Ætla að vera áfram í húsinu

Hjördís Magnúsdóttir býr í einbýlishúsi í Garðabæ sem hún og maðurinn hennar Helgi Rafnsson byggðu sjálf fyrir 15 árum. Yngri sonurinn á heimilinu er til þess að gera nýfluttur að heiman og Hjördís og Helgi veltu fyrir sér að selja húsið og flytja í miðborgina, en hún er uppalin á Laufásvegi. „Það var svo sterk tilfinning að fara þangað aftur, helst í sama húsið“ segir hún, en á þessum tíma var hún líka a vinna í miðborginni.

Fór í Garðyrkjuskólann

Það varð samt ekki af því að þau seldu húsið. Hjördís sagði upp vinnu sinni í vor, lét gamlan draum rætast og hóf nám í Garðyrkjuskólanum í Hveragerði. Einbýlishúsið sem þau hjónin byggðu er ekki stórt. Það er 150 fermetrar, með tveimur svefnherbergjum, tveimur samliggjandi stofum og tveimur baðherbergjum. „Við vorum búin að búa í Bandaríkjunum“, segir Hjördís „og vorum vön þessum þægindum þaðan“.

Sér nýja möguleika í garðinum

„Við erum bara tvö hér“, heldur hún áfram. „En þetta er ekkert gríðarlega stórt. Mér fannst ég svo bundin yfir rósaræktinni í garðinum, fannst ég varla geta farið í burtu á sumrin“, segir Hjördís. En nú er garðurinn orðinn sjálfbær og Hjördís komin í nám í Garðyrkjuskólanum. Hún fór líka á námskeið í vistrækt, sem gengur út á að taka upp gömlu aðferðirnar í garðyrkju og á fleiri sviðum og hefja þær til vegs og virðingar á ný. Hún segist hafa mikla ánægju af því að jarðgera og búa til sína moltu sjálf.

Sparar plastpoka og ferðir í Sorpu

Í moltukassana fer allur garðaúrgangangur og allur úrgangur úr eldhúsinu, að undanskildum kjöt – og fiskafgöngum Þessi aðferð sparar marga plastpoka og ferðir í Sorpu. Hún sér því nýja möguleika sem tengjst garðinum í kringum húsið og hætti að hugsa um að selja og flytja. Sjá nánari upplýsingar um vistrækt hér. Hjördís segir líka að það sé mjög rólegt í hverfinu þeirra í Garðabæ og segir að gestir sem komi úr sveit á Norðurlandi, segi að kyrrðin í hverfinu sé meiri en í norðlenskri sveit. Hugsanlega er líka erfiðara að flytja úr húsi sem maður hefur byggt sjálfur.

 

 

Ritstjórn október 13, 2014 11:24