Guðdómleg rabarbarabaka að sumri

Rabarbari vex víða í görðum á Íslandi. Hann hefur verið nýttur í matargerð frá því hann var fyrst fluttur til landsins en hann er upprunninn í fjallahéruðum Kína. Hann barst til Evrópu með kaupmönnum á 14. öld. Í fyrstu var rótin eftirsótt í lyf, m.a. hægðalyf, en nú er það stilkurinn sem er mest notaður. Blöðin má sjóða og búa til náttúrulegt skordýraeitur úr, en þau eru ekki notuð í matargerð.

Rabarbarinn er af ávaxtaætt og hann er þrunginn næringu. Hann er kalkríkur og í honum er efni sem er gott fyrir húð og augu. Í rabarbaranum finnst líka mikið af K-vítamíni sem er mjög gott fyrir blóðið. Efnið sem gefur rabarbaranum rauða litinn er mjög öflugt og fullt af andoxunarefnum en þau eru nauðsynleg fyrir líkamann.

Stilkurinn hefur verið notaður í sultur, grauta, eftirrétti og svo má borða hann hráan. Margir muna eftir að hafa náð sér í rabarbarastilk og dýft honum í sykur og borðað þannig. Rabarbarinn er súr og þess vegna er sykur oft í rabarbarauppskriftum en hann má takmarka eins og hver vill.

Gott er að skera rabarbarastilkana niður og frysta þannig því þannig er rabarbarinn tilbúinn í matargerðina.

Uppskriftin sem hér fylgir er einstaklega einföld og á allra færi að útbúa.

Rabarbarabaka

200 g rabarbari

200 g Ritzkex (einn pakki)

1½ dl púðursykur

1 dl sólblómafræ, ristuð

3–4 msk. smjör, brætt

Látið kexið í plastpoka og kremjið þar til það verður að grófri mylsnu. Blandið púðursykrinum saman við mylsnuna. Skerið rabarbarann í bita og látið þá í bökudisk og dreifið kexblöndunni yfir. Ristið sólblómafræin á þurri pönnu þar til þau fara að gulna aðeins og stráið þeim yfir bökuna. Bræðið smjörið og hellið því yfir bökuna áður en hún er sett inn í ofn við 180°C í 25 mínútur. Berið fram heitt með rjóma eða vanilluís.

Ritstjórn júlí 23, 2021 07:40