Fögnum og gleðjumst á jólum

Séra Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum í Hjaltadal leggur áherslu á, í jólamessum sínum, hversu nálægur Guð er. Jólin boða að hennar mati að kærleikurinn er kominn í heiminn. Friður Guðs er kominn.  „Guð er ekki fjarlægt afl. Hann fæddist hér á jörð sem lítið barn, þess vegna getur hann samsamað sig okkur. Guð skilur okkur því hann varð manneskja í Jesú Kristi hér á jörð,“ segir hún og leggur áherslu á fögnuðinn.

Andinn lifir 

Biskup á Hólum

Biskup á Hólum

„Stórkostlegasta sönnun þess að Jesús hafi verið Guð holdi klæddur er upprisa hans. Þar varð sigur krafta Guðs yfir efninu. Andinn lifir að eilífu. Jólin boða okkur allt þetta. Þess vegna fögnum við og gleðjumst á jólum. Þess vegna fögnum við og gleðjumst yfir efnislegum hlutum, góðum mat og gjöfum og með skrauti hið ytra, en við megum ekki gleyma hinu andlega,“ sagði hún í einni af jólapredikunum sínum.

Prestur í rúm 30 ár

Solveig Lára heldur sín jól á Hólum en þangað flutti hún sumarið 2012 þegar hún var kjörinn vígslubiskup. Í sumar voru liðin 31 ár frá því hún tók prestvígslu. Hún varð aðstoðarprestur í Bústaðaprestakalli árið 1983, varð sóknarprestur á Seltjarnarnesi 1986,  sóknarprestur á Möðruvöllum í Hörgárdal árið 2000 og þar sat hún uns hún flutti til Hóla. Solveig Lára messar klukkan ellefu á aðfangadagskvöld í  Hóladómkirkju. Á jóladag messar hún klukkan tvö og á gamalársdag sér hún um helgistund í kirkjunni klukkan þrjú.

Forréttindi að messa á Hólum

 

Á leið í guðfræði

Á leið í guðfræði

,,Mér finnst forréttindi að fá að messa á Hólum. Kirkjan er einstaklega falleg. Hér hefur verið helgur staður frá því þjóðin tók kristni og maður finnur glöggt fyrir því. Hér talar sagan til manns,“ segir hún.Raunar eru veður oft válynd í Skagafirði á þessum árstíma. Á aðfangadagskvöld í fyrra gekk á með hríðarbyl og leit út fyrir messufall framan af kvöldi. Solveig  Lára og fjölskylda ákáðu að drífa sig út í óveðrið og í kirkjuna.  „Við sögðum að þetta yrði þá bara fjölskyldustund í kirkjunni. Það fór hins vegar á annan veg það var vel mætt í messuna, mér til mikillar gleði. Kirkjan fylltist af hinum sanna jólaanda,“ segir hún og bætir við að veðrinu hafi ekki slotað um kvöldið og messufall hafi orðið á jóladag.

Hólar í Hjaltadal

Hólar í Hjaltadal

Tvö um jól

Solveig Lára er gift séra Gylfa Jónssyni og eiga þau fjögur börn og þrjú barnabörn. „Það varð töluverð breyting á jólahaldi fjölskyldunnar þegar við fluttum út á land. Meðan ég þjónaði fyrir sunnan einkenndust jólin af því að messa og á milli þess sem ég var að messa vorum við í jólaboðum. Hérna fyrir norðan höfum við stórfjölskylduna ekki í nágrenninu, við förum því ekki í mörg fjölskylduboð. Börnin okkar hafa verið hjá okkur öll jól nema ein, þá voru þau veðurteppt fyrir sunnan.  Í ár verður sú breyting á að við Gylfi verðum tvö um jólin en um áramótin eigum við von á einu barnanna og yngsta barnabarninu sem fæddist í sumar. Ég hlakka mikið til þess að fá þau í heimsókn,“ segir Solveig Lára.

Villigæs og hangikjöt

Líkt og margir aðrir hefur Solveig Lára sínar matarhefðir á jólum. Hún vandist því sem barn að villigæs væri borin á borð á aðfangadagskvöl og allan hennar búskap hefur hún haldið í þá hefð.  „Við byrjum máltíðina á möndlugraut.  Hér fyrr á tíð þegar fólk hafði minni mat, var byrjað á grautnum til að fylla upp í magann. Þá þurfti minna af matnum, en nú er þetta orðið að hefð“  segir hún. Villigæsin er fyllt með eplum og sveskjum og borin fram með heimagerðu rauðkáli. Í eftirrétt er það svo heimagerður ís.  Á jóladag er svo hangikjöt með laufabrauði sem við skerum sjálf út fyrir jólin.

Vænt um kirkjuna

Prestur á Seltjarnarnesi

Prestur á Seltjarnarnesi

Hátíðar eru gleðilegir annatímar í starfi presta og Solveigu Láru þykir afar vænt um starfið sitt. Hún skrifaði hugvekju þegar hún átti þrjátíu ára starfsamæli og þar segir hún. „Mér þykir óendanlega vænt um kirkjuna mína. Henni hef ég helgað líf mitt.“ Þegar við kveðjumst þá hún við að það sé af þessum ástæðum sem henni finnist jól án kirkjugöngu óhugsandi.

 

 

Ritstjórn desember 23, 2014 18:00