Foreldrar eða þrælar uppkomnu barnanna?

Þetta er svipað og hjá skátunum, einu sini foreldrar, ávallt foreldrar. En börnin verða fullorðin og þá er gert ráð fyrir að þau bjargi sér sjálf, bæði fjárhagslega og að öðru leyti. Það er því áleitin spurning, hvenær og hversu mikið á að hjálpa börnunum fjárhagslega. Á vefnum considerable.com  rákumst við á eftirfarandi grein eftir Marcia Kester Doyle, sem veltir þessu fyrir sér. Greinin  fer hér á eftir í lauslegri þýðingu.

Þegar rúmlega tvítugur sonur minn missti fyrsta starfið sitt og hafði ekki lengur efni á að borga húsaleiguna, voru mín fyrstu viðbrögð að bjóða honum að flytja aftur heim, þangað til hann kæmi sér aftur á réttan kjöl.

Það var frábært til að byrja með. Sonur minn hjálpaði til á heimilinu og hljóp undir bagga þegar ég var of upptekin til að koma við í matvörubúðinni eða sækja fötin í hreinsun. Eftir nokkrar vikur bólaði ekkert á nýju starfi og ég tók eftir að perningarnir fóru að fara hraðar út af heimilisreikningnum. Matarreikningurinn, rafmagnið og heita vatnið hækkuðu meira en ég hafði búist við.

Þegar óhreini  þvotturinn fór að safnast saman á gólfinu hjá honum og tómu flöskurnar voru farnar að flæða út úr í yfirfullri ruslafötunni, datt ég í umönnunargírinn og fannst að það væri mitt hlutverk sem móður að reyna að hressa hann við, af því hann var svo niðurdreginn.

Án þess að hika eitt augnablik, lánaði ég honum peninga fyrir bensíni, bílatryggingunni og símareikningunum með því skilyrði að hann borgaði mér tilbaka þegar hann fengi aftur vinnu. Ég gerði mér ekki grein fyrir því, að með því að ganga of langt bæði tilfinningalega og fjárhagslega til að hjálpa honum, var ég orðin meðvirk. Það gat hins vegar komið í veg fyrir að hann þroskaðist til að verða sjálfstæður einstaklingur.

Það liðu mánuðir þangað til hann fékk vinnu og flutti aftur út, en ég lærði mikilvæga lexíu meðan hann bjó heima. Hún var sú, að ef ég bjargaði börnunum mínum reglulega út úr fjárhagsvandræðum þeirra, færu  þau að gera ráð fyrir því að ég kæmi þeim til hjálpar þegar þau kæmust í hann krappan og færu jafnvel að taka aðstoðina sem sjálfsagðan hlut.

Ég þekki nokkra foreldra sem eru enn að borga símreikninga uppkominna barna sinna, hjálpa þeim með húsaleiguna og matarútgjöldin. Það er skiljanlegt ef börnin eru í tímabundnum vandræðum og þurfa aðstoða. En ef foreldrar halda áfram að halda uppkomnu börnunum sínum uppi mánuðum og jafnvel árum saman, eru þeir að stuðla að því sem margir upplifa sem ákveðið vandamál nú til dags, að ungt fólk sé bæði kröfuhart og vanþakklátt.

Rugla saman ást og fjárhagslegum stuðningi

Þegar ég og maðurinn minn urðum foreldrar fyrir rúmlega 30 árum, tókum við á okkur þær skyldur að sjá fyrir börnunum,vernda þau, elska og styðja á alla lund.  En það komu líka þær stundir, að við þurftum að sitja á okkur að grípa ekki inní  þegar illa gekk hjá börnunum, af því að við vissum að það var nauðsynlegt til að þau fengju ráðrúm til að læra að leysa úr vandanum og bjarga sér í veröldinni uppá eigin spýtur.

Því miður ofdekra margir foreldrar uppkomin börn sín. Rugla saman væntumþykju og fjárhagslegum stuðningi. Þeir gera þau mistök að halda að börnin elski og virði þá meira, ef þeir gefa þeim allt sem hugur þeirra girnist. Aðrir óttast að segja „nei“ vegna þess að þeir eru hræddir um að missa náið samband við börnin sín.

Það er í góðu lagi að hjálpa til annað slagið, en hvar liggja mörkin?  Hvenær hættum við að vera foreldrar fullorðinna barna okkar og verðum þrælar þeirra?

Spurðu þig þessara fjögurra spurninga.

  1. Borgar þú stóran hluta skulda barnsins, jafnvel þó það sé verulegt álag fyrir þig fjárhagslega?
  2. Tekur þú að þér að leysa vanda barnanna þinna og koma þeim umsvifalaust til bjargar, jafmvel þó það valdi þér verulegum óþægindum.
  3. Heldurðu áfram að lána barninu peninga, ef það er atvinnulaust og sýnir lítinn áhuga á að útvega sér starf, eða lifir hreinlega langt um efni fram?
  4. Ef þú neitar að lána barninu peninga eða greiða götu þess á aðra lund og það reiðist, gefurðu þá eftir til að forðast átök og uppnám í fjölskyldunni?

Ef þú svarar þessum spurningum játandi, þá er tími til kominn að setja uppkomna barninu ákveðin mörk, til að koma í veg fyrir meðvirkni. Það eru nokkrar leiðir til að koma á  heilbrigðara sambandi á milli ykkar. Notaðu eftirfarandi skref til að hjálpa þeim að verða sjálfstæðar fullorðnar manneskjur.

Mundu að það er í lagi að segja „nei“

Það gerir þig ekki að slæmu foreldri að segja nei,  það gerir þig að ábyrgu foreldri sem skilur mikilvægi þess að kenna barninu að verða sjálfs síns herra.

Ekki láta börnin pressa þig tilfinningalega, til að fá þig ofan af ákvörðun þinni. Þó þú sért sökuð um að vera óréttlátt eða kaldlynt foreldri, settu því mörk hversu mikið þú ert tilbúin að gera fyrir uppkomið barn þitt.

Ef börnin biðja hvað eftir annað um að fá bílinn þinn lánaðan eða ætlast til að þú takir þér nokkra tíma frí í vinnunni til að sækja þau út á flugvöll, leggðu til að þau taki rútuna á flugvellinum. Ef þau biðja oft um að þú lánir þeim peninga, sem þeir borga ekkert endilega tilbaka), minntu þau á að það sé ekki þitt hlutverk að sjá fyrir þeim fjárhagslega.  Sama hvað þú hefur í tekjur eða hversu mikinn sparnað þú átt í bankanum.

Það er þá von til þess að uppkomna barnið sjái að sér og  átti sig á því að það er kostur að vera sjálfstæður og skilji að þú ert foreldri þeirra en ekki banki.

Ef það reynist nauðsynlegt að styðja barnið þitt fjárhagslega, ræddu þá við það um fjármál áður en þú veitir því lán.

Þú skalt standast þá freistingu að segja barninu hvernig það eigi að nota peningana sem þú lætur það hafa. Settu upp greiðsluáætlun fyrir það, þannig að það skilji að það ber ábyrgð á að greiða skuldina. Ef börnin hafa ekki efni á að borga reglulega af láninu og eru búandi heima, útbúðu áætlun um leiðir sem þau geta farið til að minnka skuldina, svo sem eins og að slá blettinn, passa hundinn, þvo fjölskyldubílinn og sinna ýmsum erindum.

Ekki  nota gjafir til að stýra hegðan barnanna

Ef þú ákveður að gefa uppkomnu barni gjöf eða gera því annan greiða, ekki láta ákveðnar kvaðir fylgja með. Gjöf er gjöf og ef þú hótar að taka aftur eitthvað sem þú ert búinn að lofa, skapar það vantraust, reiði og valdabaráttu hjá barninu þínu. Ef þú sérð eftir einhverju sem þú hefur hjálpað barninu með, lærðu af mistökunum og hugsaðu þig betur um næst þegar svipuð staða kemur upp.

Það er gott að fá þakkir, en ekki ganga út frá því sem vísu

Gefðu gjafir eða gerðu börnunum greiða, af því að þig langar til þess, ekki vegna þess að þú viljir fá eitthvað tilbaka. Það er enginn tékklisti þar sem þú merkir við það sem þú hefur gert fyrir barnið þitt. Ef þér finnst hins vegar að gjafirnar séu ekki metnar að verðleikum og það sé litið á þær sem sjálfsagðan hlut, segðu börnunum frá því hvað þér finnst, án þess að dæma þau eða skipa þeim fyrir verkum. Ítrekaðu við þau að það sé eðlilegt að þakka fyrir sig, þegar eitthvað er gert fyrir þau.

Vertu uppkomnu barni fyrirmynd og lifðu ábyrgu lífi

Ef þú hefur slegið óteljandi lán í bankanum, lifað um efni fram á kreditkortinu og færð endalausar rukkanir héðan og þaðan, þá ertu börnunum þínum ekki góð fyrirmynd. Með svona hegðun ertu að senda út þau skilaboð að það sé í lagi að lifa um efni fram og láta eins og skuldirnar séu ekki til. Börnin telja þá allt eins að þau megi líka haga sér svona. Gefðu gott fordæmi með því að taka ábyrgð á fjármálum þínum og sníða þér stakk eftir vexti þegar kemur að útgjöldunum.

Leggðu áherslu á að skapa minningar en ekki á útgjöldin

Ef þú ætlar að skemmta þér með uppkomnu börunum þínum, eða jafnvel fara með þeim í sumarfrí, skaltu skipuleggja það með góðum fyrirvara og ræða hver á að borga hvað. Ætlar þú að borga allan reikninginn eða ætlastu til að þau borgi eitthvað?

Farðu yfir stöðuna og hvað það er sem allir ráða við fjárhagslega, skipuleggðu síðan ferðina með þeim, þannig að þið njótið tímans saman þegar þar að kemur. Með því að hjálpa uppkomnu börnunum að einbeita sér að upplifuninni frekar en útgjöldunum, ertu að leggja áherslu á mikilvægi fjölskyldutengslanna og skapa minningar sem munu endast allt lífið.

Ritstjórn janúar 5, 2021 08:24