Fólk fársjúkt þegar það kemst inná hjúkrunarheimili

Fundurinn var vel sóttur

Það var hvert sæti skipað á fundi sem Félag eldri borgara, Grái herinn og Samtök aldraðra gengust fyrir í ráðhúsinu um helgina, með fulltrúum allra framboða fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík. Fulltrúar 14 framboða mættu og höfðu fjórar mínútur til að kynna stefnumál sín í málefnum eldra fólks og á eftir voru  fyrirspurnir til frambjóðenda. Það sem bar einna hæst í umræðunni var skortur á hjúkrunarheimilum og kjaramál.

Rúmlega fimm hundruð íbúðir í byggingu fyrir eldra fólk

Áherslur allra flokka í málefnum eldri borgara voru svipaðar. Flokkarnir sem nú eiga fulltrúa í borgarstjórn samþykktu nýlega, án ágrenings,  stefnu Reykjavíkur í málefnum aldraðra til næstu fjögurra ára. Þar er lögð áhersla á að Reykjavík sé aldursvæn borg í öllu tilliti. Þá kom fram á fundinum að Reykjavíkurborg hefur lækkað fasteignagjöldin í borginni og aukið afslátt eldri borgara af fasteignagjöldunum. Rúmlega 500 íbúðir eru ýmist í byggingu eða á teikniborðinu í samstarfi við Félag eldri borgara, Samtök aldraðra og Grund. Tveir flokkanna, Sjálfstæðisflokkurinn og Frelsisflokkurinn vilja hins vegar fella niður fasteignagjöldin hjá fólki sjötugu og eldra.

Biðlistar alltof langir

Fulltrúar flestra flokkanna nefndu að það þyrfti að auka heimaþjónustu og heimahjúkrun í borginni, en það er ríkið sem greiðir fyrir heimahjúkrunina. Rætt var um skort á hjúkrunarheimilum í Reykjavík og um ástæður þess að rými á hjúkrunarheimilum eru ekki nógu mörg og biðlistar of langir. Fulltrúi Miðflokksins gagnrýndi borgaryfirvöld fyrir að hafa ekki í mörg ár sótt um að byggja fleiri hjúkrunarheimili.  Fram kom að alltaf væri verið að endurnýja færni- og heilsufarsmat þeirra sem bíða, en matið gildir í eitt ár. Fulltrúi íslensku þjóðfylkingarinnar, kona sem vinnur á hjúkrunarheimili sagði til dæmis „Biðlistar eru alltof langir, fólk er fársjúkt þegar það kemst á hjúkrunarheimili. Þetta er skelfilegt. Það verður að gera eitthvað í þessu“.  Hún benti líka á að það vantaði fleira starfsfólk á hjúkrunarheimilin. Fáliðað starfslið væri á hlaupum og hefði varla tíma til að brosa til fólks og bjóða góðan daginn. Borgarstjóri sagði að ríkið hefði ekki fallist á ítrekaðar óskir og kröfur bogarinnar um uppbyggingu hjúkrunarrýma, en ríkið borgar 85% af stofnkostnaði við byggingu hjúrkrunarheimila í landinu. Því var almennt fagnað á fundinum að heilbrigðisráðherra hefði boðað byggingu fleiri hjúkrunarheimila, en við Sléttuveg í Reykjavík verður eitt þessara nýju heimila.

Kjaramálin alltaf ofarlega á blaði

Margir frambjóðendur gerðu kjaramál eldri borgara að umtalsefni, þó kjaramálin séu alfarið á hendi ríkisvaldsins. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sagði að gengið hefði verið of nærri eldra fólki með gjöldum og skerðingum. „Við viljum ekki refsa fólki fyrir að vinna“ sagði hann. Fulltrúi Sósíalistaflokksins benti á að strípaður ellilífeyrir frá TR væri 100.000 krónum lægri en framfærslumörk. Miðflokkurinn vill að lífeyrissjóðum verði fækkað og að menn greiði skatt af gjöldunum í sjóðina þegar þeir greiða inn í þá, en ekki þegar þeir taka lífeyrinn út.

Aðsendar greinar allra framboða

Hér hefur verið stiklað á stóru í því sem fram koma á fundinum, en mörg önnur mál voru rædd og almennt var fundurinn mjög fróðlegur, þó vissulega sé það erfitt að stjórna umræðum með fulltrúum fjórtán framboða.  Það er heldur engin leið í svona stuttri grein að gera skil kosningamálum 14 framboða svo viðunandi sé.  Lifðu núna birtir hins vegar greinar allra framboða í borgarstjórnarkosningunum á forsíðu vefritsins, undir heitinu AÐSENDAR GREINAR. Þegar þetta er ritað hafa birst þar fjórar greinar, en fleiri eru væntanlegar og við hvetjum öll framboð til að senda okkur greinar til birtingar núna í aðdraganda kosninganna. – En hvað fannst fólki um fundinn?

 

Bryndís Hagan Torfadóttir

Það falla allir í þá gryfju að ræða það sem hefur verið gert í stað þess sem á að gera. Ég vil að það verði auðveldara fyrir þá sem búa heima og eru ekki komnir á hjúkrunarheimili,  að fá upplýsingar um hvað þeir geta gert og hvaða þjónusta stendur þeim til boða. Svo er það þessi skipting milli ríkis og sveitarfélaga í málefnum eldri borgara, hún setur bremsur á svo margt. Af hverju er þetta ekki sett undir einn hatt?“.

 

 

Guðmundur Gestsson

Þetta var nauðsynlegur fundur, en skilar litlu. Við erum búin að heyra þetta sama tal svo lengi. Fólk er búið að lofa þessu og hinu. Það var gott verk að koma þessu á, en segir mér ekki margt.

 

 

Ritstjórn maí 6, 2018 11:22