segir hún og telur að í flestum tilvikum séu það sveppirnir sem valdi flösunni. „Þá skiptir miklu að þvo hárið oftar“, segir hún en bætir við að það sé einnig til í dæminu að exem, til dæmis psoriasis valdi flösu í hári. Þá geti menn einnig fengið flösu, ef þeir þoli ekki ákveðið sjampó.

Flösusjampó eða sveppasjampó

„Það er ekki algengt í dag að fólk sé með mikla flösu. Mér finnst að það hafi verið meira hér áður.  Ef maður sér flösu í dag, er það oft vegna þess að fólk er með psoriasis og það getur verið erfitt að eiga við það“, segir Lilja.   Menn nota ýmis ráð ef þeir fá flösu.  Lilja segir að sumir noti flösusjampó. Flösusjampó virkar stundum, en flasan kemur aftur og yfirleitt þarf að nota flösusjampóið einu sinni í viku.  Ef það virki ekki þá sé fólk hugsanlega með psoriasis og þurfi eitthvað annað. Það sem Lilja ráðleggur fólki með flösu þó að gera, er að fara út í apótek og kaupa sveppasjampó, annað hvort Dermalin eða Fungoral. „Ef flasan lagast við það, er þetta sveppasýking“, segir hún.  En það er sama með sveppasjampóið og flösusjampó, það þarf að nota það reglulega. Hún segir jafnvel gott að láta sjampóið bíða í 5 mínútur í hárinu, áður en það er þvegið úr.

Gráhærðir fá ekkert frekar flösu en aðrir

Aðspurð hvort fólk fái frekar flösu með árunum, segist Lilja telja að svo sé ekki. Ekki nema fólk þvoi sér sjaldnar um hárið. Fólk með grátt hár fær heldur ekkert frekar flösu en aðrir.  Hún nefnir sem dæmi 94 ára gamla konu sem liti enn á sér hárið og hafi aldrei fengið flösu. En í háralit sé að finna efni sem losi hrúður úr hársverðinum.

Ritstjórn maí 3, 2018 06:36