Fóru í minna og ætla að ferðast fyrir mismuninn

Jenný Sigurbjörnsdóttir

„Við fluttum 1.mars og byrjuðum á því að fara frá kössunum til Tenerife í 10 daga til að hvíla okkur eftir allt þetta umstang“,segir Jenný G. Sigurbjörnsdóttir lyfjatæknir, en hún og maðurinn hennar Þorgrímur Baldursson rafiðnaðarfræðingur hjá Isavia, ákváðu fyrir nokkru að minnka við sig. Þau seldu raðhús sem þau áttu í Lindahverfinu í Kópavogi og keyptu sér stóra tveggja herbergja íbúð á jarðhæð í einu af elstu húsunum í Lundi í Kópavogi. Þau bjuggu í raðhúsinu í 17 ár, fluttu þangað þegar drengirnir þeirra tveir voru orðnir stálpaðir. Í dag eiga þau tvær afa- og ömmustelpur.

Mikill léttir að losna við skuldirnar

„Við erum farin að eldast og ég er ekki líkamlega sterk, þannig að það lenti á manninum mínum að sjá um allt í raðhúsinu þar sem við bjuggum. Það var kominn tími á viðhald og allt sem því fylgir og hann hafði áhuga á að skipta og fara í minna húsnæði, þar sem hann þyrfti sem minnst að gera. Ég var alveg sammála því.  Svo sáum við líka fram á að geta fengið peninga á milli og látið drauma okkar um að ferðast rætast. Við höfum bæði gaman af ferðalögum“, segir Jenný. „Við borguðum upp allar skuldir og erum alveg skuldlaus núna. Það munar ansi miklu og mikill léttir að losna við það. Það er þá ekki stöðugt verið að borga af lánum. Það munar um það og ekki sjálfgefið að hafa peninga til að geta ferðast“.

Stór pallur í suður

Tveggja herbergja íbúðin í Lundi er alveg sérstaklega rúmgóð og  skemmtileg. Þar er allt sem tvær manneskjur þurfa og bílageymsla í kjallaranum. Þau eru á jarðhæð, með pall sem snýr í suður og ætla að reisa þar skjólvegg.  Jenný segist nefnilega helst sakna garðsins og blómanna úr raðhúsinu. „Ég ætla að hafa blóm í pottum hérna úti yfir sumarið, það er svo gaman að hafa blómstrandi blóm. Það er alveg hægt þar sem eru pallar og svalir. Ein vinkona mín er með skrúðgarð á svölunum hjá sér“, segir hún.

Saknar ekki þess sem er farið

Hún segist verða að viðurkenna að það hafi verið átak að flytja. Þau hafi verið búin að vera svo lengi á sama stað og  átt svo mikið dót. „Það kemst bara ekki fyrir, maður verður að losa sig við helling“, segir hún. Þau gátu selt einhverja muni á sölusíðunum á netinu og fóru líka með mikið dót í Góða hirðinn.  „Börnin hafa ekki áhuga á þessu dóti. Það er enginn áhugi á einhverju sem mér finnst æðislegt“, segir Jenný og brosir og bætir við að það sé ekki hægt að vera með of mikið drasl í eftirdragi. Sumir hafi haldið því fram að barnabörnin gætu haft áhuga á þessum munum síðar, en það sé ekki á vísan að róa með það. Og hún sér ekki eftir að hafa losað sig við ýmsa muni „Ég er að minnsta kosti ekki farin að sakna þess sem er farið“, segir hún.

Maður hendir ekki bókum

Eins og svo margir sem minnka við sig, ráku þau Jenný og Þorgrímur sig á að það er erfitt að koma bókunum fyrir og líka erfitt að losa sig við þær. „Við erum búin að gefa mikið af bókum og Bókasafnið tekur við barna- og unglingabókum. Við höfum auglýst bókasöfn og þau hafa selst á netinu fyrir lítinn pening“, segir Jenný.  Þau Þorgrímur erfðu bæði mikið af bókum eftir foreldra sína. „ Þetta er mjög erfitt, maður er alinn upp við það að maður hendir ekki bókum og ég held að við höfum ekki hent neinni“, segir hún.  Þau dreymir um að kaupa sér bókaskáp með glerhurðum og einn veggur í íbúðinni bíður bókstaflega eftir honum. Jenný segir að það verði ekki mikið mál að fylla hann af bókum.

Lundur 3 í Kópavogi þar sem Jenný og Þorgrímur keyptu íbúð

Hefði ekki viljað vera eldri að minnka við sig

Þau fóru yfir allar sínar eigur þegar þau fluttu. „Það tekur sinn tíma en þá er það líka frá“, segir Jenný. Hún segir að það fylgi ein geymsla íbúðinni og allt verði að komast í hana „Og það kemst býsna mikið í hana“, bætir hún við.  Hún segir að það hafi verið mjög skrítið á nýja staðnum fyrst eftir að þau fluttu, en hann venjist vel. „Það var mikið veðursælla í Lindunum en hér“, segir hún. Hún segir líka að hún hefði ekki viljað vera mikið eldri, að minnka við sig, því þetta sé heilmikið fyrirtæki. Þau hjónin eru rétt rúmlega sextug.  En nú bíða þeirra spennandi ferðalög um heiminn og skemmtilegar samverustundir með fjölskyldunni og afa- og ömmustelpunum.  Mest langar þau að fara til Afríku, en þangað hafa þau aldrei komið þrátt fyrir heimshornaflakk á síðustu árum.

 

Ritstjórn júní 2, 2017 10:46